Húsnæðismál

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 12:53:53 (6743)

1998-05-18 12:53:53# 122. lþ. 130.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, KÁ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[12:53]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Þessi brtt. sem við erum að greiða atkvæði um er tilkomin vegna ábendinga frá Seðlabanka Íslands sem eðlilega spurði hvernig það gengi upp að gera ráð fyrir breytilegum vöxtum eða jafnvel lægri vöxtum þar sem stofnunin á að vera sjálfbær. Það liggur algerlega ljóst fyrir. En hér er hugmyndafræðin auðvitað skýr og klár. Þessi lán sem eitt sinn voru kölluð félagsleg aðgerð þau verða á markaðsvöxtum og það verður fróðlegt að sjá hversu margir það verða sem munu ráða við þau kjör sem boðið verður upp á og hversu margir munu yfir höfuð fá viðbótarlán en það er auðvitað algerlega á valdi sveitarfélaganna hvort þau vilja ábyrgjast slík lán og enn er hér anað út í óvissuna.