Þjóðlendur

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 15:35:59 (6766)

1998-05-18 15:35:59# 122. lþ. 130.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[15:35]

Jóhanna Sigurðardóttir (frh.):

Herra forseti. Ég hafði rétt hafið mál mitt áðan þegar hæstv. forseti óskaði eftir því að ég frestaði ræðu minni en í inngangi hennar nefndi ég að það frv. sem hefur verið tekið á dagskrá til 3. umr. um þjóðlendur er eitt af þeim fjórum málum sem þessi ríkisstjórn óskar eftir að fá afgreidd áður en þingi lýkur.

Hér er um að ræða það frv. af þessum fjórum sem ekki er ágreiningur um, þ.e. meginefni þess um að íslenska ríkið sé eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru háð einkaeignarrétti. Um þetta er mikil, góð og breið samstaða á þinginu. Hitt er engu að síður staðreynd að við í minni hluta allshn. fluttum nokkrar brtt. við 2. umr. málsins í fjórum töluliðum sem lutu að ýmsum þáttum sem við töldum brýnt að færa til betri vegar í þessu frv. Í fyrsta lagi höfum við gagnrýnt hið mikla vald sem hæstv. forsrh. fær með þessu frv. og raunverulega framsal Alþingis til framkvæmdarvaldsins að því er varðar ákvörðum um gjaldtöku og ráðstöfun hennar sem við teljum nokkuð stóran galla á frv., herra forseti. Auk þess töldum við að í þessu frv. sem og reyndar í öðru frv. um auðlindir í jörðu, sem hæstv. iðnrh. flytur, sé umhverfismálunum ekki gert eins hátt undir höfði og nauðsyn ber til.

Því miður, herra forseti, voru tillögur okkar, sem ég flutti ásamt hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur og Guðnýju Guðbjörnsdóttur, felldar við 2. umr. málsins, þ.e. um að fullt tillit verði tekið til umhverfisverndar og alþjóðlegra skuldbindinga í því efni og sjálfbærrar nýtingar í þjóðlendum. Eins það sem við töldum mjög mikilvægt að ná fram, þ.e. að í leyfum sem forsrh. á að veita til þess að nýta vatns- og jarðhitaréttindi, námur og önnur jarðefni innan þjóðlendna þá skuli greina þau skilyrði sem leyfishafa eru sett, þar á meðal um gildistíma leyfis, skýrslugjöf leyfishafa, skyldu hans til að hlíta eftirliti og greiða kostnað af því, um öryggis- og umhverfisráðstafanir, kaup vátrygginga vegna hugsanlegrar skaðabótaábyrgðar leyfishafa og um greiðslu leyfisgjalds.

Ég held, herra forseti, að meiri hlutinn hafi ekki fært nein rök, a.m.k. sem ég samþykki, fyrir því að ekki sé nauðsynlegt að hafa þessi ákvæði inni enda var það mjög gegnumgangandi í umsögnum um þetta frv. frá ýmsum umhverfis- og náttúruverndarsamtökum að bent var á að þeim þáttum í frv. sem lúta að umhverfismálum væri mjög ábótavant. Það kom m.a. mjög sterkt fram hjá Náttúruverndarstofnun, Náttúruverndarráði og Landgræðslu ríkisins og skal ég ekki tefja tíma þingsins með því að fara ítarlega yfir þær umsagnir aftur.

Ég vil líka nefna að Skógrækt ríkisins gerði sínar athugasemdir við þetta mál og lagði til brtt. einnig sem við töldum mjög mikilvæga sem lýtur að beitarfriðun og felur í sér að þeir sem nýtt hafa land innan þjóðlendu sem afrétt fyrir búfénað eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja skuli sækja um leyfi til umhverfisráðherra fyrir áframhaldandi nýtingu. En slíkri leyfisbeiðni skal fylgja mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar nýtingar.

Mér fannst í umræðum sem urðu um þetta sérstaka atriði varðandi beitarfriðunina að meiri hlutinn hefði ákveðinn skilning á því máli og að á því þyrfti að taka, en benti jafnframt á um leið að þá ætti að gera það í öðrum lögum. Ég studdi mál mitt mjög mikið með grein þar sem fram kemur í hvert stefni með beitarfriðun miðhálendis Íslands. Greinin er eftir Ólaf Arnalds náttúrufræðing og Ingva Þorsteinsson náttúrufræðing og í henni lýsa þeir því ítarlega hve alger beitarfriðun hálendisins sé nauðsynleg og leggja til að það verði til loka ársins 2000 og segja með réttu að menn eigi að sýna þann stórhug að styðja tillögu um að gefa miðhálendinu hvíld fyrir beit í hálfan annan áratug eftir nær 1100 ára óslitna beitarnotkun.

Þegar þetta mál var til 2. umr. óskaði ég eftir því við formann allshn. að einmitt þetta ákvæði yrði tekið til skoðunar milli 2. og 3. umr. ef vera mætti að það gæti leitt til samkomulags að hægt væri að flytja frhnál. þar sem lögð yrði áhersla á það að þegar á næsta þingi yrði lögum breytt sem tryggðu betur beitarfriðun en lögin gera nú. Ekki náðist samkomulag um að halda slíkan fund og því verður að vænta þess, herra forseti, að stjórnarliðar eða eftir atvikum stjórnarandstaða leggi á það áherslu á næsta þingi að inn komi frv. sem tryggi það sem hér hefur verið kallað eftir, þ.e. beitarfriðun miðhálendis Íslands til ársins 2015.

Ég skal láta það mál útrætt, herra forseti, en get ekki látið hjá líða nú þegar þetta mál er til lokaumræðu að draga enn og aftur athyglina að því mikla valdi sem forsrh. fær með frv. sem ég tel að sé alveg einstætt. Við reyndum mjög að fá fram brtt. og samkomulag við meiri hlutann um að Alþingi kæmi á ákveðinn hátt þarna að þessu máli að því er varðar gjaldtökuna sjálfa og að því er varðar ráðstöfun á henni. Við lögðum til að sú samráðsnefnd sem hæstv. ráðherra hefur sér til halds og trausts og m.a. á að gera tillögur um ráðstöfun tekna af réttindum innan þjóðlendu, skyldi gera tillögu til fjárln. Alþingis. Alþingi hefur nú einu sinni fjárveitingavaldið og við töldum að það væri eðlilegri farvegur að fjárln. kæmi þannig inn í þetta mál, þ.e. að nefndin gerði árlega tillögu til fjárln. Alþingis um ráðstöfun tekna á réttindum innan þjóðlendna að fenginni umsögn Náttúruverndar ríkisins og Landgræðslu ríkisins. Ekki eins og mér sýnist af þessu frv. að eigi að gera, þ.e. að hæstv. forsrh. ákvarði sjálfur þessa gjaldtöku, ákvarði sjálfur hvernig eigi að nýta það fé sem raunverulega enginn veit hvað er mikið og síðan komi hann eftir á til þingsins og gefi Alþingi skýrslu um þessa gjaldtöku og hvernig henni hefur verið ráðstafað.

[15:45]

Raunverulega er ekki skilgreint við hvað eigi að miða þessa gjaldtöku. Við vildum bæta þar úr og setja skýrari málsmeðferðarreglur eins og þær að gjaldið sem ráðherrar ákvarða skuli taka tillit til verðmætis þess sem afnot eru heimiluð á og að nánari ákvörðun um gjaldtöku skuli setja í lög um aukatekjur ríkissjóðs. Loks töldum við það mjög mikilvægt, sem núna er í lausu lofti, þ.e. við hvaða aðstæður á að bjóða út þegar um er að ræða nýtingu vatns- og jarðhitaréttinda, námur og önnur jarðefni innan þjóðlendu. Þar vildum við að fram kæmi að ráðherra skyldi láta bjóða út nýtingu lands og landgæða í þjóðlendum þegar ætla mætti að um verðmæta nýtingarkosti væri að ræða og þá ætti að fara fram útboð samkvæmt ákvæðum laga um framkvæmd útboða. Meira að segja varðandi þessa tillögu sem ég hefði haldið að væri sjálfsögð og hægt að fallast á, að þegar um væri að ræða verðmæta nýtingarkosti væri í öllu falli skylda að láta fara fram útboð, þá var ekki hægt að ná samkomulagi við meiri hlutann um slíkar málsmeðferðarreglur.

Við lögðum einnig til, til þess að draga úr þessu valdi hæstv. forsrh., að óbyggðanefndin sem er mjög mikilvæg nefnd í þessu ferli öllu saman, sem á að fara af stað varðandi miðhálendið, yrði skipuð af dómsmrh. en ekki forsrh.

Um þetta náðist ekki samkomulag, herra forseti, og ég held að það sé alveg full ástæða til þess að vekja athygli á því hvaða rök voru notuð við því þegar við spurðum hvort ekki væri hægt að ná samkomulagi um að ráðstöfun tekna af leyfum vegna nýtingar lands væri hjá Alþingi í stað forsrh. Þá fengum við þau svör, sem voru sett niður á blað af fulltrúa forsrh., að ráðstöfun teknanna sé þannig bundin með lögum að þær renni í ríkissjóð eða viðkomandi sveitarsjóð eins og annars mundi vera. Með þessu móti gengju tekjurnar til að sinna ákveðnum verkefnum eða þörf innan þjóðlendnanna sjálfra og þannig héldu þær að nokkru sögulegri sérstöðu sinni sem um margt kemur þá til með að svipa til nokkurs konar sjálfseignarstofnunar. Okkur fannst það afar furðuleg samlíking að bera hæstv. forsrh. saman við það vald sem sjálfseignarstofnanir hafa og setja samasemmerki á milli þeirra.

Um þetta, herra forseti, þýðir ekki að deila. Tilraunin var vissulega gerð til þess að ná fram þessum endurbótum á frv. sem við töldum mjög gott mál. Við í minni hluta höfum rætt það og sjáum ekki ástæðu til þess að fylgja þessum brtt. frekar eftir eða öðru sem gæti náð því markmiði sem við settum okkur og ég hef áður lýst. Svo virðist sem meiri hlutinn sé staðráðinn í að ná málinu fram eins og það var afgreitt við 2. umr. Ég vil halda því til haga að við í minni hlutanum studdum þær brtt. sem allshn. gerði, sem voru vissulega til bóta í þessu máli og nefndi ég sérstaklega ákvæðið varðandi gjafsókn, þ.e. það voru lagðar til breytingar á 17. gr. frv. sem fjallaði um málskostnað í málum sem rekin eru fyrir óbyggðanefnd. Rökin fyrir því að breyta þessu ákvæði við 2. umr. voru að telja yrði líklegt að málarekstur fyrir nefndinni gæti orðið kostnaðarsamur fyrir aðila, m.a. vegna gagnaöflunar, gerð uppdráttar og kaupa á sérfræðilegri aðstoð. Í starfi nefndarinnar verður ráðið til lykta í álitaefnum sem hafa mikla almenna þýðingu og varða mikilsverða hagsmuni einstaklinga og lögaðila.

Enda þótt almennt sé ekki gert ráð fyrir að menn hafi gjafsókn þegar mál eru til meðferðar í stjórnsýslunefndum verður að líta til þess að frumkvæði að því að mál verði tekið til meðferðar kemur frá ríkisvaldinu og því starfi er markaður ákveðinn tími. Þess vegna tel ég að brtt. sem við studdum hafi verið mjög til bóta.

Ég þarf, herra forseti, út af fyrir sig ekki að hafa lengra mál um þetta ágæta frv. sem er hér til lokaafgreiðslu í þinginu. Ég vil þó nefna mjög sérstaka umsögn stjórnar SSH sem kom um þetta mál og mér gafst ekki tækifæri til að ræða við 2. umr. málsins. Stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu tekur með mjög sérstæðum hætti á þessu frv. til laga um þjóðlendur og segir svo, með leyfi forseta:

,,Stjórn SSH telur þörf á að færa hálendið undir stjórnsýslu aðliggjandi sveitarfélaga. Einnig er nauðsynlegt, að mati stjórnar, að skilgreina eignarrétt á hálendinu, með því að greina á milli eignarlanda og annarra svæða þ.e. þjóðlendna.``

Síðan er rætt um þetta ágæta frv. sem ég held að sé mjög góð sátt um í þinginu, þessi grundvallaratriði. Þar telur SSH ástæðu til þess að lýsa því yfir að í þessu frv. sé um mestu eignatilfærslu Íslandssögunnar að ræða. Þeir telja ekki rétt, eins og frv. kveður á um, að skipa sérstaka nefnd á vegum forsrn. til að kanna eignarhald og úrskurða í kjölfarið um eignarrétt einstaklinga, félaga eða annarra á hálendinu og telur rétt að þetta falli undir sveitarfélögin. Mér fannst þetta afar sérstök umsögn og hún skar sig nokkuð úr öðrum umsögnum sem fram komu um þetta mál.

Herra forseti. Aðallega er það frv. félmrh. sem vissulega tengist þessu frv. sem deilur hafa staðið um á þessu þingi. Mér gefst væntanlega tækifæri til þess að ræða það við 3. umr. um það mál. Ég vil þó vekja athygli á því að það eru enn að berast mjög miklar athugasemdir, herra forseti, varðandi það mál og 3. gr. þess frv. sem við ræðum hér tengist því á vissan hátt. Ég mun því fara yfir það sem nýtt hefur komið fram í því máli þegar það mál fer á dagskrá, eins og grein sem birtist í Morgunblaðinu á sunnudaginn, um miðhálendið og stjórnsýslu og skipulag þess, sem mér finnst mjög áhugaverð grein og ákveðið innlegg inn í þessa umræðu. Hún gæti vel átt heima við þessa umræðu, en það er grein Páls Sigurðssonar prófessors sem ber heitið ,,Þessi vængjaða auðn``. Ég tel hana mjög athyglisverða og það hvernig Páll tekur á þessu máli. En ég get út af fyrir sig, herra forseti, beðið með að fara í það mál þar til við komum að sveitarstjórnarlögunum.

Eins og af þessu má sjá eru enn uppi mjög háværar raddir um að miðhálendisfrv. verði frestað. Enn telur sá stór hópur í þjóðfélaginu að von sé til þess að Alþingi fallist á að fresta þessu máli til haustsins. Þar sem við erum að tala um frestun á því máli þá vakti leiðari Morgunblaðsins sunnudaginn 17. maí athygli mína. Hann var undir fyrirsögninni Eitt af hjartans málum þjóðarinnar. Ég held að þjóðin sé farin að skynja hve mikilvægt mál er hér á ferðinni og geri það meira og meira með hverjum degi sem líður.

Morgunblaðið telur ástæðu til þess í leiðara sínum á sunnudag að taka þetta mál upp. Ég vil þá líka halda til haga í leiðinni þeirri skoðanakönnun sem fram hefur farið um þetta mál, þar sem mikill meiri hluti þjóðarinnar er andvígur því hvernig stjórnsýsla og hagnýtinguna á hálendinu á að vera og tengist lítillega því frv. sem við ræðum, sérstaklega að því er varðar 3. gr. þess. Ef ég gríp aðeins niður í þennan leiðara þá segir, með leyfi forseta:

,,Við þjóðlendufrumvarp forsætisráðherra er ekkert efnislegt að athuga. Það stuðlar að varðveislu hálendisins. Öðru máli gegnir um þær hugmyndir, að einstaka sveitarfélög hafi skipulagsrétt á sumum hálendissvæðum. Þótt sagt sé að í því felist ekki eignarréttur, felst yfirráðaréttur í rétti til skipulags. Það er staðfest í lögum, að íslenska þjóðin eigi fiskimiðin en öðrum hefur tekist að ná yfirráðum yfir þeirri auðlind.

Þess vegna er misráðið að afhenda einstökum sveitarfélögum skipulagsrétt á hálendissvæðum. Það fer best á því, að hálendissvæðið sé undir einni stjórn og að mikil íhaldssemi ríki um allar framkvæmdir á því svæði. Óbyggðir Íslands eru auðlind, sem á að varðveita. Umræður utan þings síðustu vikur ættu að hafa sannfært alþingismenn og stjórnvöld um að hér er á ferðinni eitt af hjartans málum íslensku þjóðarinnar.``

Síðan segir orðrétt í lokin, með leyfi forseta: ,,Þegar um slíkt mál er að ræða eiga þingmenn og ráðherrar að láta misskilinn metnað um skjóta afgreiðslu mála lönd og leið. Þjóðin á lýðræðislegan rétt á því að ræða framtíð hálendisins ofan í kjölinn. Það liggur ekki svo mikið á. Hinar miklu umræður valda því, að engum kemur til hugar að grípa tækifærið og hefja framkvæmdir, sem engin samstaða verður um. Þess vegna ættu meirihlutaflokkarnir á Alþingi og ríkisstjórn að sýna þau hyggindi að slaka á og gefa tíma og svigrúm til frekari umræðna.``

Nú er meira að segja Morgunblaðið, herra forseti, gengið til liðs við þann stóra hóp í þjóðfélaginu sem kallar eftir því að þingmenn og ráðherrar í meiri hlutanum láti misskilinn metnað um skjóta afgreiðslu máls lönd og leið og þau sýni þau hyggindi að slaka á og gefa tíma og svigrúm til frekari umræðna. (Gripið fram í: Þeir lesa ekki Moggann.) Nei, þeir lesa ekki Moggann. Ég held að það sé ákveðinn styrkur í því að stærsta málgagn þjóðarinnar sé gengið til liðs við þennan meiri hluta sem biður um frest á málinu svo hægt sé að ná meiri sátt um svo stórt mál sem hér um ræðir.

Herra forseti. Aðalerindi mitt í þennan ræðustól við lokaafgreiðslu þessa máls var að lýsa vonbrigðum mínum með það að tillögum okkar í minni hlutanum skyldi hafa verið hafnað, sérstaklega er varðar umhverfisþáttinn í þessu máli og það mikla vald sem forsrh. er fengið, raunverulega framsal á valdi Alþingis varðandi gjaldtökuna og ráðstöfun á því. Ég spái því, herra forseti, og það skulu vera mín lokaorð, að þetta mikla vald og framsal Alþingis til forsrh. muni verða deiluefni milli þings og framkvæmdarvalds þegar fram í sækir.