Þjóðlendur

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 15:59:47 (6767)

1998-05-18 15:59:47# 122. lþ. 130.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, SvG
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[15:59]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Við alþýðubandalagsmenn höfum stutt þetta frv. í meginatriðum. Við höfum gert ýmsar athugasemdir við það en teljum að það sé mjög mikilvægt að slá því föstu að landsvæði utan eignarlanda, þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi, séu þjóðlendur. Ég tel að það séu heilmikil tíðindi að þetta mál verði afgreitt eins og hér er gert ráð fyrir þó á því séu ýmsir gallar.

Ég tel reyndar að í þeirri umræðu sem í gangi hefur verið um frv. þrjú að undanförnu, hafi kannski ekki að öllu leyti verið gefin sú mynd af málunum sem skyldi. Meðal annars finnst mér að það hafi ekki komið nægilega skýrt fram hve mikil samstaða er um grundvallaratriði í þessu frv., þrátt fyrir ýmsa galla sem hv. 13. þm. Reykv. rakti m.a. hér áðan.

Gallarnir sem ég tel að séu á þessu eru auðvitað stjórnarfarsþátturinn, þar sem gert er ráð fyrir því að þessi lönd séu lögð til forsrh., eins og gert er ráð fyrir í 2. mgr. 2. gr. Ég viðurkenni þó að það er vandi að finna út hvernig hefði verið rétt að taka á þessum málum. Mér segir svo hugur að það sé rétt athugað hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur áðan, að þessi mál eigi oft eftir að koma inn aftur. Ég geri ráð fyrir því að þau ákvæði sem eru í 2. mgr. 2. gr. og sömuleiðis í síðari hluta 3. gr. og 4. gr. séu eins konar rammaákvæði sem eftir eigi að fylla út með mikið ítarlegri lagaákvæðum og það verði gert í framtíðinni. Ég held að við eigum bara að segja eins og viðurkenna að við erum ekki að ljúka þessu máli. Við erum í raun og veru að byrja en það er mikilvægt skref sem hefur verið stigið með því að fjalla um þjóðlendurnar eins og gert er í 1. gr. og víðar í frv.

Ég tel hins vegar að hin málin sem hér eru til meðferðar og einnig kölluð hálendismál, þ.e. sveitarstjórnarlagafrv. og auðlindafrv., séu annars eðlis. Þar höfum við haft mikið fleiri spurningar uppi. Við alþýðubandalagsmenn höfum lýst mjög harðri andstöðu við frv. um eignarhald á auðlindum í jörðu. Þar er verið að stíga mjög örlagaríkt skref við að afhenda landeigendum sennilega dýrmætustu auðlindir sem þjóðin á. Allt sem verður neðan jarðar verður afhent landeigendum. Það er í raun ægilegur gerningur og satt að segja, mér liggur við að segja því miður, ekki hægt að ná yfirliti yfir það hvaða afleiðingar það mun hafa að afhenda landeigendum allt sem er undir yfirborði jarðar. Það er alveg sama hvort það er steinarða upp undir yfirborðinu eða demantar og gull sem kynnu að finnast á margra, margra kílómetra dýpi.

Ég tel hins vegar að sú ákvörðun, að setja lög um þjóðlendur eins og hér er gert ráð fyrir, vegi nokkuð upp á móti þessum vanda þó ekki sé það nærri því eins og best væri á kosið. Þess vegna er ánægja okkar með þessa niðurstöðu blendin, þó að við séum tiltölulega sátt við þetta frv. eins og fram hefur komið í afstöðu fulltrúa okkar í allshn., hv. 12. þm. Reykv. Bryndísar Hlöðversdóttur.

Ég tel ekki ástæðu til þess af okkar hálfu, herra forseti, að fjölyrða um þetta mál frekar á þessu stigi og við munum haga afstöðu okkar til málsins í atkvæðagreiðslu við 3. umr. á sama hátt og við 2. umr.