Þjóðlendur

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 16:16:22 (6769)

1998-05-18 16:16:22# 122. lþ. 130.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[16:16]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í ræðum okkar kvennalistakvenna um þetta mál og um hálendisþrennuna svokölluðu þá erum við í meginatriðum sáttar við þetta frv. og teljum að það sé það langskásta af þessari þrennu. Þar á ég ekki síst við 2. gr. frv. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Íslenska ríkið er eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru háð einkaeignarrétti.``

Strax þarna kemur fram ákveðinn fyrirvari sem er: ,,... ekki eru háð einkaeignarrétti.`` Ef litið er svo til annars frv. þessarar þrennu, þ.e. frv. sem upphaflega hét frv. til laga um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu en mun nú vera kallað frv. til laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, þá segir þar í 3. gr.:

,,Eignarlandi fylgir eignarréttur að auðlindum í jörðu, en í þjóðlendum eru auðlindir í jörðu eign íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra.``

Það mætti ætla að hugmyndin sé að íslenska ríkið eigi að eiga þjóðlendurnar og hálendið en það er alls ekki nægilega skýrt og við vitum í raun og veru ekki á þessari stundum hvað þetta verða stór svæði. Þess vegna finnst mér, herra forseti, að það sé verið að nokkru leyti að leika hér sama leikinn og gagnvart fiskinum í sjónum. Það er sagt í einni lagagrein að þetta sé sameign þjóðarinnar en í annarri grein er nýtingarrétturinn fenginn einstaklingum. Ég hefði, herra forseti, gjarnan viljað sjá þetta orðað dálítið öðruvísi, þ.e. að miðhálendi Íslands sé eign íslensku þjóðarinnar og að það komi í hennar hlut að nýta þar auðlindir og skipuleggja það sem eina heild því að það er ekki bara frv. um nýtingu á auðlindum í jörðu sem kemur til með að trufla þessa mynd sem fram kemur í þjóðlendufrv. heldur er einnig frv. um sveitarstjórnarlögin þar sem til stendur að skipta miðhálendinu í svokallaðar sneiðar og því mun ekki vera hægt að líta á hálendið sem eina heild skipulagslega eða stjórnsýslulega séð. Þess vegna er ég ekki alveg sátt við þetta þó góða markmið sem kemur fram þarna í 3. gr.

Ég ræddi í fyrri ræðu minni um þessi mál um þau átök sem voru á fyrri hluta aldarinnar í hinni svokölluðu fossanefnd þar sem tekist var á um tvær grundvallarstefnur, svokallaða allsherjarstefnu annars vegar og séreignarstefnu hins vegar. Það er mjög athyglisvert að þá voru einmitt fulltrúar Sjálfstfl. hlynntir allsherjarstefnunni og vildu að þetta væri allt saman í eigu ríkisins. Hins vegar varð minnihlutaálit nefndarinnar ofan á og lögfest með vatnalögunum frá 1923. Síðan hafa fallið ýmsir dómar og þar sem ríkt hefur réttaróvissa í raun um það hver eigi miðhálendið þá hafa þessir dómar líklega stutt hver annan og ég vil túlka það svo að það hafi ef eitthvað sigið á þá hlið að séreignarrétturinn hafi styrkst á þessari öld vegna þess að Alþingi hefur ekki borið gæfu til að lögfesta fyrr frv. af því tagi sem hér er til umræðu. Þess vegna er ég ánægð með að þetta frv. skuli vera til umræðu og komið þetta langt en hins vegar ber að líta á að þeir fyrirvarar sem koma fram í 2. gr. þessa frv. og 3. gr. frv. um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu benda til að í raun og veru vitum við hvorki hve stórt svæði kemur til með að teljast þjóðlendur né hverjir koma til með að stýra þeim og nýta þær auðlindir sem þar eru, hvort sem það á við auðnina sjálfa og umhverfishliðina sem er auðvitað mjög mikilvæg og við kvennalistakonur leggjum megináherslu á, en líka allar hugsanlegar auðlindir sem þarna eru, m.a. virkjanamöguleika.

Ég vil að það komi fram, herra forseti, að þó að við séum ánægðar með meginmarkmið þessa frv. þá er ekki ljóst að markmið þess muni nást vegna tengslanna við hin frv. tvö sem eru að okkar mati algerlega óásættanleg bæði tvö.

Ég sé ekki, herra forseti, mikla ástæðu til þess að orðlengja mikið um þessi mál núna. Ég vil þó ítreka það sem kom einnig fram í fyrri ræðu minni um þetta mál að ég tel að það vald sem fengið er hæstv. forsrh. með frv. sé allt of mikið og í raun óásættanlegt. Það hefði verið mun vænlegra af fallist hefði verið á tillögu okkar stjórnarandstæðinga um að dómsmrh. skipaði fulltrúa í óbyggðanefnd í staðinn fyrir forsrh. Það hefði verið mun vænlegri leið. Það er mjög vandmeðfarið að hafa svo mikið vald eins og hér er lagt til og ég verð að segja, hæstv. forseti, að reynslan undanfarna daga, og allt að því valdhroki hæstv. forsrh. gagnvart þinginu, gerir mig ekki bjartsýna á að það sé rétt að láta svona mikið vald í hendur eins manns. Þess vegna vil ég ítreka þá andstöðu mína að ég tel að þarna væri mun eðlilegra að verki staðið ef fleiri aðilar kæmu þarna að og vald væri dreifðara.

Ég vil að lokum fagna því, herra forseti, að samkomulag virðist vera að nást hér um gang mála og vona að þingið eigi eftir að bera þess blæ á næstu dögum og að þetta frv. fái framgang. En vonandi verður hinum frumvörpunum breytt. Ég er ekki enn búin að sætta mig við að þau fari fram eins og þau eru núna.