Samkomulag um þingstörfin og þinghlé

Þriðjudaginn 19. maí 1998, kl. 10:34:46 (6772)

1998-05-19 10:34:46# 122. lþ. 131.92 fundur 402#B samkomulag um þingstörfin og þinghlé# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 122. lþ.

[10:34]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Undanfarna daga hefur það gerst nokkuð oft að við höfum komið hér í ræðustól til að tala um störf þingsins eða fundarstjórn forseta. Því miður hafa verið slæm tilefni að þeim umræðum hjá okkur, fyrirliðum stjórnarandstöðunnar og þingmönnum.

Í gær voru haldnir þeir fundir sem við höfum verið að kalla eftir. Við höfum sest niður til þess að ræða með hvaða hætti megi farsællega ljúka þingstörfum hér og reyna að leggja mat á það hversu langan tíma það taki að ljúka nauðsynlegustu málum sem menn munu koma sér saman um. Fyrir liggur samkomulag á milli formanna þingflokka og forseta þar sem fjallað er um hvaða mál verða tekin fyrir í dag. Samkomulagið er um að ljúka umræðum um húsnæðismál og frv. um almannatryggingar og endurgreiðslu sérfræðikostnaðar, hugsanlega að taka einhver landbúnaðarfrv., ef tími vinnst til, og taka atkvæðagreiðslur um heilbrigðismálin og hugsanlega landbúnaðarmál. Síðan munum við gera hlé á þingstörfum til mánudagsins 25. maí og við höfum komið okkur saman um það hvernig umræðan verði tekin upp um þau stóru mál sem þá bíða.

Mér finnst það mikilvægt, herra forseti, að á sama hátt og við höfum komið hér og talað um nauðsyn samkomulags um störf þingsins og um mikilvægi þess að ræða saman, þó að ósamkomulag sé um einstök mál og gífurlegur pólitískur ágreiningur um sum þeirra stóru mála sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að taka hér í gegnum þingið þá er afar mikilvægt jafnframt að koma hér og greina frá því þegar samkomulag hefur náðst og sátt er um hvernig þinghaldinu muni vinda fram. Þetta vildi ég láta koma fram hér úr ræðustól, herra forseti.