Húsnæðismál

Þriðjudaginn 19. maí 1998, kl. 11:05:27 (6777)

1998-05-19 11:05:27# 122. lþ. 131.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 122. lþ.

[11:05]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á að lesa upp áskorun frá sambandsstjórn Verkamannasambands Íslands. Sambandsstjórnin hélt fund í Reykholti dagana 15. til 17. maí. Hún hefur sent frá sér eftirfarandi áskorun:

,,Sambandsstjórn Verkamannasambands Íslands skorar á félmrh. að draga til baka frv. um húsnæðismál sem nú er til meðferðar á Alþingi og taka boði verkalýðshreyfingarinnar um viðræður þannig að sátt megi nást um málið.``

Þetta er áskorun frá Verkamannasambandi Íslands en innan raða þess eru þúsundir þeirra einstaklinga sem eru líklegir til að finna fyrir þeim breytingum sem verið er að gera á húsnæðiskerfinu. Það segir sína sögu að eftir að málið hefur fengið þessa umfjöllun á þingi og eftir að sýnt er að ríkisstjórnin er ákveðin í að reyna að keyra frv. í gegnum þingið og fá það afgreitt nú sér Verkamannasambandið ástæðu til að biðja eina ferðina enn um að það verði endurskoðað og þeirri áskorun er beint til hæstv. félmrh. og ríkisstjórnarinnar allrar. Fróðlegt væri að heyra viðbrögð hæstv. félmrh. á eftir við þessari ósk sem kemur frá Verkamannasambandi Íslands.

Þau viðbrögð sem hafa hins vegar komið frá ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum birtust okkur hér eða komu í ljós í máli talsmanns meiri hluta félmn. þegar hann kynnti breytingartillögur ríkisstjórnarinnar við frv. Hann sagði að gera þyrfti smávægilegar breytingar á frv. Þrátt fyrir þá gagnrýni sem fram hefur komið á Alþingi, þrátt fyrir áskoranir sem fram hafa komið frá verkalýðshreyfingunni og nær öllum almannasamtökum þessa lands sér ríkisstjórnin ekki ástæðu til að gera annað en smávægilegar tæknilegar breytingar á frv. sem lúta flestar að dagsetningum sem er hnikað lítillega til. Þetta eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þeim þrýstingi sem komið hefur víðs vegar að úr þjóðfélaginu um að gerðar verði miklar og gagngerar breytingar á frv. og þær verði undirbúnar með nefndarstarfi í sumar.

Við í minni hlutanum á Alþingi höfum rætt hvernig skuli brugðist við. Við ræddum um það í gær hvort rétt væri að gera tillögur um umfangsmiklar breytingar á frv. á þessu stigi og niðurstaðan varð sú að við létum það bíða til síðari tíma en hins vegar legðum áherslu á tvennt á þessu stigi máls eins og fram kom í máli hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur, formanns félmn. Það tvennt sem við leggjum áherslu á snýr að starfsfólki Húsnæðisstofnunar, að starfsöryggi þess verði tryggt í samræmi við þær yfirlýsingar sem hæstv. félmrh. hefur þegar gefið, að þeim yfirlýsingum verði fundinn staður í lögum.

Hæstv. félmrh. hefur lýst því yfir við starfsfólkið að hann muni gera allt sem í hans valdi standi til að tryggja starfsöryggi þess. Hann hefur ekki staðið við yfirlýsingar sínar að því leyti að það er í hans valdi að beita sér fyrir því að ásetningur hans verði lögfestur og við gerum svohljóðandi tillögu, með leyfi forseta:

,,Við 52. gr. Við 6. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Starfsfólk Húsnæðisstofnunar ríkisins skal hafa forgang um sambærileg störf hjá Íbúðalánasjóði.``

Það eru mörg dæmi þess að slíkt hafi verið gert við breytingar á stofnunum, bæði þegar ríkisstofnunum er breytt á einhvern hátt og má þar t.d. nefna Örnefnastofnun. Þar var sett inn í lagatextann að öllu starfsfólki skyldi tryggt starf við hina nýju stofnun. Þetta var gert þegar Pósti og síma var breytt í hlutafélag og má nefna fleiri dæmi um slíkt. Það var reyndar svolítið blendið vegna þess að að hluta til var verið að svipta starfsfólkið réttindum með þeim ákvæðum sem voru sett inn í lögin þannig að það var ekki allt til góðs í því efni. Engu að síður er ég að vekja athygli á því að hægt er með lögum að tryggja starfsréttindi starfsfólksins og það hefur verið gert. Ég spyr því: Hvers vegna vill hæstv. félmrh. ekki beita sér fyrir því að lagagrein af þessu tagi verði samþykkt? Nú má vel vera að hann muni koma til móts við okkur og beita sér fyrir því að þetta verði samþykkt og væri það hið besta mál.

Hin lagabreytingin sem við leggjum til lýtur að ákvæði til bráðabirgða þar sem fjallað er um vinnuna fram undan. Bráðabirgðaákvæðið er svohljóðandi, reyndar er það nú IX. bráðabirgðaákvæði nýprentaðs frv. eftir atkvæðagreiðslu sem fram fór í gær, og er svohljóðandi:

,,Við samþykkt laga þessara skal félagsmálaráðherra í samráði við fulltrúa sveitarfélaga, aðra félagslega byggingaraðila, ASÍ og BSRB vinna að úttekt á leigumarkaði hér á landi og kanna þörf fyrir leiguíbúðir næstu ár. Á grundvelli samstarfs þessara aðila skal lögð fram framkvæmdaáætlun sem framlög ríkisins og sveitarfélaga skulu taka mið af í framtíðinni. Á meðan unnið er að áætlanagerð þessari og til ársloka 2000 er heimilt að veita lán til leiguíbúða, sbr. VIII. kafla laga þessara, með óbreyttum lánskjörum. Fjöldi og upphæð lána skal taka mið af framlagi ríkissjóðs á fjárlögum og áætluðum kostnaði.``

Það er þessi tenging við fjárlög sem veldur því að við erum með dagsetningar inni í tillögu okkar um þetta ákvæði. Við segjum í breytingartillögu okkar, með leyfi forseta:

,,Við ákvæði til bráðabirgða IX. 2., 3. og 4. málsl. orðist svo: Á grundvelli samstarfs þessara aðila skal lögð fram framkvæmdaáætlun sem framlög ríkisins og sveitarfélaga skulu taka mið af í framtíðinni og skal hún liggja fyrir 1. okt. 1998. Fjöldi lána og upphæð þeirra, sem og framlög ríkisins, skulu taka mið af þeirri áætlun. Lánskjör til leiguíbúða skulu vera samkvæmt gildandi lögum.``

[11:15]

Við teljum mikilvægt að þessari vinnu verði hraðað og erum þess vegna með tillögu um að starfi skuli verða lokið í október árið 1998 þannig að menn fái hér eitthvað handfast vegna þess að mesti og stærsti skammtímaveikleiki þessa frv. --- þegar til lengri tíma er litið eru veikleikarnir stærri og meiri --- er sá að allt of margir endar eru lausir og þar er ég ekki aðeins að tala um reglugerðirnar 28. Ég er að tala um þá óvissu sem sveitarfélögin og félagasamtök sem sinna félagslegu húsnæði búa við. Það er mjög mikilvægt að þetta verði skýrt hið fyrsta. Síðan er náttúrlega ljóst vegna þess að hér er á ferðinni hápólitískt mál, að menn þurfa að hafa vitneskju um hvað ríkisstjórnin, stjórnmálaflokkar og einstakir stjórnmálamenn vilja gera fyrir næstu þingkosningar. Þetta er stórmál sem verður að sjálfsögðu til umræðu í næstu kosningum. Það segir sig sjálft og þá þarf að hafa eitthvað handfast. Hver er vilji ríkisstjórnarinnar? Hver er vilji og ásetningur Framsfl. og hver er vilji einstakra stjórnmálamanna? Öll rök hníga því að því að rétt sé að hraða þessari vinnu og þess vegna gerum við kröfu um að þessi dagsetning verði fest í lög.

Áður en ég skil við þessa þætti, þessar tillögur okkar, vil ég leggja mjög ríka áherslu á að ríkisstjórnin og meiri hlutinn íhugi mjög vel hvort hann vill ekki þrátt fyrir allt og sín sjónarmið í þessum málum koma til móts við okkur í þessum efnum. Ég veit það beint og milliliðalaust að starfsfólk í Húsnæðisstofnun hefur mjög þungar áhyggjur af framtíð sinni og það er mjög mikilvægt að taka þær áhyggjur og þær óskir sem þaðan hafa komið mjög alvarlega.

Það má spyrja hvort menn geri sér almennt grein fyrir afleiðingum þeirra breytinga sem verið er að gera. Hvort alþingismenn geri sér t.d. almennt grein fyrir afleiðingum þessara breytinga sem verið er að gera í húsnæðiskerfinu. Ég hafði það á tilfinningunni í gær þegar verið var að greiða atkvæði eftir 2. umr. um einstakar greinar frv. og menn voru að gera grein fyrir því hvað lægi að baki hverri einstakri grein og sá ekki betur en það kæmi svolítið á suma. Ég sá ekki betur en að þegar menn fengju yfirsýn yfir málið í þessu samhengi þá hafi það runnið upp fyrir mörgum manninum að hér væri hugsanlega á ferðinni lagafrv. og breytingar sem væru kannski pínulítið meira en umdeilanlegar, sem væru mjög vafasamar og sem hefðu kannski ekki verið hugsaðar alveg í þaula. Ég er því ekki viss um að allir þingmenn stjórnarliðsins hafi gert sér fulla grein fyrir því hve alvarlegt frv. er hér á ferðinni.

En hvað með aðra aðila? Skyldu aðrir aðilar hafa gert sér og gera sér grein fyrir þessum breytingum og hversu alvarlegar þær eru? (Gripið fram í.) Nei, segir hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir og ég held það sé rétt að í þjóðfélaginu almennt séu margir sem ekki geri sér grein fyrir því, en þeir gera sér grein fyrir því hjá OECD. Hjá OECD gera þeir sér vel grein fyrir því hve góða liðsmenn menn hafa á Alþingi Íslendinga. Hjá OECD sem vinnur sínar skýrslur í nánu samstarfi við fjmrn. viðkomandi landa, gera menn sér grein fyrir því hvað verið er að gera með þessum breytingum.

Í skýrslu OECD um íslensk efnahagsmál 1998 sem ég hef áður vitnað í úr þessum ræðustóli, segir á bls. 5 og menn eru þar að tala undir fyrirsögnum sem eru svohljóðandi:

,,Enda þótt fagna beri einkavæðingaráformum í þessu samhengi þá þyrftu þau að vera metnaðarfyllri og ná til húsnæðislánakerfisins.``

En svo segir að þetta sé ekki verra en svo að ýmislegt jákvætt sé að gerast í þessum efnum, að menn séu að stíga ýmis jákvæð skref, því hér segir í skýrslu OECD, með leyfi forseta:

,,Ríkisstjórnin er einnig að endurskoða hlutverk hins opinbera í fjármögnun íbúðarhúsnæðis. Húsnæðislánasjóðir í eigu ríkisins eru helsta uppspretta fjármagns til húsnæðisöflunar og eru þeir miklu stærri en þeir fjárfestingarlánasjóðir sem þjóna atvinnulífinu. Ríkið tekur enn lán fyrir hönd sumra þessara sjóða eða ábyrgist skuldabréf sem þeir gefa út. Enda þótt þessi aðferð lækki kostnað lántakenda leggur hún einnig byrðar á skattgreiðendur.``

Síðan segir að nú eigi að reyna að ná sama markmiði gegnum vaxtabótakerfið og það eigi að sameina þessa sjóði í eina stofnun og svo er haldið áfram, með leyfi forseta:

,,Þegar allt þetta hefur komið til framkvæmda verður væntanlega lítil ástæða til að halda þessari nýju stofnun í ríkiseign. Henni mætti breyta í húsnæðislánabanka sem hægt væri að selja einkageiranum.``

Þetta eru þau áform sem við höfum löngum vitað að væru uppi og ég minnti á það hér á sínum tíma að í umsögn sem félmn. barst um þetta frv. --- ég held hún hafi verið frá Ríkisendurskoðun --- var ekki talað um Íbúðalánasjóð. Þar var talað um hið nýja hlutafélag. Og við veltum því fyrir okkur hvort Ríkisendurskoðun hafi fengið rangt plagg eða einhver fyrri drög til umfjöllunar, en við nánari athugun hafi menn viljað fara hægar í sakirnar og ekki upplýsa þingið á þessu stigi um hvað raunverulega vakir fyrir mönnum. Reyndar held ég að það vaki ekki fyrir hæstv. félmrh. að breyta Íbúðalánasjóði í hlutafélag eða selja. Það held ég ekki. Ég held að honum hafi fundist hann hafa unnið mikinn og frækinn sigur gagnvart liðsmönnum fjmrn., Sjálfstfl., sem vildu í einu vetfangi færa þetta kerfi allt saman inn á verðbréfamarkaði --- ég skal gera hlé á máli mínu þangað til þessari samræðu er lokið.

(Forseti (ÓE): Henni er lokið. Þessari umræðu er lokið.)

(SvG: Hver sendi Ríkisendurskoðun þetta?) Það væri ástæða til að fá það upplýst hver hafi sent Ríkisendurskoðun drög til umfjöllunar þar sem vitnað er í hið nýja hlutafélag því að þannig fór það ekki frá félmn. sem hefur sent Ríkisendurskoðun og öðrum aðilum sem leitað var umsagnar um, frv. þegar það var komið fram. En ég er að vekja athygli á þessu samhengi og ég er að vekja athygli á því líka að Sjálfstfl. hefur lagt áherslu á að húsnæðismálin og öll fyrirgreiðsla í tengslum við húsnæðismál verði færð inn í banka og fjármálastofnanir.

Hæstv. félmrh. hefur streist gegn þessum áformum og finnst hann þess vegna hafa unnið mikinn sigur og það er rétt að þessu leyti. En tapið er því miður enn þá meira og stærra og alvarlegra og það er það sem er að renna upp fyrir mönnum, að tapið er meira en ávinningurinn, því það sem gerist samhliða þessu er að allt kerfið er markaðsvætt. Það er allt markaðsvætt. Það er farið með alla fyrirgreiðslu sem áður var í formi lágra vaxta inn í markaðsvexti, inn í háa vexti markaðarins, þótt niðurgreiðslur eða stuðningur eigi að koma í gegnum vaxtabæturnar sem er að flestra dómi nauðsynleg aðferð fyrir stóran hluta samfélagsins en mjög varhugaverð og hættuleg þegar til lengri tíma er litið og mjög vafasöm vægast sagt fyrir þá sem verst standa að vígi í þjóðfélaginu og vissulega fyrir þá aðila sem sinna félagslegum þörfum húsnæðiskerfisins. Er ég þar að vísa til húsnæðissamvinnufélaga, námsmannahreyfinga, Öryrkjabandalagsins, Sjálfsbjargar og allra þeirra sem hafa sent okkur ályktanir og áskoranir með varnaðarorðum af þessu tagi.

Þeir skilja þetta mjög vel hjá OECD, hvað er að gerast, og fagna þessu og telja þetta allt vera til mikilla bóta. Þeir gera sér líka grein fyrir því hjá Félagi fasteignasala. Þeir gera sér grein fyrir því hver ávinningur það er fyrir fasteignasala og þá sem höndla með húsnæði hér á markaði að fá allan mannskapinn, allt það fólk sem var í félagslega húsnæðiskerfinu og fékk fyrirgreiðslu þar, til sinnar skattheimtu. Því það er það sem er að gerast. Það verður ekki gert að kostnaðarlausu. Það er verið að afhenda þessum aðilum fólk til skattheimtu. Það er það sem er að gerast. Og þetta er umhugsunarefni fyrir Sjálfstfl. sem á sínum tíma vildi vera flokkur allra Íslendinga. Við bjuggum í stéttlausu þjóðfélagi, sagði Sjálfstfl. og Sjálfstfl. vildi tryggja hag hvers manns og einn hornsteinninn í þeirri stefnu var sjálfseignarstefna í húsnæðismálum, þ.e. að fólk gæti eignast sitt húsnæði og átt sitt húsnæði. (Gripið fram í: Ekki allir.) En nú hefur þetta snúist við. Það var sagt svo í orði. Auðvitað var fylgt allt annarri stefnu. Það var alltaf fylgt allt annarri stefnu. Sjálfstfl. hefur alltaf verið sama um þá sem standa lakast að vígi. Þannig hefur það verið í reynd þótt annað hafi verið talað. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Þannig er það og hefur alltaf verið í reynd. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Hann hefur þjónað fjármagninu og það er hann að gera í þessu frv. Það er hann að gera með þeim lagabreytingum sem hér er verið að leggja til. Enda er fagnað ákaft úr þeirri átt. Frjálshyggjumenn í þingsölum, fasteignasalar og aðrir slíkir eru yfir sig hrifnir en verkalýðshreyfingin og almannasamtök í landinu mótmæla.

En það sem ég er að segja um Sjálfstfl. sem áður sagði að hann vildi að allir gætu eignast sitt húsnæði --- hann sagði það --- er það að núna er hann að leggja til, og það deilir enginn um það að frv. sem Sjálfstfl. stendur hér að verður þess valdandi, að færri geta eignast sitt húsnæði. Það er ekkert umdeilt. Það vita það allir. Það er ekki umdeilt að færra fólk getur eignast sitt húsnæði. En hvar koma þá einstaklingar Sjálfstfl. inn í dæmið? Hvar skyldu þeir koma? Jú, það eru þeir sem fá fólkið til skattlagningar, til að græða á því, sem geta gert sér fátækt fólk á Íslandi að féþúfu. Það er það sem er að gerast. Sjálfstfl. er að stilla sér þannig upp. Hann stillir sér upp með fjármagnsöflunum, með þeim sem núna fá aukið tækifæri til að græða á alþýðu manna.

Og það er búið að samþykkja hér önnur lög sem gera þetta auðveldara. Á síðasta ári voru samþykkt gegn mótmælum stjórnarandstöðunnar, lög sem tóku þak, sem sviptu á brott þaki, sem hefur verið á þeim þóknunum sem fasteignasalar geta tekið fyrir viðskipti með húsnæði. Það var þak þar á. Mig minnir að það hafi verið 2%. Þetta þak var tekið til þess að gefa fasteignasölum skotleyfi út á húsnæðismarkaðinn. Það var tilgangurinn.

[11:30]

Þegar menn voru að réttlæta þetta, þá sögðu menn: Ja, það mun ekkert hækka. Markaðurinn mun sjá um það. En ef sú var raunin, hvers vegna þá að taka þakið brott? Af hverju kepptu menn ekki fyrir neðan tvö prósentin?

Nei, í því tilefni var farið að körfum sem komu úr þessari átt. Ég vek athygli á þessu vegna þess að ég er að benda á stórt púsluspil, stóra mynd sem er smám saman verið að fylla inn í. Þeir aðilar sem gera sér grein fyrir þessu, sérfræðingarnir hjá OECD, vita alveg hvað hæstv. félmrh. er að gera. Ég er ekkert viss um að hann geri sér grein fyrir því sjálfur.

Ég segi þetta ekki til að vera móðgandi við þann ágæta mann. En ég held að það eigi við um hann og mjög marga aðra sem hafa komið að lagasetningu, og ekki bara núna heldur á síðustu árum, og breytt hafa öllum kjörum og skipulagningu samfélagsins til að auðvelda fjármagninu eftirleikinn.

Þetta á við um þann hluta samfélagsins sem gerir sér grein fyrir því hvað er að gerast. Fasteignamarkaðurinn, sérfræðingar OECD, frjálshyggjan í heild sinni, er mjög meðvituð um hvað er að gerast.

Hvað með aðra aðila, t.d. sveitarfélögin? Þar komu misvísandi yfirlýsingar. Annars vegar komu yfirlýsingar frá aðilum sem hafa með húsnæðismál að gera í sinni daglegu önn, þ.e. húsnæðisnefndir sveitarfélaganna. Þær eru allar gagnrýnar á það sem er að gerast. Það er rauður þráður í umsögnum þeirra, mjög hörð gagnrýni. Þar er tónninn þessi: Frestið samþykkt þessa frv. Síðan eru reidd fram dæmi sem sýna fram á þann vanda sem skapast verði þetta gert að lögum. Þetta á við um húsnæðisnefnd Reykjavíkur, þetta á við um húsnæðisnefnd Kópavogs, Akureyrar, Hafnarfjarðar og þannig mætti áfram telja. Þessir aðilar gera sér grein fyrir því.

Hjá sveitarstjórnunum, Sambandi ísl. sveitarfélaga, hefur verið annar tónn. Þar áttu þau fulltrúa sem gætu hugsanlega verið að verja hendur sínar. (Gripið fram í.) Ég er ekki viss um að menn hafi gert sér fyllilega grein fyrir því hvað er að gerast. Ég held að það sé að renna smám saman upp fyrir mönnum hvað þetta muni þýða í reynd. Ég held að t.d. sveitarfélögin hafi talið það mjög til bóta og mikinn ávinning af því að losna við kaupskyldu. Ég held að það sé kerfi sem sé af hinu góða. Ég held líka að það eigi mjög almennan hljómgrunn í þjóðfélaginu að hafa aukið valfrelsi í þessu kerfi. Ég hef t.d. verið fylgjandi því. Verkalýðshreyfingin hefur almennt verið á því máli. Alþýðusambandið hefur samþykkt ályktun í þá veru, BSRB hefur gert það, gerði það fyrir mörgum árum. En það er ekki þar með að allir vilji gangast inn á aðrar breytingar sem gerðar eru.

Þannig held ég að þetta hafi verið hjá mörgum sveitarstjórnarmönnum að menn eru samþykkir ýmsum prinsippum, ýmsum grunnatriðum í hugmyndafræði frv., t.d. um valfrelsi, án þess að menn skrifi upp á annað. Þegar það rennur síðan upp fyrir mönnum þegar sérfræðingar sveitarfélaganna setjast yfir málin og sýna fram á niðurstöðuna með útreikningum þá held ég að annað hljóð komi í strokkinn og það held ég að hafi víða gerst. Þetta held ég að skýri misræmið sem þarna er á milli að einhverju leyti. Þó að sveitarfélögin losni við kaupskylduna eru þau að fá aukna bagga á öðrum sviðum. Það sem gerist er að þau munu þurfa að reiða fram miklu hærri upphæðir í húsaleigubótum. Húsaleigubætur eru á ábyrgð sveitarfélaganna, þær eru á ábyrgð sveitarfélaganna þannig að þar verður stóraukinn baggi sem kemur til með að hvíla á sveitarfélögunum. Í annan stað verða lánskjör sveitarfélaganna við að reisa félagslegt húsnæði miklu þyngri, þau verða erfiðari. Þegar þetta kemur saman og einnig aðrir þættir þá held ég að sveitarfélögin muni almennt séð fara illa út úr þessum breytingum.

Þeir sem fara hins vegar vel út úr þessum breytingum eru þeir sem sýsla með þessi mál á almennum markaði. Það er staðreynd. (Gripið fram í: Ríkissjóður.) Hugsanlega ríkissjóður. En við eigum eftir að sjá þegar upp er staðið hvernig það verður gert. Fjármagnsmarkaðurinn mun t.d. fara vel út úr þessu, hann mun gera það. Stærri upphæðir verða í vaxtagreiðslur. Greiðslur í þessu kerfi munu allar taka mið af því sem gerist á markaði. Peningar sem komu áður beint frá ríkissjóði munu núna fara í gegnum fjármagnskerfið allt saman sem tekur sinn toll. Fyrir samfélagið allt er þetta því miklu dýrara kerfi.

Síðan hafa menn gerst slíkar agnar smásálir að þeir hafa reynt að finna út einhvern kostnað hjá þeirri stofnun sem sinnir þessu og blása hann út úr öllu samhengi. Sá kostnaður er ekki mikill. Húsnæðisstofnun hefur verið látin gjalda þess hve ríkið hefur vanrækt þennan málaflokk iðulega, t.d. Byggingarsjóð verkamanna. Hann hefur ekki fengið það fjármagn sem hann hefði þurft að fá til að geta staðið við skuldbindingar sínar og stefnir þess vegna í þrot upp úr næstu aldamótum, bara vegna þess að hann hefur verið vanræktur. En eftir þetta verður öllum þessum fjármunum velt í gegnum fjármagnskerfið sem kemur til með að taka sinn toll. Þetta kerfi verður þess vegna miklu dýrara fyrir einstaklingana og fyrir samfélagið þegar upp er staðið.

Gerir fólk sér almennt grein fyrir því sem hér er að gerast? Gera einstaklingar og fjölskyldur sér almennt grein fyrir því sem hér er að gerast? Ég er ekki viss um að það hafi komist alveg nógu vel til skila og ég held að það eigi því miður eftir að gerast seinna. Menn einblína á hið jákvæða í þessu, einblína á að nú verði aukið valfrelsi til að ákveða hvar menn búa. Njótirðu félagslegrar aðstoðar í gegnum húsnæðiskerfið getur þú sjálfur tekið um það ákvörðun hvar þú býrð, sem er hið besta mál. Um leið er verið að reisa ýmsa þröskulda. Verið er að gera það erfiðara að eignast húsnæði, það verður miklu erfiðara og um það deilir ekki nokkur maður. Um það er ekki deilt. Allir eru sammála því að niðurstaðan verði sú. Menn eru einfaldlega að deila um það hvernig þessari þörf á leigumarkaði skuli mætt en ekki hitt að Framsfl. og Sjálfstfl. séu að draga úr möguleikum fólks, einstaklinga og fjölskyldna til að eignast húsnæði. Um það deilir enginn. Það er verið að gera þetta.

Fólk á leigumarkaði kemur til með að þurfa að borga hærri leigu. Einhvers staðar þarf að mæta þessum kostnaði. Einhvers staðar þarf að mæta þeim aukna kostnaði sem kemur til með að leggjast á Búseta, á Öryrkjabandalagið, á Sjálfsbjörg, á námsmannabústaðina, á íbúðarhúsnæði námsmanna. Þaðan hafa komið miklar ályktanir með áhyggjum manna, bæði af Reykjavíkursvæðinu og víðs vegar að af landinu, t.d. Laugarvatni þar sem menn hafa verið að reyna að byggja upp heimavist. Þar þykir sýnt að verði ekki eitthvað að gert þá muni kostnaður þeirra aðila sem hafa sinnt þessari þörf stóraukast og þar af leiðandi muni húsaleigan hækka.

Ég ætla síðan að ljúka máli mínu á því að vitna í þær áskoranir sem hafa komið fram frá verkalýðshreyfingunni og almannasamtökum sem sinna félagslegu húsnæði. Ég ætla ekki að fara nánar út í einstakar greinar frv., það hefur verið gert. Ég er búinn að gera það og aðrir þingmenn hafa gert það í ræðum sínum. Við gerðum þetta einnig við atkvæðagreiðsluna í gær. Þar komum við fram með skýringar við einstakar lagagreinar. Hér er samanheftaður bunki með yfirlýsingum og álitsgerðum sem félmn. barst. Mikill meiri hluta þeirra blaða sem hér eru saman heftuð hefur að geyma gagnrýni og varnaðarorð. Ég ætla ekkert að fara nánar í það. Það hefur verið gert í þingræðum en þess í stað ítreka ég þá ályktun sem birtist í dagblaði fyrir nokkrum dögum, 12. maí í Morgunblaðinu, og ætti að vera enn í gildi í dag, því að enn er ekki búið að samþykkja frv. Hér er þeirri áskorun beint til alþingismanna, að fresta húsnæðisfrv. Það er mikil bjartsýni sem einkennir þessa áskorun og þessa auglýsingu. Hvers vegna segir ég það? Jú, vegna þess að henni er beint til alþingismanna. Henni er ekki beint til ríkisstjórnarinnar, henni er ekki beint til hæstv. félmrh., henni er beint til alþingismanna. Menn trúa því að alþingismenn ætli að standa í fæturna í þessu máli.

Gæti það verið? Gæti það verið að alþingismenn ætli að sýna sjálfstæði í þessu máli? Gæti verið að alþingismenn ætluðu að sýna sjálfstæði sitt í þessu máli en hrekjast ekki undan svipuhöggum úr Stjórnarráðinu í þessu máli eins og reyndar ýmsum öðrum? Hér er verið að kalla úti í sal og tala um svipuhögg minni hlutans. Sennilega er það tilraun til að lengja umræðuna, það er alveg guðvelkomið. Það er alveg guðvelkomið að tala um hvaðan svipuhöggin koma í þessu máli eins og reyndar ýmsum öðrum.

Það sem alþingismenn hafa verið að gera í umræðunni, sumir í löngu og ítarlegu máli, er að gera tvennt. Það er að vekja athygli þjóðfélagsins á því sem hér er að gerast. Það gerum við í gegnum ræður okkar og fjölmiðla sem fylgjast með umræðunni og að hluta til er umræðunni sjónvarpað beint. Við erum að koma skýringum til fólks á því sem er á ferðinni og reyna að hafa áhrif á þingmenn.

Staðreyndin er hins vegar sú að stjórnarþingmenn eru ekki viðstaddir umræður með örfáum undantekningum, hér eru hv. þm. Kristján Pálsson og Pétur H. Blöndal, menn sem eru mjög oft við umræður um þessi mál og ýmis önnur, það er rétt. Það gildir því miður ekki um alla félaga þeirra. Alþingismenn koma almennt til þess að greiða atkvæði. Vissulega geta menn setið á skrifstofum sínum og fylgst með sjónvarpsútsendingum en þeir koma til að greiða atkvæði. Þá á það við um þetta mál eins og mörg önnur að ef menn hafa ekki sett sig rækilega inn í málin hlýða menn fyrirskipunum úr Stjórnarráðinu eða frá flokkum sínum. Það er því miður þetta sem gerist. Ég er að segja að í því felist ákveðin bjartsýni, það felst í því bjartsýni hjá þeim sem standa að þessari auglýsingu og hvetja alþingismenn til að verða við óskum um að fresta frv. því að þeir sem greiða atkvæði þegar á hólminn kemur.

[11:45]

Ég ætla að ljúka máli mínu með því að lesa upp þau samtök sem standa að þessari áskorun. (PHB: Einu sinni enn.) Einu sinni enn, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal. Á aftur að fara að tala um þessi samtök? Á aftur að fara að tala um stærstu samtök launafólks í landinu? Á aftur að fara að tala um Öryrkjabandalagið? (Gripið fram í.) Á aftur að fara að tala um Sjálfsbjörg? Á aftur að fara að tala um Landssamband eldri borgara? Á að fara að blanda þessu fólki inn í þessi húsnæðismál? Eða gerir hv. þingmaðurinn sér ekki grein fyrir því að með þessu frv. er verið að vísa fátæku fólki út á götuna? Það er það sem er að gerast. Það er þess vegna, án þess að þingmaðurinn sé að reyna að gera lítið úr samtökum launafólks eða Öryrkjabandalaginu eða Sjálfsbjörg eða Félagi eldri borgara, eða Verkamannasambandi Íslands, sem sendi frá sér ályktun í gær þar sem það biður um að þessu máli verði frestað, þá vara ég menn við því að vera annaðhvort með hótfyndni eða vera að gera lítið úr þessum samtökum, verkalýðshreyfingunni eða þessum samtökum hinum því að ég minni menn á það að málinu er ekki lokið. Því er ekki lokið. Því lýkur ekki við þessa umræðu á þingi og því mun ekki ljúka heldur við atkvæðagreiðslu sem kann að fara fram í næstu viku eða síðar. Þetta mál verður til umræðu á næstu mánuðum og missirum. Að sjálfsögðu verður rætt um húsnæðismál í komandi kosningabaráttu. Þá munu þeir aðilar sem hafa skrifað nöfn sín undir fjölmargar ásakanir af þessu tagi láta þessi mál til sín taka. Þá mun Pétur H. Blöndal og félagar hans á Alþingi, fá tækifæri til að gera grein fyrir þessum málum milliliðalaust við þessa aðila.

Undir áskorunina skrifa eftirtaldir: ASÍ; BSRB; Neytendasamtökin; Kennarasamband Íslands; Leigjendasamtökin; Landssamtökin Þroskahjálp; Geðhjálp; Félagsstofnun stúdenta; Búseti; Öryrkjabandalag Íslands; Sjálfsbjörg, Landssamband fatlaðra; Byggingarfélag námsmanna; Nemendagarðar Samvinnuháskólans; Félag einstæðra foreldra; Sjálfsbjörg, Félag fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu; Landssambandið Þak yfir höfuðið; Hússjóður Öryrkjabandalagsins; Blindrafélagið; Húsnæðisfélagið SEM; Sólheimar; Félagsstofnun stúdenta á Akureyri; Bandalag ísl. sérskólanema; Nemendagarðar Bændaskólans á Hólum; Styrktarfélag vangefinna; Félag ábyrgra feðra; Landssamband eldri borgara.

Þetta eru lokaorð mín. Ég legg til að við förum að óskum og kröfum þeirra aðila sem ég las upp.