Húsnæðismál

Þriðjudaginn 19. maí 1998, kl. 11:55:19 (6780)

1998-05-19 11:55:19# 122. lþ. 131.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 122. lþ.

[11:55]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Skyldu öll þau félagasamtök sem auglýstu í Morgunblaðinu hafa misskilið eitthvað? Þau eru reyndar ekki að tala um að þetta frv. eigi ekki að fara í gegn heldur að biðja um frestun á viðkomandi frv. fram á haustið. Það er mikill munur á því tvennu.

Síðan vil ég bara segja það um þær húsnæðisnefndir sem hafa skilað áliti þvert á skoðanir sveitarstjórnanna að það er að sjálfsögðu eitthvað sem liggur þar að baki. En ekki er endilega víst að það sé vegna þess að þær treysti ekki sveitarfélögunum til þess að gera þetta með sama hætti og ríkinu heldur eru margs konar hagsmunir sem þar koma að, m.a. þeir að þessar húsnæðisnefndir munu missa töluvert af þeim störfum sem þar hafa verið á undanförnum árum og áratugum. Auðvitað er það ein ástæðan. Sveitarstjórnirnar sjá náttúrlega málið öðruvísi og líta það öðrum augum.

Varðandi þetta mál almennt þá hef ég lýst skoðun minni hér í þinginu og gerði það á laugardaginn og hafði ekki hugsað mér að taka aftur til máls. En maður getur ekki orða bundist þegar þessi hrynjandi ríður yfir salinn dag eftir dag að verið sé að vísa fátæku fólki út á götuna.

Auðvitað eru einhverjir biðlistar í Reykjavík eins og alltaf hefur verið. Fólk streymir hingað alls staðar að af landinu og auðvitað eru einhverjir biðlistar en aftur á móti er verið að vinna á þeim. Það á að setja upp nefnd sveitarfélaga, ríkis og hagsmunasamtaka sem á að reyna að leysa úr brýnni þörf á leigumarkaðnum hér á svæðinu og á landinu öllu. Ég treysti því að út úr þeirri nefnd komi niðurstaða sem allir geta sætt sig við. Þessar 50 leiguíbúðir voru hugmynd sem kom frá fjmrn. Í félmn. gerðum við okkur strax grein fyrir því að þetta var óraunhæf tala. Þess vegna hefur í störfum nefndarinnar hvergi verið talað um einhverja ákveðna tölu upp á 50 íbúðir.