Húsnæðismál

Þriðjudaginn 19. maí 1998, kl. 11:57:31 (6781)

1998-05-19 11:57:31# 122. lþ. 131.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 122. lþ.

[11:57]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv.forseti. Það er alveg rétt sem kemur fram í máli hv. þm. Kristján Pálssonar að fólk streymir til þeirra sveitarfélaga sem veita skárri félagslega þjónustu en gerist sums staðar annars staðar. Þetta mun að mínum dómi aukast. Eftir því sem auknar byrðar verða settar á sveitarfélög mun það gerast að þar sem íhaldssöm öfl ráða ferðinni og sinna ekki félagslegu hlutverki mun fólk hrekjast brott og vera hrakið brott. Ég hef talað um að það séu sum sveitarfélög, t.d. í nágrenni Reykjavíkur, sem ekki sinna skyldum sínum í þessum efnum. Ég hef talað t.d. um Garðabæ í þeim efnum og ég hef nefnt önnur sveitarfélög. (Gripið fram í.) Nú er verið að leggja auknar byrðar á sveitarfélögin þannig að þetta mun aukast.

En mér fannst það kaldar kveðjur sem húsnæðisnefndum sveitarfélaganna voru sendar. Hv. þm. spurði hvað gæti legið að baki álitsgerðum þeirra. Það sem liggur að baki eru tölur og útreikningar og rökstuðningur og á þeim rökstuðningi tökum við mark.

Varðandi félagasamtökin sem hv. þm. gat um áðan ... (Gripið fram í: Tekurðu ekki mark á sveitarfélögunum?) Jú, ég geri það. En ég var að reyna að skýra misvísandi upplýsingar sem þaðan kæmu og hvernig gæti staðið á þeim. Ég var að reyna að skýra það. Ég var að skýra sjónarmið mín í þeim efnum.

Varðandi það sem hv. þm. sagði áðan um félagasamtök, Öryrkjabandalagið, Búseta og önnur slík, er staðreyndin sú að verið er að þyngja lánin sem þau koma til með að fá. Það er verið að fara með þetta inn í markaðsvaxtakerfi og mikill munur er á 1% vöxtum og 5% vöxtum. Bráðabirgðaákvæði sem kunna að vera þar inni eru til bráðabirgða og allt óljóst í þeim efnum.