Húsnæðismál

Þriðjudaginn 19. maí 1998, kl. 11:59:51 (6782)

1998-05-19 11:59:51# 122. lþ. 131.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 122. lþ.

[11:59]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. varðandi nýja frv. að aðalatriðið í því er að fólk getur valið sér íbúð og hann er a.m.k. ánægður með það í frv. En það leiðir líka strax af sér samkeppni því ef fólk getur valið sér íbúð er það ekki háð því að fá íbúðina hjá alveg sérstökum samtökum.

Ég hef fylgst nokkuð með umræðunni og ég er búinn að hlusta á upplestur á þessari ágætu auglýsingu, ég held a.m.k. tvisvar eða þrisvar. Nú er ég ekki svo treggáfaður að ég geti ekki munað þetta deginum lengur og ég las meira að segja auglýsinguna sjálfur þannig að mér finnst fulllangt gengið að lesa þessa auglýsingu aftur og aftur. Það er eins og menn reikni ekki með því að þingmenn fylgist með umræðu yfirleitt.

Hv. þm. talaði af miklu viti um fjármálamarkaðinn og var tíðrætt um völd kapítalsins. Aðalkapítal á Íslandi er kapítal lífeyrissjóðanna. Nú vill svo til að hv. þm. er í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins undir styrkri stjórn formannsins, sem er Indriði Þorláksson, skrifstofustjóri í fjmrn. Nú langar mig til að spyrja hann, sem þátttakanda í þessu mikla kapítali, hvað ráðstafaði hann mörgum milljörðum á síðasta ári sem stjórnarmaður í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins? Hvaða ávöxtun náði hann á þetta fé fyrir umbjóðendur sína?