Húsnæðismál

Þriðjudaginn 19. maí 1998, kl. 12:03:31 (6784)

1998-05-19 12:03:31# 122. lþ. 131.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 122. lþ.

[12:03]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. svaraði ekki spurningu minni um það hvað hann ráðstafaði mörgum milljörðum á síðasta ári sem þátttakandi í þessu mikla kapítali sem honum verður svo tíðrætt um, þ.e. lífeyrissjóðakapítalinu og verkalýðs- og Vinnuveitendasambandskapítalinu. Og það er meginkapítalið á Íslandi því allt annað kapítal bliknar við hliðina á þessu kapítali.

Hann lýsti því yfir áðan að hann fylgdi þeirri stefnu sem stjórnamaður Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins að gefa peninga og hann veit hver borgar þá peninga vegna þess að ríkissjóður ber beint og óbeint ábyrgð á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Það hækkar nefnilega iðgjaldið sem ríkið þarf að borga ef sjóðurinn skilar ekki ávöxtun. Hann er sem sagt að segja að hann ætli að taka peninga skattgreiðenda og gefa einhverjum samtökum peningana og hann ákveður hver fái. Hann ætlar að gefa peninga skattgreiðenda.

Nú leitar á mann sú hugsun að hann í rauninni óttist samkeppni, bæði á fjármagnsmarkaðnum af því að hann hefur ekki náð þeim vöxtum sem honum ber sem vörslumanns ríkissjóðs alla vegana og eins óttist hann samkeppni á húsnæðismarkaðnum. Öll þau samtök sem skrifuðu undir þessa auglýsingu, eða flest þeirra, reka stór batterí með fjölda íbúða sem þau leigja út. Enginn getur sagt hvort sú leiga er of há eða lág, hvort þau reka þetta vel eða illa, vegna þess að það er engin samkeppni. Þau hafa hingað til fengið neikvæða eða lága vexti og getað keppt á þeim grundvelli, auk þess sem þau njóta skattfrelsis. Þau borga ekkert í tekjuskatt og þau njóta líka eignarskattfrelsis. Þau borga ekki eignarskatt.

Hvernig á hinn almenni markaður að keppa við þetta kerfi á þessum forsendum? Þess vegna óttast þessir aðilar samkeppni. Leigan hjá þessum aðilum, t.d. Félagsstofnun stúdenta, er alls ekkert lág. Hún er ekki eins lág og bæði lágir vextir og skattfrelsi gefa tilefni til.