Húsnæðismál

Þriðjudaginn 19. maí 1998, kl. 12:05:43 (6785)

1998-05-19 12:05:43# 122. lþ. 131.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 122. lþ.

[12:05]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrir nokkrum mínútum voru einhverjir sjálfstæðismenn hér í salnum og í hliðarherbergi var hæstv. félmrh. Eftir að hv. þm. Pétur Blöndal hóf mál sitt hér þá hurfu allir sjálfstæðismenn á brott og félmrh. fór til hliðar. Mönnum finnst nefnilega pínulítið óþægilegt þegar Pétur H. Blöndal fer að tala um samkeppnina, þegar Pétur H. Blöndal fer að tala um fjármagnsmarkaðinn, vextina og fjármagnsgróðann og þegar Pétur H. Blöndal fer að gagnrýna Verkamannasamband Íslands og Öryrkjabandalagið og Sjálfsbjörg, BSRB, ASÍ og Landssamband eldri borgara fyrir að óttast samkeppni.

Hann talar um að gefa peninga og ég sé fylgjandi því að peningar verði gefnir, að lífeyrissjóðir gefi peninga. Ég vil upplýsa hv. þm. um að ég ætla ekki að standa fyrir neinum slíkum gjöfum. En ég ætla að leggja mitt af mörkum til þess að koma í veg fyrir að peningum almennings verði stolið af þeim sem hafa komist yfir mikinn gróða í krafti aðstöðu sinnar og auðs, tugi milljóna, hundruð milljóna, að fjármagnsmarkaðurinn sogi ekki þessa peninga til sín og níðist ekki á fátæku fólki.

Við erum að segja að með þessu frv. sem verið er að samþykkja sé verið að gefa bröskurunum aukið svigrúm. (PHB: Lífeyrissjóðunum.) Lífeyrissjóðunum, segir hv. þm. Ég legg áherslu á að sá rammi sem lífeyrissjóðunum hefur verið gefinn, sú lögþvingun sem þeir eru núna beittir til þess að leita jafnframt eftir hæstu vöxtum er mjög vafasöm og óheillaspor að mínum dómi.

Ég minnist þess að í byrjun síðasta áratugar (Forseti hringir.) þegar Pétur H. Blöndal, þá ungur eigandi Kaupþings var að hefja sinn feril á fjármagnsmarkaði, þá sagði hann að (Forseti hringir.) boðleg hámarksraunávöxtun að sínu viti væri tveggja prósenta. Nú liggur hún í mörgum prósentum fyrir ofan. En ég vildi, hæstv. forseti, fá seinna tækifæri (Forseti hringir.) til að ræða mjög ítarlega við ...

(Forseti (GÁS): Það kemur tími til þess, en nú er þessu andsvari lokið.)

Pétur H. Blöndal um fjármagnsmarkaðinn.