Lax- og silungsveiði

Þriðjudaginn 19. maí 1998, kl. 16:43:28 (6808)

1998-05-19 16:43:28# 122. lþ. 131.7 fundur 578. mál: #A lax- og silungsveiði# (stjórnsýsluverkefni, Fiskræktarsjóður o.fl.) frv. 50/1998, Frsm. GÁ
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 122. lþ.

[16:43]

Frsm. landbn. (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá landbn. Ef ég gríp niður í kjarna þessa nál. þá segir þar:

,,Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um lax- og silungsveiði. Markmið breytinganna er í fyrsta lagi að færa stjórnsýsluverkefni frá landbúnaðarráðherra til veiðimálastjóra, í öðru lagi að treysta lagaákvæði er varða verndun og viðhald náttúrulegra stofna laxfiska og í þriðja lagi að efla Fiskræktarsjóð.

Nefndin ræddi meðal annars ákvæði 27. gr. frumvarpsins en samkvæmt þeirri grein mun veiðimálanefnd nú ein fara með stjórn Fiskræktarsjóðs. Með þessu er sjálfstæði nefndarinnar aukið. Með hliðsjón af þeim breytingum sem gerðar hafa verið og lagðar eru til í frumvarpinu á verksviði veiðimálastjóra er lagt til að hann eigi ekki lengur sæti í stjórn sjóðsins. Þá ræddi nefndin nauðsyn þess að setja reglur sem kveða nánar á um það í hvaða tilvikum megi veita undanþágur til flutnings milli vatna eða til að setja nýja stofna í vötn.

Nefndin mælir með því að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.``

Þetta mál er afgreitt frá landbn. 27. apríl sl. og undirritað án fyrirvara af öllum nefndarmönnum.