Afgreiðsla frumvarpa um skipan mála á hálendinu

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 13:34:08 (6815)

1998-05-25 13:34:08# 122. lþ. 132.93 fundur 405#B afgreiðsla frumvarpa um skipan mála á hálendinu# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[13:34]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að láta í ljós ánægju með að Alþingi skyldi ekki ljúka þeim miklu málum, sem hér eru til meðferðar í dag, fyrir helgina eins og ríkisstjórnin þrýsti á um. Það er sérstaklega vegna þess að ástæða er til að gera sér vonir um að það hafi orðið ákveðin skoðanaskipti í stjórnarliðinu í sambandi við frv. til sveitarstjórnarlaga, hálendisfrv.

Tilefni þess að ég segi þetta, herra forseti, er að frambjóðendur Sjálfstfl. í Reykjavík, en í þeirra hópi var hæstv. forsrh. samkvæmt auglýsingu sem birtist í Morgunblaðinu fyrir helgi --- auk þess er sérstaklega boðinn velkominn hér hv. varaþm. Guðlaugur Þór --- skoruðu á ríkisstjórnina og Alþingi að fresta meðferð þessa máls sem nú á að fara að taka á dagskrá.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég varð nokkuð undrandi á því, herra forseti, þegar ég sá dagskrána. Það var ekki vegna þess að við stjórnarandstæðingar, a.m.k. við í þingflokki Alþb. og óháðra, höfum áhuga á því að bregðast því samkomulagi sem við gerðum heldur vegna þess að ég hélt að hæstv. forsrh. gæti orðið við áskorun á sjálfan sig. Ég vil þess vegna spyrja hann hvort hann hafi hugsað sér að standa undir því trausti sem hann auglýsti sérstaklega í Morgunblaðinu, að Sjálfstfl. væri búinn í sambandi við þessi mál. Sjálfstfl. og frambjóðendum hans er sko hægt að treysta. Ég treysti þeim út af fyrir sig ekkert sérstaklega en ég hugsa að það geri margir Reykvíkingar og ég spyr hann: Ætlar hann að standa við þessa yfirlýsingu, fyrsta og kannski síðasta kosningaloforð Sjálfstfl. í Reykjavík í þeim borgarstjórnarkosningum sem eru nýlega afstaðnar?