Afgreiðsla frumvarpa um skipan mála á hálendinu

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 13:37:46 (6817)

1998-05-25 13:37:46# 122. lþ. 132.93 fundur 405#B afgreiðsla frumvarpa um skipan mála á hálendinu# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[13:37]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þá er það ljóst að frambjóðendum Sjálfstfl. í Reykjavík er ekki hægt að treysta, a.m.k. ekki öllum, a.m.k. ekki þeim sem situr í heiðurssætinu, 30. sæti. Hve oft höfum við hlustað á að það sé misskilningur hjá öllum sem eru á öndverðri skoðun við stjórnarflokkana í þessu máli. Fyrst birtu 90 virtir einstaklingar áskorun til stjórnarmeirihlutans og ríkisstjórnar, virtir einstaklingar, fagaðilar, sérfræðingar, prófessorar. Misskilningur.

Síðan var það stjórn framsóknarfélaganna í Reykjavík sem lýsti yfir eindregnum stuðningi við baráttu Ólafs Arnar Haraldssonar og málflutning hans í hálendismálunum á Alþingi. Misskilningur. Öll náttúruverndarsamtökin hafa ályktað í þessu máli og skorað á ríkisstjórnina og hver er áskorunin? Fresta. Leyfa frekari skoðun á þessu. Misskilningur. Nú er það borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna og þá er ekki haft samband við alla, ekki þann sem situr í neðsta sætinu, kannski ekki 10 neðstu. Hve margir ætli þeir séu úr borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna sem lofuðu því og stóðu með flokk sínum? Ætli þeir hafi ekki misskilið málið líka, enda skilur ekki fólk með meðalgreind þetta frv., miðað við málflutning stjórnarmeirihlutans.

Herra forseti, í tveimur leiðurum í Morgunblaðinu er lögð er áhersla á misskilinn metnað þingmanna og ráðherra, hann skuli lönd og leið, og talað um að það eigi að taka mið af vilja borgarstjórnarflokksins hjá Sjálfstfl. og Alþingi og ríkisstjórn er bent á að sýna hyggindi í þessu stóra máli. Allir með misskilning.