Afgreiðsla frumvarpa um skipan mála á hálendinu

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 13:43:18 (6820)

1998-05-25 13:43:18# 122. lþ. 132.93 fundur 405#B afgreiðsla frumvarpa um skipan mála á hálendinu# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[13:43]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Mér finnst þetta mjög undarleg umræða. Þetta snýst ekkert um það hvað skrifað er í Morgunblaðið og snýst ekkert um það hvað einstakir frambjóðendur hafa sagt í sveitarstjórnarkosningum sem er lokið.

Auðvitað verður hver og einn að hafa sína skoðun á þessu máli eins og öðrum. Það kemur mér á óvart að stjórnarandstaðan á Alþingi vilji framkvæma í einu og öllu það sem stendur í Morgunblaðinu. Það er alveg nýtt. En málið snýst um að meiri hluti Alþingis óskar eftir því að ljúka þessu máli með lýðræðislegum hætti. Ég hafði haldið fram að þessu að það væri þessi meiri hluti sem skipti máli. Stjórnarandstaðan vill koma í veg fyrir það að lýðræðið virki hér á Alþingi og það dugir ekki að beita Morgunblaðinu eða einstökum frambjóðendum Sjálfstfl. fyrir sig í þeim efnum.

Stjórnarandstaðan á bara að viðurkenna að hún vill koma í veg fyrir að lýðræðið virki hér á Alþingi og hefur gert sitt ýtrasta til þess að koma því í framkvæmd, en nú er ekki nóg að búið sé að ræða þetta í eina 10 daga eða hálfan mánuð, stjórnarandstaðan telur það ekki nóg, lýðræðið hafi ekki sagt sitt. En, í guðanna bænum, verið ekki að beita Mogganum og frambjóðendum einstakra flokka í borgarstjórnarkosningum fyrir ykkur í þeim efnum. Viðurkennið þetta bara eins og þetta er.