Afgreiðsla frumvarpa um skipan mála á hálendinu

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 13:51:17 (6824)

1998-05-25 13:51:17# 122. lþ. 132.93 fundur 405#B afgreiðsla frumvarpa um skipan mála á hálendinu# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[13:51]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta er auðvitað alveg einstaklega neyðarleg uppákoma fyrir hæstv. forsrh. sem hér er afhjúpuð. Það er ekki síður vegna þess að hæstv. forsrh. blandaði sér með afar sérstæðum hætti í sveitarstjórnarkosningabaráttuna á síðustu sólarhringum. Það fór ekki fram hjá neinum, sem fylgdist með fjölmiðlum, að hátíðarsettið var sett í gang og það var eins og Bessastaðaávarp þar sem hæstv. forsrh., alvarleikinn uppmálaður, kom og talaði alvarleg orð til þjóðar sinnar og ekki síst íbúanna í Reykjavík, enda hann sjálfur í framboði.

Það hefur einnig verið upplýst, út frá orðum hæstv. utanrrh., að þetta er ekki bara einhver frambjóðandi og Mogginn sem dæmið snýst um. Þessi ,,einhverji frambjóðandi`` er óvart hæstv. forsrh. Þetta mun vera sami maðurinn. Samkvæmt símaskránni eru að vísu tveir sem eru skráðir fyrir síma í Reykjavík með þessu nafni, Davíð Oddsson. Annar býr á Lynghaga 5 og hinn á Hrefnugötu 4. Ég vænti þess að þetta sé sem sagt hvor tveggja sami maðurinn, frambjóðandinn til sveitarstjórnar í Reykjavík, Davíð Oddsson, Lynghaga 5, og hæstv. forsrh. Davíð Oddsson, Lynghaga 5. Sé svo er þessi uppákoma auðvitað einstaklega neyðarleg.

Að öðru leyti, herra forseti. er óhjákvæmilegt að mótmæla orðum hæstv. utanrrh. um að stjórnarandstaðan vilji koma í veg fyrir að lýðræðið hafi sinn gang hér á þingi. Þetta mál snýst ekki um það. Hæstv. utanrrh. verður að skilja, eins og hæstv. forsrh. þarf að skilja, að það er ekki nóg að það berist tilkynning frá ríkisstjórninni um að mál eigi að afgreiða og að þá sé það gert tafarlaust og þegjandi og hljóðalaust. Þingræðið verkar ekki þannig. Um það snýst þetta mál. Því miður virðast þessir háu herrar, hæstv. ráðherrar, hafa tileinkað sér þá verstu þætti úr austrænum stjórnsýsluháttum að þetta eigi að gerast í formi tilskipana og tilkynninga um að þeirra vilji nái fram að ganga þegjandi, hljóðalaust og tafarlaust. Þetta er ekki þannig, a.m.k. ekki enn þá, á Alþingi Íslendinga.