Afgreiðsla frumvarpa um skipan mála á hálendinu

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 14:00:10 (6829)

1998-05-25 14:00:10# 122. lþ. 132.94 fundur 406#B afgreiðsla frumvarpa um skipan mála á hálendinu# (um fundarstjórn), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[14:00]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Mér finnst skipta máli að vita hvort neðsti maður á lista minni hlutans í Reykjavík er sammála efsta manni á lista Sjálfstfl. í Reykjavík þegar gengið er til þingkosninga, ekki síst þegar haft er í huga að þetta er einn og sami maðurinn og þetta er forsrh. þjóðarinnar. Auðvitað skiptir okkur máli að vita hvort sá maður er sjálfum sér samkvæmur. En ástæða þess að ég vildi leggja orð í belg er að mér finnst þetta mál öðru fremur snúast um lýðræði og virðingu fyrir lýðræðinu.

Ég hef aldrei efast um að meiri hluti Alþingis geti knúið mál fram í krafti meiri hluta síns ef hann er staðráðinn í því. En við höfum verið að vekja athygli á því af hálfu minni hlutans að í þjóðfélaginu er mjög mikil andstaða gegn því að þau frumvörp sem nú eru til afgreiðslu verði knúin í gegn í vor. Því frv. sem verður rætt síðar í dag er 73% þjóðarinnar andvígt samkvæmt skoðanakönnun sem birt var í DV ekki alls fyrir löngu. Það má álykta að enn stærri meiri hluti sé fylgjandi því að þessu máli verði frestað til haustsins. Þetta finnst mér vera mergurinn málsins, ekki síst í ljósi þess að ekkert knýr á um að þau frumvörp sem kennd hafa verið við hálendið --- ég vildi frekar kenna þau við auðlindirnar vegna þess að það frv. sem kemur til umræðu á morgun er miklu mikilvægara og afdrifaríkara að mínum dómi en sveitarstjórnarlögin --- það er ekkert sem knýr á um að afgreiðslu þessara mála verði ekki frestað til haustsins. Mér finnst það vera áhyggjuefni, hæstv. forseti, ef þing og þjóð geta ekki átt samleið í þessu máli sem öðrum.