Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 14:45:30 (6840)

1998-05-25 14:45:30# 122. lþ. 132.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, Frsm. minni hluta RG
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[14:45]

Frsm. minni hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Það eru sérstök skilaboð mjög dapurleg sem berast úr þingsölum í dag og þau eru þessi: Sjálfstfl. er ekki traustsins verður. Þegar ég segi dapurleg þá er það fyrir þann flokk sem hefur notað þessi orð alveg sérstaklega í kosningabaráttu liðinna vikna.

Af hverju segi ég þetta, herra forseti? Það er vegna þeirra orðaskipta sem hafa orðið hér í umræðu um störf þingsins áður en þessi umræða hófst en tengist þessu frv. svo afdráttarlaust. Þetta er líka alvarlegt fyrir okkur vegna þess að einstaklingur sem situr í öðru sæti á borgarstjórnarlista Sjálfstfl. í Reykjavík er jafnframt formaður Sambands ísl. sveitarfélaga sem er stofnun sem hefur mikið að segja, bæði um vinnslu stjfrv. sem hingað koma inn og jafnframt er Samband ísl. sveitarfélaga kallað til viðtals við nefndir þingsins, ekki síst í málum sem snúa að sveitarstjórnum í landinu og afdráttarlaus skoðun Sambands ísl. sveitarfélaga um mál eins og það sem hér liggur fyrir hefur mikið að segja um afgreiðslu þess.

Herra forseti. Ég bendi á að í yfirlýsingu borgarstjórnarflokks Sjálfstfl. segir, með leyfi forseta:

,,Við heitum því að beita okkur fyrir því af alefli, náum við meiri hluta í borgarstjórn, að þjóðarsátt verði um þetta mikla hagsmunamál allra landsmanna.``

Það fer ekki hjá því, herra forseti, að þegar maður lítur á þessa innskotssetningu ,,náum við meiri hluta í borgarstjórn``, þá hafi borgarstjórnarmeirihlutinn litið svo á að hann væri laus allra mála þegar kosningarnar féllu ekki honum í hag og það er þar sem mér sýnist að þessi stóri og mikli flokkur sé búinn að sýna fyrir hvað hann stendur. Þetta var gulrót sem átti að nota til að reyna að fá það fólk sem er áhyggjufullt, sem er með sterkar tilfinningar gagnvart þeim breytingum sem hér eru að verða í lagasetningu á Alþingi, að reyna að lokka fólk til stuðnings við sig, lokka atkvæði til fylgis án þess að ætla að gera nokkurn hlut með það á eftir. Þetta finnst mér, herra forseti, mjög alvarlegt mál þó svo að uppákoman fyrr í dag væri í raun grátbrosleg fyrir þennan stóra og mikla flokk.

Það fer ekki hjá því, eftir að við höfum kynnst vinnubrögðum þessa flokks að undanförnu, að búið sé að leiða okkur í allan sannleik um að þegar slíkur flokkur fær mikil völd, þá fer lítið fyrir lýðræðinu, bæði í flokknum og í stofnunum flokksins og það er umhugsunarefni fyrir okkur sem hér höfum átt samskipti við flokk sem hefur mikil völd og vill hafa mikil völd bæði í landsmálunum og í sveitarstjórnum. En ég mun koma betur að þessu síðar í máli mínu en ætla í upphafi umfjöllunar við 3. umr. sveitarstjórnarfrv. að koma aðeins inn á störfin í félmn.

Herra forseti. Félmn. kom saman á milli 2. og 3. umr. Hún kom saman vegna þess að þetta mál var afgreitt úr félmn. fyrir páska þrátt fyrir mótmæli og að þá höfðu nefndinni ekki borist umsagnir allshn. um bráðabirgðaákvæði frv. sem eftir hafði verið leitað og þau vinnubrögð voru samkvæmt forskrift forseta þingsins sem taldi að það væri sú leið sem ætti að fara í stað þess að hálendisfrv., eins og við höfum kallað þau öll, skyldu fara í sérnefnd í þinginu. En það var full ástæða til að félmn. kæmi saman vegna þeirra tveggja greina sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni, 7. gr. og 68. gr. og þeirrar umræðu sem fram fór bæði á þinginu og eins í nefndinni um þessar umdeildu greinar. Ég ætla að taka undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og hef gert það bæði í máli mínu hér í ræðustól Alþingis og líka í nefndinni og bent á hvað þarna er verið að gera með brtt. við 7. gr.

Ég hlýt að rifja það upp að í félmn. leit ég svo á að með 7. gr. frv. eins og hún var í upphaflega frv. þá væri í raun verið að draga úr möguleikum sveitarfélags til þess að vera með opna gjaldskrá og taka meira gjald fyrir selda þjónustu en útgjöld og stofnkostnaður gáfu tilefni til. Þegar brtt. meiri hlutans við 7. gr. kom til félmn. þá leit ég svo á að með henni hefði verið opnað fyrir miklu meiri gjaldtöku og það sem hér hefur verið nefnt skattheimta í þjónustugjöldum hjá sveitarfélagi.

Ég viðurkenni það að eftir að við höfðum fengið á fund nefndarinnar fulltrúa úr forsrn. sem tók afdráttarlausa afstöðu til 7. gr. eins og hér hefur komið fram þá átti ég von á því að meiri hlutinn mundi gera brtt. á 7. gr. Ég kallaði ekkert sérstaklega eftir því hvort 7. gr. og 68. gr. yrði breytt vegna þess að við tókum þá ákvörðun við atkvæðagreiðslu við 2. umr. að sitja hjá við allar almennar greinar frv. vegna þess samskiptaskorts sem sýndur var af hálfu stjórnarmeirihlutans. Ég verð hins vegar að viðurkenna að það kom mér mjög á óvart að sjá að engar brtt. voru gerðar við hvoruga greinina.

Fyrir utan þá sem kallaðir voru til nefndarinnar, þá var líka fjallað um bréf sem kom frá einstaklingi sem leitað hefur réttar síns varðandi þjónustugjöld og sölu hitaveitunnar á vatni. Hann hefur kært það til umboðsmanns Alþingis. Það er umhugsunarefni fyrir okkur að einstaklingar skuli þurfa að leita til Alþingis til þess að biðja um úrskurði um það hvort heimildir séu til þeirrar gjaldtöku sem þeir telja að á sér bitni.

Það hefur komið fram hér að að breyta eigi vatns- og orkulögum í haust og með þeirri breytingu sem þá verður gerð á vatns- og orkulögum verði þessi 7. gr. útfærð og þar með verði það alveg ljóst að sveitarfélagi verði ekki heimilt að innheimta skatt í þjónustugjöldum sínum. Það er svo, herra forseti, að nú á eftir að setja tvenn lög sem ekki munu koma fyrir augu þingmanna fyrr en næsta haust og þau hafa munu áhrif á túlkun lagaákvæða í þessu frv., lagaákvæða sem hafa verið afar umdeild og er þá vægt til orða tekið, þ.e. 7. gr., 1. gr. um hálendið og bráðabirgðaákvæðið sem varðar stjórnsýslu á hálendinu, 1. gr. og bráðabirgðaákvæðið. Það er umhugsunarefni, herra forseti, að við skulum afgreiða frv. og frumvarpsgreinar sem svo mikil átök hafa orðið um, ekki bara á Alþingi heldur úti í þjóðfélaginu jafnframt og að þegar menn gagnrýna hvað felst í þessum lagaákvæðum, þá er bara sagt: ,,Það á að breyta vatns- og orkulögum í haust og þá kemur nánari skýring á þessu og það á að breyta skipulagslögum í haust og þá verður það tryggt að skipulag miðhálendisins verði allt að því á einni hendi.`` Þetta eru vinnubrögð sem Alþingi getur ekki sæst á. Alþingi á ekki að sættast á að setja lög þar sem greinar laganna eru opinn víxill þar sem slíkar greinar eru ávísun á eitthvað sem enginn veit hvað er og að lögin verði orðin staðreynd eða um það bil þegar þau frv. koma inn í þingið sem hafa afgerandi áhrif á útfærslu frv. Þetta finnst mér afar mikilvægt og ég mótmæli þessum vinnubrögðum. Og af því að ég þekki það harla vel eftir að hafa unnið með þetta frv. í nefnd, þá kallar ekkert á það að sveitarstjórnarfrv. sem slíkt verði afgreitt frá Alþingi nú í vor. Ég veit að því hefur verið haldið fram að af því að við erum búin að taka út lagabálkinn um kosningar til sveitarstjórna, þá hafi verið æskilegt að afgreiða frv. En það eina sem hefði gerst og hefur gerst er að þar sem þetta var ekki afgreitt tímanlega, þá hefði sveitarstjórnarfrv. staðið án kosningalaganna og gömlu sveitarstjórnarlögin hefðu verið með kosningaákvæðum innan borðs sem úr gildi væru fallin af því að búið væri að setja ný lög. Þetta er alveg ljóst þannig að allt þetta offors með að keyra þetta umdeilda frv. í gegnum þingið, ekki bara hvað varðar hálendið og uppskiptingu hálendisins í sveitarfélög heldur líka hvað varðar mikilvægar greinar sem snúa að íbúunum í landinu og rétti þeirra, eru vinnubrögð sem ekki er hægt að sættast á og sem Alþingi á ekki að temja sér.

Herra forseti. Fjölmargir voru kallaðir á þá þrjá fundi félmn. sem haldnir voru milli 2. og 3. umr. og satt best að segja átti ég von á því að stjórnarmeirihlutinn mundi skila af sér frhnál. þar sem fram kæmi hverjir voru kallaðir á fund nefndarinnar, hvers vegna og um hvað var fjallað á fundum vegna þess að við vorum að fjalla um álit allshn. á bráðabirgðaákvæði frv. Við vorum að fjalla um 7. gr. sem varðar gjaldtökuheimildir sveitarfélaga og er mjög opin eftir brtt. Við vorum að fjalla um 68. gr. sem er um innri endurskoðun sveitarfélaga, en samtök endurskoðenda lögðust harkalega gegn ákvæðinu. Og við vorum að fjalla um hálendið og uppskiptingu þess og í tilefni af því voru fjölmargir aðilar kallaðir til.

Ef þessi vinnubrögð á milli 2. og 3. umr. hefðu ekki kallað á frhnál. þá veit ég eiginlega ekki í hvaða tilfellum slík nál. eru send inn í þingið. Hins vegar höfðum við, stjórnarandstaðan, engin afskipti af því hvaða tillögur yrðu settar fram af hálfu stjórnarmeirihlutans enda ekki ástæða til þess eftir þau vinnubrögð sem á undan höfðu gengið. En þar sem ekki var lagt fram frhnál. þá kýs ég, herra forseti, að geta þess sérstaklega hvaða einstaklingar voru kallaðir fyrir félmn. til þess að fjalla um hálendið og uppskiptingu þess í sveitarfélög. Það voru, með leyfi forseta:

Sigmar B. Hauksson frá Skotvís, Gestur Ólafsson frá Félagi skipulagsfræðinga, Júlíus Sólnes frá Umhverfisstofnun Háskóla Íslands, Haukur Jóhannesson frá Ferðafélagi Íslands, Hilmar Malmquist frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, Freysteinn Sigurðsson frá Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, Ólafur Arnalds frá Rannsóknarstofnun landbúnaðarins, Birgir Sigurðsson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, Andrés Arnalds frá Landgræðslunni, Gunnar H. Hjálmarsson frá Útivist --- það var reyndar út af öðru. Þeir sem hér á eftir eru taldir komu reyndar út af 7. gr. --- Allir sem ég hef nú talið upp eru fulltrúar virtra samtaka, þ.e. hópa fólks sem þekkja hálendið, sem þekkja stjórnsýslu hálendisins og gera sér mjög vel grein fyrir því hvað gerist þegar búið verður að skipta miðhálendinu upp á sveitarfélög eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Allir þessar einstaklingar, hver og einn einasti, hafði um það alvarleg orð, fylgdi máli sínu vel úr hlaði, var með alvarlegar viðvaranir um það að skipta miðhálendinu upp og óskuðu allir eindregið eftir því að því ákvæði yrði frestað, allir sem einn.

[15:00]

Ég hef fyrir löngu gert mér grein fyrir því að ekki er við meiri hlutann í félmn. að sakast í þessu máli. Meiri hlutinn í félmn. hefði eflaust fyrir löngu tekið þá ákvörðun að fresta 1. gr. og bráðabirgðaákvæðinu og koma með tillögur um orðalag þessara tveggja lagaákvæða í haust samhliða því skipulagsfrv. sem verður væntanlega lagt fram nema fyrir óbilgirni ríkisstjórnarinnar, forráðamanna stjórnarflokkanna, sem eins og segir í leiðara Morgunblaðsins eru uppteknari af því að fullnægja metnaði sínum um að afgreiða mál hratt og þegar þeir vilja en gera það sem skynsamlegt er og fara að vilja fólksins, hlusta á raddir fólksins í landinu.

Herra forseti. Þrátt fyrir það að ekki hefur verið hlustað á áskorun 90 virtra einstaklinga sem voru þeir fyrstu til þess að láta í sér heyra um það stóra mál sem hér eru áform uppi um að afgreiða, þrátt fyrir að ekki hefur verið hlustað á stjórn framsóknarfélaganna í Reykjavík, þrátt fyrir að hingað til hefur ekki hefur verið hlustað á öll náttúruverndarsamtökin sem hafa ályktað í þessu máli, þrátt fyrir að ekki var hlustað á borgarstjórnarflokk sjálfstæðismanna, sem héldu reyndar allir að væri traustsins verður, a.m.k. innan flokksins, að eigin flokkur sýndi borgarstjórnarflokknum það traust að taka tillit til ályktana og loforða hans, og þrátt fyrir að leiðarar Morgunblaðsins hafa ekki getað hrært formann Sjálfstfl. og dregið hann af braut metnaðar og óbilgirni, þá ætlum við samt, þingflokkur jafnaðarmanna, að freista þess að setja fram tillögu við þetta frv. um að 1. mgr. 1. gr. falli brott og að ákvæði til bráðabirgða falli brott. Enn er möguleiki á því með samþykkt slíkrar tillögu að afstýra því að hér verði sett lög sem eru klúður. Enn þá er möguleiki á því fyrir stjórnarflokkana að setja þetta mál, 1. gr. og bráðabirgðaákvæðið, í frest og skoða það með bæði þeim hagsmunaaðilum og fagaðilum sem hafa látið í sér heyra um þetta mál vegna þess að það er ekki þannig að í þessu máli hafi áhugaaðilar fyrst og fremst látið heyra frá sér sem hafa ekki sett sig inn í nákvæmlega hvað þarna er á ferð heldur eru þetta fagaðilar, einstaklingar sem hafa mikla þekkingu á bæði stjórnsýslu og því hver auðlind miðhálendið er og hve alvarlegir hlutir eru að gerast.

Herra forseti. Á sama hátt og við þingflokkur jafnaðarmanna munum freista þess með þessari tillögu að stjórnarmeirihlutinn sýni t.d. borgarstjórnarflokknum í Reykjavík, borgarstjórnarflokki Sjálfstfl. og svo hinn hluti stjórnarmeirihlutans sýni stjórn framsóknarfélaganna í Reykjavík þá virðingu að fresta þessu frv. jafnvel þó þeim finnist ástæðulaust að hlusta á varnaðarorð okkar, þá ætlum við að reyna að freista þess að hafa þarna áhrif og á sama hátt ætla ég að rifja upp það sem menn hafa verið að álykta að undanförnu eftir að við höfum tekið umræðu um þetta mál og hlé í þinginu þannig að það sé alveg ljóst að þeir sem valdið hafa hafi fylgst með því sem hefur verið að gerast. Þá vil ég fyrst nefna áskorunina frá öllum náttúruverndarsamtökunum o.fl., m.a. Sambandi ísl. myndlistarmanna, Félagi leiðsögumanna, Skotveiðifélagi Íslands, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Landvarðafélagi Íslands, Félagi ísl. ferðaskrifstofa, Arkitektafélagi Íslands, Íslenska fjallahjólaklúbbnum, Skipulagsfræðingafélagi Íslands, Félagi nýlistasafnsins, Landssambandi ísl. vélsleðamanna, Ferðafélagi Íslands og Náttúruverndarsamtök Íslands. Allir þessir aðilar hafa komið og afhent Davíð Oddssyni sérstaka áskorun þar sem þeir hvetja til frestunar afgreiðslu frv. til sveitarstjórnarlaga. Allir þessir aðilar hafa vit á málunum og útilokað er að segja um þennan hóp að einhver rangur málflutningur stjórnarandstöðunnar á Alþingi hafi blekkt hann. Þetta er allt fólk sem veit nákvæmlega hvað felst í þessu frv. og það er yfirgengilegt að ekki sé hlustað á slíka áskorun, það sé tekið við henni og það eina sem er sagt sé: Við munum samt knýja fram afgreiðslu á þessu frv., við höfum ákveðið það og við munum ekki breyta þeirri afstöðu okkar.

Herra forseti. Hérna hafa menn farið yfir það hvað felist í þessu máli og skorað á ríkisstjórnina að fresta afgreiðslu breytinganna sem skiptir jöklum og öræfum milli 42 lítilla sveitarfélaga og sviptir yfir 90% þjóðarinnar þeim rétti til miðhálendisins sem hún hefur haft fram til þessa, samanber forn lög og dóma. Sumarið verði notað til að finna málamiðlun er þjóðin öll geti sætt sig við og hún kynnt rækilega. Við vörum eindregið við því að keyra málið í gegnum þingið á síðustu dögum þess í ljósi þeirrar gífurlegu andstöðu sem er að skapast í þjóðfélaginu en almenningur er fyrst nú að átta sig á því hvað er að gerast.

Herra forseti. Það er að bera í bakkafullan lækinn að fara yfir tillögu eða yfirlýsingu frambjóðenda Sjálfstfl. sem við erum búin að minnast á svo oft í dag en þó vil ég enn á ný nefna það að þeir skora á ríkisstjórnina að ljúka ekki afgreiðslu frv. um skipan mála á miðhálendinu þegar þing kemur saman að loknum sveitarstjórnarkosningum heldur fresta henni til haustsins. ,,Við teljum almenn viðbrögð sýna, að þörf er á auknu ráðrúmi og víðtækari umræðu utan þingsins um þetta mikla hagsmunamál``, segir borgarstjórnarflokkur Sjálfstfl., sem við héldum að væru 30 einstaklingar með Davíð Oddsson í 30. sæti, og ég hef vakið athygli á að formaður Sambands ísl. sveitarfélaga situr í 2. sæti í þessum hugsandi flokki sem gerir sér grein fyrir því að þessum málum á að fresta þrátt fyrir önnur áform. Þessi borgarstjórnarflokkur segir enn fremur, herra forseti: ,,Við teljum mikilvægt að hagsmunir þeirra landsvæða sem ekki liggja að hálendinu, þar á meðal Reykjavíkur, verði vel tryggðir.``

Þetta voru orð sem komu fram fyrir örfáum dögum þegar menn voru uppteknir af því að fá Reykvíkinga til að kjósa sig og óttuðust að það sem hér væri að gerast gæti orðið til þess að menn gerðu það ekki. Auðvitað vitum við að einhverjir hafa glapist af þessu glæsilega loforði af því að það var búið að segja fólki frá því að Sjálfstfl. væri traustsins verður.

Herra forseti. Ég ætla líka að rifja upp að það var stjórn framsóknarfélaganna í Reykjavík sem sendi frá sér ályktun til stuðnings Ólafi Erni Haraldssyni framsóknarmanni vegna þess að hann hefur lagst gegn samþykkt um að miðhálendinu verði deilt upp í ræmur á milli jökla.

Herra forseti. Það er athyglisvert fyrir okkur að þegar stjórn framsóknarfélaganna í Reykjavík ályktar með þessum hætti, þá eru þau að leggjast gegn flokksbróður sínum, félmrh., og því frv. sem hann ætlar að keyra í gegn enda gera þau sér grein fyrir því að hann er upptekinn af hagsmunum annarra. Það eru ekki hagsmunir þéttbýlisins, Reykvíkinga og þeirra sem á suðvesturhorninu búa. Það eru hagsmunir annarra sem ráðherrann úr Norðurl. v. ber fyrir brjósti.

Enn á ný, herra forseti, vil ég vísa í skoðanakönnun sem gerð var í DV 11. maí nokkrum dögum áður en þing tók hlé vegna yfirvofandi sveitarstjórnarkosninga. Á þeim tíma sem sú skoðanakönnun var gerð var alveg ljóst að með öflugum málflutningi sínum hafði stjórnarandstaðan náð því að þjóðin gerði sér grein fyrir hvað átti að gera á Alþingi. Allir voru orðnir meðvitaðir um hvað fælist í sveitarstjórnarfrv. sem við erum að ræða. Það er því ekki um það að ræða að þjóðin hafi verið spurð um eitthvað sem hún vissi ekki um. Svo öflugur fréttaflutningur var búinn að vera af málflutningnum að allir vissu hvað fælist í þessu frv. og þá gerist það að það eru 72% þjóðarinnar sem eru andvíg því að skipta miðhálendinu upp í sveitarfélög og að þeir sem helst eru stuðningsmenn þess er fólk í dreifbýlinu, þ.e. einmitt þeir sem munu fá yfirráð á þessu svæði þegar búið er að skipta miðhálendinu upp.

Þrátt fyrir málefnalega baráttu stjórnarandstöðu á Alþingi sem hefur stutt mál sitt gildum rökum hyggst stjórnin þvinga fram skiptingu miðhálendisins upp á milli aðliggjandi sveitarfélaga. Með þessu er ríkisstjórn Davíðs Oddssonar að afhenda sameign þjóðarinnar, miðhálendið og auðlindir þess til fárra sveitarfélaga þar sem búa aðeins um 4% þjóðarinnar. Það er sama hvað þessi staðreynd fer í taugarnar á valdhöfunum hér, þetta er staðreynd. Þannig er það. Ríkisstjórnin lætur það ekkert aftra sér að sú skoðanakönnun, sem ég hef hér vísað til, segir okkur að sjöundi hver Íslendingur er andvígur því að stjórnsýslan og þar með talið skipulags- og byggingarvald verði falið 4% þjóðarinnar.

Stjórnarandstaðan hefur beitt aðhaldsaðgerðum við afgreiðslu málsins á þingi og látið mikið að sér kveða. Málið er flókið en með vönduðum málflutningi hefur verið varpað ljósi á ýmis atriði sem áður voru óljós og vakin hefur verið athygli þjóðarinnar á eðli þess máls sem hér liggur fyrir og á að afgreiða. Að sjálfsögðu, herra forseti, er það ekki sjöundi hver heldur sjö af hverjum tíu sem hefur þessa afstöðu.

Það eru mjög margir sem hafa verið að láta til sín taka í skrifum og í umræðuþáttum að undanförnu. Ég gríp niður í Dag fyrir nokkrum vikum þar sem verið er að fjalla um þetta mál og þá vakningu sem hefur orðið í samfélaginu og þar segir að í öllum stjórnmálaflokkum sé fólk sem sé í mjög harðri og tilfinningaþrunginni og rökvissri andstöðu við þann hluta frv. til sveitarstjórnarlaga sem varðar hálendið. Á síðustu stundu virðist sem tekist hafi að koma í veg fyrir að þetta mál yrði knúið í gegn segir í þessari ritstjórnargrein í Degi en því miður er það ekki rétt. Það sem okkur tókst var að afstýra því að þetta frv. væri knúið í gegn á þeim dögum sem þetta er skrifað. Okkur hefur tekist að ná fram fresti á afgreiðslu þessa máls en það er alveg sama hve margir ganga til liðs við okkur, meira að segja þó þeir séu flokksfélagar forráðamanna ríkisstjórnarinnar, þá er það svo að þeir virðast heillum horfnir í þessu máli.

Það segir líka í greininni: ,,Krafan um að hálendið verði ein skipulagsheild er fullkomlega rökrétt. Krafa alls almennings í landinu um jafnan rétt til að ráða málum þess jafngildir engan veginn vantrausti á þau sveitarfélög sem um er að tefla. Þessi krafa er jafnréttiskrafa, krafa um að fólk verði í fyrirrúmi.`` Þetta er hárrétt. Þetta er það sem við höfum bent á. Aftur og aftur hefur verið talað þannig að við værum með vantraust á þau sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu. Því fer fjarri. Við viljum efla sveitarfélög til að ráða málum sínum til þess að þau séu í stakk búin til að taka við verkefnum. Þetta mál er þess eðlis að það á að ganga frá því þannig að hagsmunir landsins alls séu í fyrirrúmi með alla ákvörðunartöku í þessari stjórnsýslu.

[15:15]

Í þessari ritstjórnargrein, herra forseti, er spurt um þingmenn þéttbýlisins. Spurt er um hvernig þeir hugsi, hvernig þeir bregðist við og hvar þeir séu. Stjórnarmeirihlutinn hefur lagt mjög mikla áherslu á það hvað lýðræði sé, hvað felist í lýðræðinu. Þegar þeir tala um lýðræðið, þá eru þeir að tala um að þeir eigi að ráða af því að þeir séu með stjórnarmeirihluta hér á Alþingi og að við stjórnarandstaðan höfum móðgað þá freklega með því að vera með allt of langar ræður, allt of mikinn málflutning í þessu máli sem þeir vilja ráða lyktum á.

Það hefur kveðið svo rammt að þessu, herra forseti, að forsrh. sjálfur hefur leyft sér að fara að verðleggja ræður okkar þingmannanna. Það er farið að verðleggja hvað ræðurnar okkar kosti, hvað kosti að skrifa ræðurnar. Það verður fróðlegt fyrir okkur, þegar við lítum um öxl á ræður kjörtímabilsins, hvað hver þingmaður hefur kostað miðað við þennan málflutning forsrh. Ég verð að viðurkenna það að mér finnst ekki reisn yfir svona málflutningi hjá þeim sem hæst á að bera af stjórnmálamönnum, þeim sem situr í öndvegi í ríkisstjórn.

Lýðræðið er sem sé, frá sjónarhóli þeirra, að stjórnarandstaðan sitji í nefndum þingsins og vinni verkin, komi síðan inn í þingsal, segi lítið og þegi helst, meðan stjórnarliðarnir afgreiða málin með meiri hlutanum sínum. Ég er ekki sammála þessu lýðræði. Það lýðræði sem ég aðhyllist og hefur fengið mig til að veita svo miklu af mínum kröftum í stjórnmálastarf er einmitt lýðræðið, að raddir allra séu mikilvægar, að raddir fjöldans eiga að hafa afdráttarlaus áhrif.

Ég tel að það að hlusta á sjónarmið annarra og bregðast við út frá því sé þýðingarmikið og ef það er ekki mjög brýnt að mál, sem deilur rísa um, sé afgreitt nákvæmlega á þeim punkti sem menn ætla sér, þá sé hlustað, hikað og málið skoðað betur. Þar með yrði styrkur þeirra sem valdið hafa meiri. Þá gætu þeir sagt: Við skoðum þetta betur. Við skoðum þetta með þeim sem voru áhyggjufullir. Ef málið væri eins vaxið og þeir sem valdið hafa segðu, þá mundi það væntanlega verða þannig að þeir mundu, á þeim mánuðum sem fram undan væru, geta sannfært alla þá hópa um að í lagi væri að ganga frá frv. með þeim hætti.

Ef það er þannig að misvísandi málflutningur hafi valdið misskilningi hjá öllu þessu fólki, sem ég hélt að væri vel gefið, jafnvel fyrir ofan meðallag, öllum þessum háskólaborgurum, öllum þessum öflugu frambjóðendum, m.a. á borgarstjórnarlistanum, þessu fólki sem skipar stjórnir flokksfélaganna í höfuðborginni hjá flokkum eins og Framsfl., ef þetta allt fólk misskilur málið frá upphafi til enda, þá væri það svo farsælt fyrir þessa stjórnarflokka að fara að óskum þeirra og fresta málinu yfir sumarið, jafnvel þessum tveimur greinum sem ég hef sett fram tillögur um, hitta þetta fólk, fara yfir málin með því og sýna því fram á að óttinn sé ástæðulaus. Ef það væri þannig, þá kæmu þeir í haust, með sitt litla frv. til breytinga á sveitarstjórnarlögunum, með stuðning allra þessara í farteskinu.

Af hverju gera þeir það ekki? Auðvitað vegna þess að þeir vita að hver einasti af þessum hópum gerir sér grein fyrir því sem felst í þessu frv. og er andvígur því. Auðvitað óttast þeir að með því að fresta málinu muni það ekki koma inn í óbreyttum búningi. Það er þetta sem er þversögnin í umræðunni hér á Alþingi sem staðið hefur í marga daga og hefur haft víðtæk áhrif í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Þessa hefur líka gætt í ritstjórnargreinum blaðanna. Ég ætla að grípa niður í þrjár ritstjórnargreinar. Líka þar er að finna fólk sem hefur ekki bara tekið þátt í þjóðmálaumræðunni á liðnum árum, ekki bara skrifað um mikilvæg mál sem hafa verið í þjóðmálaumræðunni á liðnum árum heldur jafnvel, með öflugum skrifum í ritstjórnargreinum, haft mótandi áhrif á viðhorf margra í þjóðfélaginu. Það er umhugsunarefni þegar sagt er að þeir aðilar sem skrifa ritstjórnargreinarnar fyrir stóru blöðin hvort heldur þau heita óháð blöð eða eru skoðuð sem málgögn hægri flokks, þá er sömu hugsunina að finna í ritstjórnargreinum þessara blaða. Ég ætla að grípa, herra forseti, niður í ritstjórnargrein frá 7. maí í DV, frjálsu óháðu dagblaði. Þar segir:

,,Sveitarstjórnarfrumvarp félagsmálaráðherra verður sífellt umdeildara eftir því sem fleiri kynna sér það. Á fjölmennum fundum ýmissa samtaka er samþykkt að biðja Alþingi um að rasa ekki um ráð fram í vor og leyfa málinu heldur að malla í umræðunni fram til hausts.

Það fer fyrir brjóstið á fólki að 40 hreppum skuli vera afhent stjórnsýsluvald yfir öllu miðhálendi landsins. Þetta er enda augljóslega ekki sanngjörn skipan mála því að miklu fjölbreyttari hagsmunir eru í húfi en þeirra einna sem hafa fé sitt á fjalli á sumrin.``

Síðar í þessari ritstjórnargrein segir:

,,Í öðru lagi varðar stjórnsýslan og skipulag miðhálendisins margvíslega hagsmuni sem síður en svo er sérstaklega gætt af hreppunum 40. Þetta eru m.a. hagsmunir orkuvinnslu, ferðaþjónustu, náttúruverndar, útivistar og almennra lífsgæða í landinu.

Allir þessir mismunandi hagsmunir eru ótengdir mismunandi hagsmunum sveitarfélaga. Tilvist þeirra sýnir að réttlát skipting valds milli sveitarfélaga dugir ekki einu sinni til að ná skynsamlegri niðurstöðu. Hin óstaðbundnu sjónarmið þurfa einnig að hafa vægi.

Af þessari ástæðu er heppilegra að miðhálendið sé ein stjórnsýslueining fremur en 40 og að ríkisvaldið skipi því stjórn með aðild fulltrúa orkuvinnslu, ferðaþjónustu, náttúruverndar, útivistar og almennra lífsgæða auk aðildar fulltrúa samtaka sveitarfélaga.``

Þá minni ég, herra forseti, á breytta afstöðu formanns Sambands ísl. sveitarfélaga í þessu máli. Síðar í ritstjórnargreininni segir:

,,Furðulegast við þetta er að þingmenn sem beinlínis eru kjörnir á svæðum er frv. gerir áhrifalaus, skuli ekki gæta betur hagsmuna umbjóðenda sinna en þeir hafa reynst gera. Þeir verða vafalaust minntir á eymd sína þegar dregur að næstu þingkosningum.``

Það eru fleiri en hið óháða DV sem hafa skrifað um þetta mál og ég ætla, herra forseti, að grípa niður í tvær ritstjórnargreinar Morgunblaðsins. Morgunblaðið hefur, bæði í ritstjórnargreinum og í Reykjavíkurbréfi, sett fram skoðanir á ýmsum pólitískum málum. Þau fara ekki alltaf saman við viðhorf Sjálfstfl. og fer það fyrir brjóstið á þeim stóra flokki sem ekki er lengur traustsins verður. Það er líka oft að skoðun Morgunblaðsins styður við stefnu og sjónarmið Sjálfstfl. Önnur ritstjórnargreinin heitir Eitt af hjartans málum þjóðarinnar og þar er vísað í að á undanförnum vikum hafi farið fram maraþonumræður á Alþingi um hálendið og framtíð þess. Síðan segir, herra forseti:

,,Jafnframt hafa miklar umræður farið fram utan veggja Alþingis, bæði í blöðum og á fundum sem áhugafólk um framtíð hálendisins hefur efnt til.`` Hér segir að á ferðinni sé eitt af þeim málum sem snerta hug og hjarta þjóðarinnar allrar og það þurfi engum að koma á óvart af því að óbyggðir Íslands, hvort sem um er að ræða miðhálendið, Hornstrandir eða önnur óbyggð svæði, séu ein af mestu auðæfum þjóðarinnar. Síðan segir að óbyggðirnar hafi opnast öllum almenningi, betri bílar hafi stuðlað að því en jafnframt hafi sá lífsstíll rutt sér til rúms að ferðast um hálendið, bæði á hestum og fótgangandi. Kannski er þó merkilegasta breytingin á seinni árum sú að hálendið og jöklarnir hafa opnast að vetri til. Hálendissvæðið er heillandi að sumri en það er ævintýralegt að vetri. Þetta vitum við öll sem höfum ferðast um hálendið, þetta fagra land okkar.

Í leiðaranum segir jafnframt að það hafi verið uppi mismunandi skoðanir um hvernig eigi að umgangast hálendið, um viðamiklar framkvæmdir og hvort auðvelda eigi samgöngur um þetta svæði. Morgunblaðið segist hafa hallast að síðara sjónarmiðinu, að framkvæmdum á hálendinu eigi að halda í algeru lágmarki. Morgunblaðið segir líka:

,,Nú er svo komið, að ekki þykir sjálfsagt að virkja í óbyggðum eins og kostur er. Þvert á móti verði að vega og meta kosti þess og galla. Þótt þjóðin geti haft miklar tekjur af því að byggja stórvirkjanir og selja orkuna geti hún líka haft miklar tekjur af því að varðveita mestu óbyggðir í allri Vestur- og Mið-Evrópu.``

Þarna er leiðarahöfundur Morgunblaðsins að koma inn á þá sýn, sem hefur verið rædd í þessum sal, að alls staðar séu menn að endurskoða afstöðuna til stórfelldra virkjana og stóriðju, ekki síst eftir að við höfum gerst aðilar að alþjóðasamningum um andrúmsloftið og mengun þess. Morgunblaðið segir að það sé misráðið að afhenda einstökum sveitarfélögum skipulagsrétt á hálendissvæðum. Morgunblaðið segir að þegar um slíkt mál sé að ræða eigi þingmenn og ráðherrar að láta misskilinn metnað um skjóta afgreiðslu mála lönd og leið. Þjóðin á lýðræðislegan rétt á því að ræða framtíð hálendisins ofan í kjölinn. Það liggur ekki svona mikið á. Síðan segir Morgunblaðið í lokin: ,,Þess vegna ættu meirihlutaflokkarnir á Alþingi og ríkisstjórn að sýna þau hyggindi að slaka á og gefa tíma og svigrúm til frekari umræðna.``

Er þetta stjórnarandstaðan á Alþingi? Nei. Eru þetta einstaklingar sem hafa hlustað á misvísandi skilaboð stjórnarandstöðunnar og hafa misskilið hvað felst í þessu frv. Ég segi nei. Þeir sem skrifa leiðara Morgunblaðsins eru ekki þannig fólk að það viti ekki hvað felst í frumvörpum. Þarna er nákvæmlega sama afstaðan og við í stjórnarandstöðunni höfum sett fram, sömu varnaðarorðin, sama óskin og áskorunin og hefur komið fram hjá öllum félagasamtökunum sem hafa sent forsrh., fyrrv. borgarstjóra í Reykjavík, áskorun um að staldra nú við og láta ekki misskilinn metnað stjórna sér.

Herra forseti. Það kom annar leiðari og hann kom sunnudaginn 24. maí, í gær. Sá leiðari heitir Hálendisfrumvörpum verði frestað. Þar segir:

,,Þeim fjölgar nú mjög, sem hvetja til þess að afgreiðslu hálendisfrumvarpanna verði frestað. Í athyglisverðri grein eftir Svend-Aage Malmberg, haffræðing, einn helsta vísindamann þjóðarinnar, sem birtist í Morgunblaðinu í gær, segir m.a.: ,,Þetta sama land --- víðáttan, fjöll og firnindi, jöklar, hraun, sandar, ár og vötn, ásamt strönd og hafi úti fyrir og himni --- hefur þó einnig sína sál, sinn anda tilfinninga. Öll sár sem landinu eru veitt eru eins og mein í okkar eigin holdi og hjarta. Þannig snúast rökin um varúð í meðferð ekki að mati bréfritara um ferðamennsku og veraldlegan arð, heldur um þjóðarsálina, það að vera Íslendingur í eigin landi ósnortinnar víðáttu, ástina til landsins og meðvitundar um sameiginlega þjóðareign, sem er annað en ríkiseign.````

[15:30]

Þessi tilfinningaþrungni pistill sem leiðarahöfundur Morgunblaðsins tekur inn í leiðara sinn er skrifaður af einum helsta vísindamanni þjóðarinnar, eins og leiðarahöfundur Morgunblaðsins orðar það. Getur verið að einn helsti vísindamaður þjóðarinnar hafi misskilið málið af því að við höfum sent frá okkur misvísandi skilaboð? Ég segi nei. Að sjálfsögu getur það ekki verið. Hins vegar er það að gerast að fleiri og fleiri prófessorar, vísindamenn og fagaðilar á ýmsum sviðum hafa lagt okkur lið í málflutningi okkar á Alþingi. Það er að gerast. Í stað þess að þeir sem valdið hafa sýni traust, hlusti, virði og ákveði að þessar tvær greinar úr sveitarstjórnarfrv. skuli geyma í sumar og ræða við þá sem þurfa að fylgja okkur í þessu stóra máli, þá er sagt: ,,Nei. Þetta mál skal í gegn. Ljúkið þið umræðu um það svo við getum komist í atkvæðagreiðsluna.``

Herra forseti. Að vísu leikur nokkur vafi á því hvernig takast mun til með atkvæðagreiðsluna og að fá nægilega marga einstaklinga í hana en það er síðari tíma mál.

Ég er enn að skoða þennan nýja leiðara Morgunblaðsins frá í gær. Þar er líka vísað til þess, fyrir utan að það er vitnað í þessa góðu grein Svend-Aages Malmbergs, að sjónarmið þessa virta vísindamanns fékk stuðning úr óvæntri átt og er þar vísað til yfirlýsingar frambjóðenda Sjálfstfl. til borgarstjórnar í fyrradag. Þarna er þessi yfirlýsing borgarstjórnarflokksins birt í sjálfum leiðara Morgunblaðsins til að árétta hana og undirstrika hana. Síðar segir í leiðara Morgunblaðsins, með leyfi forseta:

,,Ekki fer á milli mála, að þessi yfirlýsing er gefin vegna þess, að frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins hafa orðið þess varir í kosningabaráttunni, að mikill fjöldi fólks hefur þungar áhyggjur af því að þau frumvörp, sem nú liggja fyrir Alþingi og þá sérstaklega frumvarp að sveitarstjórnarlögum verði samþykkt. Það er mikil og djúpstæð andstaða við þær hugmyndir, að sveitarfélögin, sem land eiga að hálendinu, hafi skipulagsrétt yfir ákveðnum svæðum. Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins hafa bersýnilega fundið að það er varasamt, svo að ekki sé sterkar til orða tekið, að samþykkja þessi ákvæði óbreytt.``

Þetta segir leiðarahöfundur Morgunblaðsins. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Þessi yfirlýsing verðandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er mikilvægt framlag til þeirrar baráttu, sem nú er háð um málefni miðhálendisins. Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins er ekki lítið afl innan flokksins, hvort sem hann er í meiri hluta eða minni hluta í borgarstjórn. Vonandi taka þingmenn Sjálfstæðisflokksins mið af því, sem flokksfélagar þeirra í borgarstjórn hafa um þetta að segja.

Kjarni málsins er þó sá, að andstaðan við afgreiðslu hálendisfrumvarpanna er svo mikil, að það er ekkert vit í því fyrir stjórnarflokkana að knýja á um, að þau verði samþykkt að óbreyttu.``

Ég segi: Er eitthvert vit í þessari umræðu inni á Alþingi Íslendinga? Allir gera sér grein fyrir því að þetta frv. og ákvörðunin sem felst í því er svo umdeild að það er ekki vit í því að ljúka þessu máli hér og gera frv. að lögum með 1. gr. og bráðabirgðaákvæðinu.

Hér hefur stjórnarandstaðan fengið þennan sterka bandamann, Morgnblaðið, í tveimur leiðurum með tilvísun til virtra vísindamanna og með tilvísun í borgarstjórnarflokk Sjálfstfl. Leiðarahöfundur segir að borgarstjórnarflokkurinn sé ekki lítið afl innan flokksins hvort sem hann er í meiri hluta eða minni hluta í borgarstjórn. Við hljótum því að spyrja: Ætlar borgarstjórnarflokkurinn að hlaupa frá yfirlýsingu sinni? Ætlar borgarstjórnarflokkurinn að láta kyrrt liggja núna af því að þeir unnu ekki meiri hlutann í borginni og þurfa þess vegna að eigin mati e.t.v. ekki að berjast fyrir málinu? Þetta hlýtur að vera sú spurning sem allir spyrja nú: Hvað ætlar borgarstjórnarflokkurinn að gera?

Hvað ætlar formaður Sambands ísl. sveitarfélaga sem situr í öðru sæti á borgarstjórnarlista Sjálfstfl. að gera? Er hægt að setja fram slíkar yfirlýsingar í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, slík loforð til umbjóðenda sinna til sækja atkvæði til Reykvíkinga og horfa svo bara í hina áttina? Fyrir vestan yrði sagt: ,,Er þetta hægt, Matthías?`` Í þessu tilfelli er það ekki hægt. Það er ekki hægt. Ég hvet þingmenn sem hér eiga eftir að tala í þessu stóra máli að fylgja fordæmi mínu og kalla eftir því að borgarstjórnarflokkur Sjálfstfl. svari fyrir það í fjölmiðlum hvort hann ætli að standa við orð sín, hvort hann beiti sér við forsrh. og að gengið verði eftir því af fjölmiðlum að tala við formann Sambands ísl. sveitarfélaga sem situr í öðru sæti á borgarstjórnarlista Sjálfstfl. og spyrja: Hvað meintirðu? Því hann hefur vitkast frá því að við kölluðum hann síðast á fund félmn.

Um þetta snúast stjórnmál. Um þetta snýst það hvort maður er traustsins verður. Er það bara svo, ef það er heilt ár í næstu kosningar, að nóg er að hafa sagt ,,Sjálfstfl. er traustsins verður`` í fyrradag en éta það ofan í sig í dag á mánudag? Er það svo? Ég segi nei. Annaðhvort er flokkur traustsins verður eða ekki. Ekki mundi ég vilja sjá svona flokk. Ef ég væri Reykvíkingur sem hefði gengið til liðs við hann í þessum kosningum út á þessar yfirlýsingar, (Gripið fram í: Þá hefðir þú óbragð í munninum.) þá mundi ég kalla eftir því að menn fylgdu sannfæringunni hinni nýju eftir.

Herra forseti. Ég vísaði til þess í upphafi máls míns að fjölmargir fulltrúar hefðu komið á fund félmn. og það var áhrifaríkt að hlusta á þá alla lýsa því yfir að þeir teldu að fresta ætti þessu máli. Þeir hafa sent frá sér yfirlýsingar og þeir hafa sent frá sér áskoranir sem auðvitað er ekkert gert með enn þá. En það er líka bent á það í erindi sem hefur borist til okkar þingmannanna um skipulagsmálin, af því að við höfum verið að tala um hvort svæðisskipulag hafi eitthvert vald.

Ég sat í bæjarstjórn Kópavogs þegar Skipulagsskrifstofa höfuðborgarsvæðisins var sett á laggirnar og sá skipulagsfræðingur sem þar starfaði árum saman við að reyna að koma á svæðisskipulagi fyrir höfuðborgarsvæðið viðurkenndi á fundi í félmn. að hann hefði gefist upp. Það er vegna þess að slíkt svæðisskipulag hefur ekki bakhjarl. Það hefur ekki stjórnsýsluvald á bak við sig. Það eru sveitarfélögin sem hafa stjórnsýsluvaldið. Það eru sveitarfélögin sem hafa aðalskipulagsvaldið, deiliskipulagsvaldið og ekkert fær hnekkt þessu.

Hann setti líka fram spurningar. Hvernig má það vera að umhvrn. eigi að fylgja eftir svæðisskipulagi, umhvrn. sem ekki hefur einn skipulagsfræðing innan veggja ráðuneytisins? Þetta er bara eins og að tannlæknir eigi að bera faglega ábyrgð á heilaskurðlækningum eða eitthvað annað slíkt. Það fer því ekki hjá því að stjórnarmeirihlutinn hafi fengið að heyra mörg alvarleg orð í allri þeirri umfjöllun sem við höfum staðið fyrir, sem við, stjórnarandstaðan á Alþingi, höfum staðið fyrir. Það erum við sem höfum óskað eftir því að það væru kallaðir til aðilar. Það erum við sem höfum bent á hvað hér er að gerast og allir þeir aðilar sem vit hafa á hafa látið í sér heyra og reynt að hafa vit fyrir stjórnarmeirihluta sem er uppteknari af valdinu en traustinu. Frammi fyrir því stöndum við í dag, stjórnarmeirihluta sem er uppteknari af valdinu en traustinu. Við skulum muna það því að þegar stjórnarmeirihluti hefur berað sig á þennan hátt, þá verður mjög torsótt að sækja sér aðra ímynd. Að vera uppteknari af valdinu en traustinu er svo sérstakt og í raun og veru þannig að við eigum aldrei að gleyma því. Allt það ár sem á eftir að líða fram að næstu alþingiskosningum á að halda því á lofti að hér er stjórnarmeirihluti sem er uppteknari af valdinu en traustinu. Hér er stjórnarmeirihluti sem er uppteknari af atkvæðamagninu og valdinu sem það gefur en hinu eiginlega lýðræði. Þannig stjórnarmeirihluti er á Alþingi Íslendinga. Þessu skulum við halda á lofti.

Mig langar líka, herra forseti, þó að ég fari nú að ljúka máli mínu innan tíðar að koma inn á þetta sem hefur verið félmrh. svo hugstætt. Hann hefur aftur og aftur haldið því fram að það sé eiginlega fyrir löngu búið að skipta miðhálendinu upp á milli sveitarfélaga, það sé bara einhver ræma í kringum jökla sem átt hafi eftir að skipta og þess vegna séum við með einhvern vindblástur. Auðvitað er þetta rangt.

Í fyrsta lagi segir í lögunum sem við erum að breyta að byggðin í landinu skiptist í sveitarfélög. Við vitum náttúrlega hvert byggðin nær. Í öðru lagi gerði ég tilraun til þess í félmn. að fá kort sem sýndi þau mörk þar sem sagt hefur verið að sveitarfélögin væru farin að ná inn á hálendið. Það er engin leið að fá slíkt kort. Hefðu verið faglegri vinnubrögð fyrir utan allt sem hér hefur komið fram, hefði félmrh. látið vinna slíkt kort máli sínu til stuðnings. Ekki er nokkur leið að fá að sjá slíkt kort.

Ekki bara ráðherrann heldur aðrir þingmenn hafa étið þetta upp, þ.e. að búið sé að skipta nær öllu miðhálendinu upp á milli sveitarfélaganna, það hafi verið gert þegar afréttir landsins voru settir undir sveitarfélögin með breytingu á sveitarstjórnarlögum. Ég gerði því skilmerkilega skil við 2. umr. hvernig það gerðist. Slíkar blekkingar eru settar fram í skjóli þess að ekki er til kort sem afmarkar afrétti frá almenningum eins og ég hef líka bent á. Þess vegna er það alrangt að búið sé að skipta hálendinu upp. Hið rétta er að hér er um að ræða víðfeðm svæði sem flokkast undir almenninga. Í því sambandi má nefna allt Ódáðahraun, svæðið norðan Vatnajökuls, Sprengisand, Nýjadal, Veiðivatnasvæðið og svæðin fyrir norðan Tungnaárjökul. Þessir hlutar landsins opnuðust mönnum ekki fyrr en um miðbik þessarar aldar og þá fyrir tilstilli útivistarmanna.

Fræðimenn telja, og ég vísa til Ólafs Siggeirssonar hæstaréttarlögmanns, að miklar líkur séu á því að landamerki sem greina að afrétti landsins og almenninga séu ekki rétt dregin, að í mörgum tilvikum séu mörkin dregin út á almenninga og þá miðhálendið og með því eru sveitarfélögin talin stærri en þau í raun eru. Mörkin hafi þannig verið dregin lengra til heiða sem sjá má af fyrri afsölum þar sem landamerkja er getið. Takið eftir þessu. Hann telur einnig að þessar línur muni ekki standast fyrir rétti því að menn geti ekki fært mörk sveitarfélags út með einhliða yfirlýsingu eins og gert var hér á landi þegar skipað var með lögum frá 1882, um landamerki, að ákveða þyrfti mörk landa. Þess vegna er mjög líklegt að miðhálendið sem er utan sveitarfélaga sé í raun miklu stærra en talið hefur verið, fyrir utan það sem við höfum sagt. Það er talið að skipanin sem við höfum búið við hafi komist á um 930.

Það væri freistandi að fjalla um það hvernig jarðirnar voru stofnaðar og hvernig kveðið var á um almenninga í Jónsbók. En ég ætla ekki að gera það vegna þess að þó að það væri fróðlegt fyrir þá sem eru að taka þátt í þessari umræðu þá veit ég að ef ræða mín fer mikið yfir eina klukkustund þá verður því haldið fram að við séum hér með málþóf og við sem hér erum vitum að svo er ekki. Við ætlum að vera með öfluga umræðu við 3. umr. málsins eins og við höfum gert. En við höfnum því að það sé nefnt einhverjum ónefnum.

[15:45]

Ég hef nefnt svæðisskipulagið, herra forseti, og að það haldi ekki og ég held því fram að skipulagning miðhálendisins verði að byggjast á heildarsýn svo gætt verði samræmis og um þetta eru flestir sammála. Þetta er það sem alls staðar er kveðið á um hjá öllum sem senda okkur tölvubréf, frá öllum sem hafa sent áskoranir til stjórnvalda, öllum þeim sem eru að fjalla um þessi mál.

Menn greinir á um leiðir til að tryggja að nauðsynlegt samræmi verði í skipulags- og byggingarmálum. Stjórnarliðarnir hafa bent á heimild í skipulagslögunum til skipunar samvinnunefndar til að fara með svæðisskipulag og að hægt væri að skipuleggja miðhálendið á grundvelli þessarar heimildar, þ.e. svæðisskipuleggja það. En þetta er blekking. Ég fór í gegnum það við 2. umr. hvernig hvernig annars vegar væri hægt að svæðisskipuleggja á grundvelli 1. mgr. 12. gr. og svo hins vegar 6. mgr. 12. gr. og færði fyrir því þau rök að þetta gengur ekki upp. Annars vegar eru það sveitarfélögin sem gera svæðisskipulag og það verður að vera eining. Ef eitt sveitarfélag er ekki sátt og vill hafa aðalskipulag sitt öðruvísi þá næst ekki svæðisskipulag. Hins vegar getur umhvrh. ákveðið að skipa sérstaka nefnd til að gera tillögu að svæðisskipulagi og það er hægt að gera þetta ef það er ágreiningur milli sveitarfélaga. En með slíku frumkvæði er hann bara bundinn af því að sátt náist um skipulagið hjá öllum. Þessi umræða um að lagfæra þetta í skipulagslögunum er svo götótt. Ef menn halda að það að vilja ekki taka frv. til skipulagslaga á dagskrá með sáttatillögu um hvernig skuli fara með svæðisskipulag miðhálendisins bara af því að frv. var svo seint fram komið að menn þurftu að fella afbrigði fyrir stjórnarandstöðunni um að taka það á dagskrá, ef menn halda að svo hafi verið bara út af prinsippinu um seint fram komið mál, þá er það misskilningur. Það er vegna þess að menn vita veikleikann sem verður í þessu skipulagsfrv. þegar það kemur.

Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að jafnvel þó þessi skipulagstillaga komi fram, ef hún gerir það, með þeim 12 sem eiga að koma frá svæðunum og hinum sex sem eiga að koma annars staðar frá, þá er það auðvitað þannig að þessir 12 verða væntanlega þeir aðilar sem hafa verið að vinna með svæðisskipulagið. Bæði verður það svo að fulltrúarnir hérna úr þéttbýlinu verða í miklum minni hluta og auk þess komum við alltaf að því sama. Það er ekkert stjórnvald á bak við hópinn. Það er ekki eins og þessi samvinnunefnd um svæðisskipulag sé eins konar sveitarstjórn sem hefur vald til að gera hlutina. Hún sækir umboðið til sveitarstjórnanna og það eru sveitarstjórnirnar með aðalskipulagsvaldið sem ráða. Þess vegna er alveg ljóst að slíkri tillögu verður aldrei hrint í framkvæmd án samþykkis sveitarfélaganna af því að aðalskipulagið er svo sterkt og ef það ætti að hafa það öðruvísi þá verður að taka aðalskipulagsvaldið af sveitarfélögunum. Ég vil sjá að það sé gert að aðalskipulagsvaldið og aðalskipulagsrétturinn verði tekinn af 40 sveitarfélögum sem liggja að miðhálendinu á meðan önnur sveitarfélög landsins halda aðalskipulagsréttinum. Hvers konar mismunun væri það? Ætli það væri ekki talið brot á stjórnarskránni þannig að menn eru í sjálfheldu og það er ástæðan fyrir því að þetta frv. kom ekki fram.

Þess vegna er alveg ljóst að ólík sjónarmið og mismunandi hagsmunir einstakra sveitarfélaga munu ráða ferðinni á miðhálendinu í framtíðinni ef þessi leið verður farin og það er hætta á hagsmunaárekstrum þegar t.d. tíu sveitarstjórnir þurfa að fjalla um málefni á svæði sem í reynd er ein skipulagsleg heild, t.d. vegna virkjunarframkvæmda. Við höfum bent á að hún getur tilheyrt mörgum hreppum, stíflugerð og lón í einu sveitarfélagi, línur í öðru og stöðvarhús í því þriðja og átök geta orðið um hver eigi að fá tekjurnar, fasteignagjöldin o.s.frv. Það er mjög erfitt að sjá, eins og ég hef þegar sagt, að heimild til að bæta svæðisskipulagsmeðferð verði beitt við slíkar aðstæður. Svo er aldrei hægt að komast hjá því heldur að sveitarstjórn sér um útgáfu byggingarleyfa og það er bæði einfalt að koma í veg fyrir byggingu mannvirkis og líka að ákveða að mannvirki skuli verða öðruvísi ef manni líkar ekki áformin sem koma fram í svæðisskipulagi.

Herra forseti. Það er afskaplega alvarlegt hvernig haldið hefur verið á þessu máli af hálfu stjórnarmeirihlutans. Það er alvarlegt, það er rangt og það er í grundvallaratriðum að mínu mati brot á öllu lýðræði. Komið hefur í ljós að sjálfstæðismeirihlutinn eða sá hluti meiri hlutans á Alþingi sem kemur frá Sjálfstfl. hefur ekki bakland í sínum flokki. Það hefur komið í ljós að sá hluti meiri hlutans á Alþingi sem kemur frá Framsfl. nýtur ekki stuðnings framsóknarfélaganna í Reykjavík. Það hefur komið í ljós að stjórnarmeirihlutinn á Alþingi nýtur ekki stuðnings allra þeirra samtaka sem gerst þekkja málefni hálendisins eins og ljóst er af öllum ályktunum sem hér hafa komið fram. Stjórnarmeirihlutinn nýtur ekki stuðnings þeirra sem eru mótandi í þjóðfélagsumræðunni eins og ég hef þegar bent á með því að vitna í leiðara bæði Morgunblaðsins og DV og maður hlýtur að spyrja sig: Hefur ríkisstjórnin bakland í stjórnarmeirihlutanum? Er það kannski svo að bara örfáir eins og Ólafur Örn Haraldsson hafi þorað að standa upp og segja: ,,Ég vil þetta ekki``? Er það e.t.v. svo að ríkisstjórnin í metnaði sínum við að keyra fram mál, bara af því að hún var búin að setja það svona niður á blað, að það sé metnaðurinn einn sem stendur eftir en baklandið sé ekkert, hvorki utan þings né innan? Það held ég.