Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 17:02:26 (6847)

1998-05-25 17:02:26# 122. lþ. 132.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[17:02]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er að koma að lokum umræðu um þetta stóra mál sem hefur verið lengi á dagskrá Alþingis. Óhjákvæmilegt er í lok umræðunnar að teknir séu saman ýmsir þeir punktar eða þau aðalatriði sem ýmist einstaka þingmenn, þingflokkar eða aðrir aðilar utan þings, svokallaðir hagsmunaaðilar, hafa haft uppi í umræðunni.

Það eru nokkur atriði, herra forseti, sem ég vildi gjarnan fara yfir þegar ljóst er að hv. félmn. hyggst ekki gera frekari breytingar á því frv. sem liggur fyrir. Ég ætla að geyma það sem lýtur að 1. gr. og bráðabirgðaákvæðinu og snúa mér að öðrum greinum þessa frv. sem eru eins konar eðlilegt framhald eða hliðstæða þeirra laga sem sveitarfélögin búa við í dag og ætla fyrst að nefna að ég hefði talið eðlilegt að tekið væri tillit til þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið á lágmarksíbúatöluna. Mér sýnist að á ferðinni sé stefna hæstv. ríkisstjórnar sem lýtur að því að sveitarfélögin geti verið með 50 íbúa og gert sé einfaldlega ráð fyrir því að íbúar landsins búi við mjög mismunandi þjónustu og aðstöðu. Ég er mjög ósátt við þetta, herra forseti. Ég hef alltaf verið ósátt við þá lágmarksíbúatölu sem hefur verið í sveitarstjórnarlögum. Ég var líka ósátt við það að sú tala skyldi vera 100 í lögunum sem giltu fyrir 1986 og það var merkilegt að þegar þau lög voru sett, sem við höfum búið við síðan, skyldu menn lækka töluna niður í 50. Mér finnst þetta ekki boðleg stefna ef menn hafa áhuga á því að efla landsbyggðina. Ef menn hafa hins vegar lítinn áhuga á því eða hirða ekki um þá stjórnsýslulegu möguleika sem hún þarf að hafa til að taka á verkefnum get ég skilið pólitíkina en ég er alfarið á móti henni.

Ég vil sömuleiðis fara inn í 7. gr. Ég er fegin því að nefndin tók málið til umfjöllunar á milli 2. og 3. umr. Nauðsynlegt var að fjalla betur um það nýja ákvæði sem kom inn með brtt. en ég er samt sem áður á þeirri skoðun að þetta ákvæði verði illframkvæmanlegt og ég er ósátt við það sem fram kom hjá formanni Sambands ísl. sveitarfélaga, að íbúarnir gætu þá leyst ágreining sinn við viðkomandi sveitarstjórn fyrir dómstólum. Mér finnst það heldur ekki boðlegt þegar verið er að setja ákvæði eins og þetta inn sem getur leitt til þess að gjaldskrár fyrirtækja sem eru með einokunaraðstöðu hækki þannig að íbúarnir kveinki sér undan, að benda þeim á að leysa sín mál fyrir dómstólum vegna þess að sumir geta ekki leyst þessi mál í kosningum. Þeim er einfaldlega ekki þannig háttað.

Ég hef líka tekið eftir því að menn vilja líta svo á að hér sé eingöngu verið að tala um það sem lýtur að veitum og menn vísa til þess að á þessu verði tekið í löggjöf í orkulögum, í lögum um vatnsveitur. Greinin sjálf er hins vegar mjög opin og ekkert er í henni í sjálfu sér sem takmarkar að fleiri þættir í þjónustu sveitarfélagsins séu settir upp með arðgjafar- eða arðgreiðslumarkmið í huga.

Bent hefur verið á að þegar sveitarfélög eða aðrir aðilar setja sér fyrir fram arðgreiðslumarkmið gerist það í gegnum hækkun gjaldskrár sem þýðir það að vegna þeirra gjalda sem ríkið fær, m.a. af virðisaukaskatti, þurfi sú gjaldskrá að vera umtalsvert hærri en ella væri ef um væri að ræða það sem mér fannst hv. þm. Ögmundur Jónasson vera að tala um áðan, eðlilegan arð af þeirri starfsemi sem fram fer og vel er rekin. Fyrirframarðgreiðslumarkmið kallar á hærri gjaldskrá og þar með á auknar skattgreiðslur sveitarfélaganna til ríkisins. Ef til vill hefur þetta atriði verið skoðað en hér er um umtalsverðar fjárhæðir að ræða.

Herra forseti. Ég er sem sagt ekki sátt við ákvæðið eins og það er. Ég tel að það hefði þurft betri tíma til þess að skoða það, jafnvel að hér lægju fyrir eins konar forúrskurðir varðandi það hvernig á málum yrði tekið vegna þess að ég er nokkuð viss um að mjög fljótlega verður látið á þetta ákvæði reyna með einum eða öðrum hætti og þá mun ráðuneytið þurfa að úrskurða. Ég vænti að dómstólaleiðin verði ekki allra heldur muni einhverjir láta ráðuneytið úrskurða.

Ég vil jafnframt, herra forseti, fara inn á 11. gr. frv. Það er eina greinin sem hlaut náð fyrir augum meiri hluta nefndarinnar hvað varðaði breytingu þar sem orðið Reykjavík kemur í staðinn fyrir Reykjavíkurborg. Það gerist vegna mistaka að orðið Reykjavíkurborg kemur þarna inn en það verður að segjast eins og er, herra forseti, að orðalag greinarinnar er einkar klúðurslegt og ástæða hefði verið til þess að umskrifa hana og ég hef þess vegna gerst meðflm. að brtt. Það er brtt. á þskj. 1416 við 1. mgr. 11. gr. þar sem lagt er til að í stað þess texta sem þar er orðist 1. mgr. svo, með leyfi forseta:

,,Yfirstjórn hvers sveitarfélags nefnist sveitarstjórn. Heimilt er sveitarstjórn að nota heitið hreppsnefnd eða bæjarstjórn, enda byggi slík málnotkun á hefð. Byggðarráð skv. 38. gr. má á sama hátt nefnast bæjarráð eða hreppsráð og sveitarstjóra má kalla bæjarstjóra.``

Síðan er næsta málsgrein um Reykjavík sérstaklega og ekki er hreyft við henni eða því sem þar stendur utan þess sem meiri hluti nefndarinnar gerir tillögu um og hér hefur áður verið rætt að í stað orðsins Reykjavíkurborg komi Reykjavík.

Það orðalag sem hér er lagt til er skýrara og einfaldara en það sem fyrir er. Hér er um nokkurs konar snyrtingu að ræða á greininni sem mér finnst eðlilegt að meiri hlutinn taki tillit til. Ekki er verið að skipta um pólitík nema hvað varðar það ákvæði hér inni sem segir: ,,enda byggi slík málnotkun á hefð``. Hér gætir svolítillar íhaldssemi hvað varðar notkun á þessum heitum og ég vil útskýra í stuttu máli af hverju mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að við höfum svolitla íhaldssemi í þessum efnum.

Orðið hreppur er gamalt orð í tungunni og er upphaflega notað um stjórnsýslueiningar sem veittu íbúum, þ.e. íbúum hreppanna sem er elsta stjórnsýslueiningin á Íslandi, ákveðin réttindi, gaf þeim ákveðinn rétt eins og varðandi framfærslu og voru út af fyrir sig mjög merkilegir og einstakir á þeim tíma, þ.e. við upphaf Íslandsbyggðar. Orðið hreppur er talið komið af orðinu að hreppa, þ.e. þú hreppir eitthvað ef þú ert íbúi í hreppi. Þannig vísar orðið beint til þess hlutverks hreppsins að sjá íbúum sínum fyrir tiltekinni þjónustu og framfærslu ef á þarf að halda. Ég held að tungan yrði fátækari ef þetta orð hyrfi eins og mér sýnist því miður að geti verið í farvatninu og að jafnframt misstum við út svo ágæta sögulega skírskotun eins og þá sem felst í þessu nafni. Á þessu byggir sú íhaldssemi, herra forseti, sem ég vil setja inn með þessari aukasetningu í brtt. við 1. mgr. 11. gr. sveitarstjórnarlaganna. Þetta er auðvitað brtt. sem breytir engu hvað varðar megintilgang þeirrar lagasetningar sem er á ferðinni en hefur það tvennt sér til ágætis, sem ég gat áðan um, annars vegar þessa sjálfsögðu þjóðlegu íhaldssemi og hins vegar mun betra og skýrara orðalag og ég bið hæstv. félmrh. að veita því athygli.

Ég vil þá víkja að 81. gr. þessa frv. Í málflutningi mínum við 2. umr. málsins fjallaði ég nokkuð um hlutverk héraðsnefnda og samvinnu sveitarfélaga. Ég vakti á því athygli að orðið héraðsnefnd kemur fyrir einu sinni í þessu frv. og þá einungis sem upptalning en hvergi er gerð tilraun til þess að skilgreina hver verkefni héraðsnefnda skuli vera. Þó er það svo í gildandi lögum vegna þess að við setningu þeirra laga sem við búum við núna voru héraðsnefndum falin tiltekin verkefni, m.a. þau að taka við verkefnum gömlu sýslunefndanna. Víða er það svo að héraðsnefndirnar hafa tekið að sér mikilvæg hlutverk, m.a. rekstrarverkefni, fyrir sveitarstjórnir á tilteknum svæðum og það svæðisskipulag sem hefur verið unnið fyrir miðhálendið er unnið af fulltrúum héraðsnefndanna samkvæmt því bráðabirgðaákvæði við byggingar- og skipulagslög sem gilti um það. Það kom enda fram í umræðu um þetta frv., þegar frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum var lagt fram til kynningar, að menn spurðu strax hverjir eigi að skipa þá 12 fulltrúa frá þeim sveitarfélögum sem liggi að miðhálendinu sem tilgreint er að eigi að skipa í hina nýju samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins. Bæði hv. þm. Jón Kristjánsson sem og flokksbróðir hans, hæstv. umhvrh., sögðu að það væru héraðsnefndirnar. En þess sér ekki stað, herra forseti, ef lesið er frv. sem lagt var fram um breytingar á skipulags- og byggingarlögum að svo skuli vera, og þess sér ekki heldur stað í frv. til sveitarstjórnarlaga, hvorki fyrir né eftir skoðun hv. félmn. Þetta finnst mér miður og gerir í rauninni enn þá erfiðara að átta sig á því hvernig á að leysa skipulagsmál miðhálendisins verði þetta frv. að lögum nú eins og það liggur fyrir.

[17:15]

Málflutningur ríkisstjórnarflokkanna hefur verið á þann veg að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af málinu vegna þess að í fyrsta lagi yrði um að ræða svæðisskipulag og í öðru lagi væri um að ræða svo lítil svæði að manni skildist að það tæki því varla að tala um þau.

Fyrst um svæðisskipulag. Það er alveg ljóst að svæðisskipulag er mun veikara en aðalskipulag og deiliskipulag. Það er tiltölulega einfalt vegna þess að á bak við aðalskipulag er stjórnsýsluaðili, sveitarstjórn og hún tekur ákvarðanir og ver sitt skipulag og fylgir því eftir. Ekkert slíkt er á bak við svæðisskipulag. Ég hef þess vegna velt því fyrir mér miðað við þennan málflutning sem hér er hafður uppi um gildi svæðisskipulags fyrir miðhálendið og ég vildi gjarnan fá svar við þeirri spurningu: Stendur þá til að taka aðalskipulagsréttinn af þeim sveitarfélögum sem munu fara með stjórnsýsluna á miðhálendinu? Ég get ekki skilið hvernig þessi málflutningur ríkisstjórnarflokkanna á að ganga upp ef aðalskipulagsréttur sveitarfélaganna á að vera óskertur. Ég vil því fá svar við þessari spurningu: Á að taka aðalskipulagsréttinn af sveitarfélögunum sem liggja að miðhálendinu eftir að þau eru komin með aðalskipulagsvald inn að miðju lands? (Félmrh.: Nei.) Nei, segir hæstv. félmrh. að bragði. En ég hlýt samt að halda áfram að velta því fyrir mér, herra forseti, hvernig þetta eigi að ganga upp. Ekkert bendir til þess að þetta geti gengið upp.

Ég hef líka heyrt þau rök hæstv. forsrh. að menn þurfi ekki að hafa svo miklar áhyggjur af því að fyrir þinginu liggi líka hið ágæta frv. um þjóðlendur. Það er vissulega rétt að í þjóðlendufrv. er tekið fram að allt það land sem ekki er í einkaeigu verði í eigu þjóðarinnar, það verði svokallaðar þjóðlendur. En þetta nægir bara ekki, herra forseti. Það er gott að hafa það skilgreint í lögum og að úr því verði skorið með óbyggðanefndinni hvaða land er land í einkaeigu og hvaða land er þjóðlenda. Það er hins vegar þannig að nýting þessa lands ræðst af því skipulagi sem um það verður samþykkt. Þess vegna skiptir öllu máli hvernig staðið er að skipulagsmálunum og ef það á að vera um heildstætt skipulag að ræða fyrir miðhálendið þá sé klárlega á bak við það stjórnsýsluvald sem geti fylgt því eftir og séð um að það sé haldið. Vandi minn, herra forseti, er því hinn sami og vandi þjóðarinnar. Það vefst fyrir okkur að skilja hvernig þessir hlutir geti gengið upp sameiginlega ef sveitarfélögin eiga áfram að hafa óskert aðalskipulagsvald og þannig verði örlögum miðhálendisins ráðið af 42 hagsmunaaðilum sem þurfa ekki að taka tillit hverjir til annarra umfram það sem hentar hagsmunum þeirra á hverjum tíma.

Það var gott að fá ákvæðið inn í lögin um stjórn fiskveiða að fiskimiðin í kringum landið væru í eigu þjóðarinnar. Það hefur hins vegar komið fyrir lítið einfaldlega vegna þess að nýting þeirra er ákvörðuð á annan hátt er. Hið sama óttast ég að muni eiga við um þjóðlendurnar. Það er gott, og það höfum við öll verið sammála um, að skilgreint sé í lögunum hvað af landinu er í eigu þjóðarinnar en ég óttast jafnframt, herra forseti, að það komi fyrir lítið þegar annars staðar verður ákvarðað hvernig það verður nýtt. Þetta eru stærstu áhyggjur mínar um það frv. til sveitarstjórnarlaga sem hér liggur fyrir.

Það er alveg ljóst, herra forseti, vitað hér og margbúið að fara yfir að þær áhyggjur sem við mörg hver höfum hér, þingmenn bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, eru bergmál af áhyggjum stórs hluta þjóðarinnar. Menn hafa áhyggjur af þessu máli af því að þeir skilja það, af því að þeir átta sig svo vel á því hvað er hér á ferðinni. Málið er nefnilega ekkert sérstaklega flókið. Það er tiltölulega einfalt og það þarf ekki þess vegna að gefa út skýringar eftir að búið er að samþykkja málið sem lög frá Alþingi.

Þeir eru ýmsir sem hafa reynt að velta upp möguleikum til að ná utan um skipulagsmál miðhálendisins og ég vil, herra forseti, leyfa mér að vitna í grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær um landsskipulag, um heildarhugsun sem næði jafnt til hálendis og láglendis. Í þessari grein, sem er eftir Trausta Valsson skipulagsfræðing, er velt vöngum yfir því hvernig hægt væri að tryggja heildarhugsun í skipulagi. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Slík heildarhugsun yrði að fela í sér að fulltrúar heildarhagsmuna ríkis og þjóðar yrðu að koma að málum á þann veg að hreppasjónarmið yrðu látin víkja fyrir hagsmunum heildarinnar þegar í odda skerst. Þetta gerist að sjálfsögðu ekki þegar einn hagsmunahópurinn, bændur, hefur yfirgnæfandi meiri hluta í skipulagsnefndinni eins og er nú og reyndar líka í fyrirliggjandi tillögu Guðmundar Bjarnasonar um breytingu í skipan nefndarinnar.``

Þarna er verið að vísa í frv. sem ekki mátti taka til umræðu. Þetta er einn angi af þessari hugsun, þeirri gagnrýni, þeim áhyggjum sem fram hafa komið.

Ég vil líka, herra forseti, víkja að þeim leiðurum Morgunblaðsins sem skrifaðir eru nú með viku millibili, þar sem reynt er að brýna hæstv. forsrh. og ríkisstjórnina til þess að gefa það tóm sem beðið er um til að málið megi skoðast betur til þess að ná sáttum um þetta stóra mál sem skiptir svo marga miklu. Undir þetta hefur einnig tekið, eins og hér er orðið kunnugt og alræmt, borgarstjórnarflokkur Sjálfstfl. sem telur að almenn viðbrögð sýni að þörf sé á auknu ráðrúmi og víðtækari umræðu utan þingsins um þetta mikla hagsmunamál og skorar þess vegna á ríkisstjórnina að ljúka ekki afgreiðslu frumvarpa um skipan mála á miðhálendinu þegar þing kemur saman að loknum sveitarstjórnarkosningum heldur fresta henni til haustsins. Má því segja að maður gangi undir manns hönd til að reyna að hafa vit fyrir ríkisstjórninni í þessu máli. Mér þykir orðið örvænt um að svo megi verða, a.m.k. heyrðist mér á hæstv. forsrh. við umræðuna fyrr í dag að honum þætti lítið til áskorunar borgarstjórnarflokks Sjálfstfl. koma og fulltrúi þess borgarstjórnarflokks sem nú situr á Alþingi sem varaþingmaður hefur ekki svo ég viti beðið um orðið í þessari umræðu til þess þá að skýra betur hver raunveruleg staða mála er þar á bæ.

Ég vil, herra forseti, vitna í grein eftir Pál Sigurðsson prófessor sem birtist í Morgunblaðinu 15. maí sl. þar sem hann fjallar enn á ný um frv. sem við ræðum hér, en Páll hefur verið mjög ötull bæði við greinaskrif og einnig við að útskýra málið, fara yfir það og skýra ýmsar lögfræðilegar hliðar þess. Hann segir, herra forseti:

,,Að undanförnu hefur staðið mikill styr um þessi mál í þingsölum, svo sem öllum er kunnugt um, og er enn ekki séð fyrir endann á þeirri umræðu. Sannast sagna verðskulda óbyggðir okkar alla þessa umræðu og þó lengri væri`` --- hér er ekki verið að mæla ræður þingmanna í krónum og aurum eins og sumum hefur hentað að gera --- ,,því að slík eru verðmætin, sem þar eru í húfi, bæði tilfinningaleg verðmæti og fjárhagsleg. Þessi umræða er einnig þeim mun þarfari sem minna hefur farið fyrir opinberum skoðanaskiptum um hálendismálefnin á undanförnum árum.``

Ég vitna áfram í grein Páls Sigurðssonar þar sem hann er að reyna að átta sig á því og svara því af hverju málið er keyrt af því harðfylgi sem raun ber vitni innan þingsins. Hann segir hér, með leyfi forseta:

,,Það er sammæli margra, sem vel þekkja til, að ásókn hlutaðeigandi sveitarfélaga í ,,tertusneiðarnar``, ásamt skipulagsvaldi, sem stjórnunarráðunum mun fylgja, stafi síst af öllu af einlægri löngun sveitarstjórnarmanna til að skipa málum hálendisins til frambúðar með almannaþarfir í huga heldur muni fégirnd ein ráða för. Fyrst og fremst kemur þar til von hreppstjórnenda um að ná háum fjárhæðum í skaðabætur vegna virkjanaframkvæmda (,,Blöndubæturnar`` til Svínavatnshrepps í Austur-Húnavatnssýslu eru þeim að vonum hugstæð fyrirmynd) ...``

Svo mörg voru þau orð, herra forseti. Hér skrifar sá maður sem mikið hefur skoðað þessi mál og reynir að lýsa áhyggjum sínum og annarra, reynir að skýra hvernig það má vera að málið er keyrt af slíku offorsi í gegnum þingið þrátt fyrir augljósan vilja meiri hluta þjóðarinnar til að fresta málinu og gefa svigrúm til að gaumgæfa betur ýmsar hliðar þess sem hreint ekki blasir við hvernig á að leysa.

[17:30]

Herra forseti. Ég vil rétt víkja að þeirri umræðu sem hér hefur farið fram og einstakir þingmenn hafa staðið fyrir, um málflutning þann sem gengur gegn því að afgreiða frv. núna, að þeir sem vilja fresta afgreiðslu þess til haustsins geri það vegna vantrúar á getu sveitarstjórna eða sveitarstjórnarmanna. Því er haldið fram að frestun málsins fram til haustsins snúist um vantrú á getu sveitarstjórna eða sveitarstjórnarmanna.

Fyrst þegar ég heyrði þennan málflutning, herra forseti, hélt ég að um væri að ræða brandara. Síðan varð mér ljóst að mönnum var full alvara, a.m.k. settu þeir mál sitt fram af þeim þunga að þeim hlaut að vera nokkur alvara. Ég ætla hins vegar að fullyrða, herra forseti, að vilji þeirra sem biðja um að frv. sé frestað snýst ekki um þetta. Hann hefur nákvæmlega ekkert með trú á sveitarstjórnum eða sveitarstjórnarmönnum að gera. Hann gengur út á að þau ákvæði frv., sem og ákvæði annarra frv. sem vísað er til eins og þjóðlendufrv., ganga einfaldlega ekki upp eins og forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar vilja vera láta. Menn vilja fá tíma til þess að skoða þessi ákvæði betur, fá það svigrúm sem þarf til að gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru svo þessir hlutir geti gengið eðlilega upp.

Menn eru að biðja um þennan frest af því að þeim er annt um það hvernig þessi mál æxlast, hvernig þetta muni ganga fyrir sig. Þeim er annt um að skipulagsmál miðhálendisins gangi þannig fyrir sig að engin slys verði vegna þess að þessum aðilum er flestum jafnljóst að við þurfum að vinda okkur í það fyrr en seinna að ganga frá skipulagsmálum miðhálendisins. Það má ekki miklu lengur við svo búið standa að miðhálendið sé án stjórnsýslu og án skipulags. Þess vegna vilja menn að þessir hlutir séu settir í eðlilegt samhengi, að um stjórnsýslu og skipulag verði að ræða. Menn vilja jafnframt að það sé gert þannig að ekki hljótist af slys. Málið þarf því að skoða betur en verið hefur og ríkisstjórnin þarf að hlusta á fleiri en hún hefur hlustað á til þessa vegna þess að þetta mál á ekki að snúast um sérhagsmuni heldur almannahag.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, benda á að hér hefur hópur þingmanna lagt til brtt. á þskj. 1423 við frv. á þann veg að 1. mgr. 1. gr. falli brott og að ákvæði til bráðabirgða falli brott. Við mundum þannig samþykkja þetta frv. núna, hversu sátt eða ósátt sem við kunnum að vera við ýmsar aðrar greinar þess, þannig að þær sveitarstjórnir sem taka við í byrjun næsta mánaðar geti strax farið að vinna eftir þeim almennu ákvæðum sem eru í eðlilegu framhaldi af þeim almennu sveitarstjórnarlögum sem nú er unnið eftir. Þau ákvæði sem snúa að miðhálendinu mundu hins vegar falla brott. Sú umræða gæti haldið áfram og í fyllingu tímans, þegar náðst hefur eðlileg sátt um þetta mál, þá tökum við þau atriði til afgreiðslu hér á hinu háa Alþingi.