Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 17:48:40 (6849)

1998-05-25 17:48:40# 122. lþ. 132.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[17:48]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það gerir ruglingslegum málflutningi og málstað hv. þm. Kristjáns Pálssonar lítið gagn að tíunda íbúatölu einstakra sveitarfélaga. Ef hv. þm. hefði hlýtt á ræðu mína hefði hann auðvitað heyrt að ég lauk henni á því að fjalla sérstaklega um að þetta mál snerist hvorki um traust eða vantraust á sveitarstjórnum eða sveitarstjórnarmönnum.

Vandinn í málinu er hins vegar sá að menn hlusta ekki. Þegar hv. þm. kemur eina ferðina enn og talar um að það sé málflutningur jafnaðarmanna sem hafi ruglað einhverja í ríminu kemst maður ekki hjá að velta því fyrir sér hvernig hv. þm. lítur yfir höfuð á almannasamtök, vilja þeirra og hugmyndir þeirra um það hvernig málum sé skipað. Það er svo fráleitt að halda því fram og liggur við að það sé hneisa að málflutningur einstakra þingflokka, þó merkilegir séu, ráði úrslitum. Það má undrum sæta að menn leyfi sér slíkt.

Við erum að tala um samtök þeirra sem gerst þekkja til á hálendinu, samtök um ferðalög og útivist. Við erum að tala um marga lögfræðinga, m.a. prófessora í umhverfisrétti. Við erum að tala um sérfræðinga á ýmsum sviðum, m.a. skipulagsfræðinga. Við erum að tala um listamenn. Við erum að tala um ritstjóra Morgunblaðsins. Við erum að tala um borgarstjórnarflokk Sjálfstfl. Er þingflokkur jafnaðarmanna búinn að rugla alla þessa aðila og yfir 70% þjóðarinnar svo í ríminu að hinn stóri meiri hluti á Alþingi getur ekki leiðrétt það þannig að menn séu rólegir? Þetta er ekki boðlegur málflutningur, herra forseti.