Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 17:50:58 (6850)

1998-05-25 17:50:58# 122. lþ. 132.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[17:50]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég átti erfitt með að átta mig á þessu andsvari hv. þm. en það var að heyra á henni að helst væru það hagsmunasamtök sem hefðu vit á því að skipuleggja hálendið. Ég ætla ekki að draga úr því að ýmis samtök, sérhagsmunasamtök eins og hún talar um, hafa vit á ýmsum sérstökum þáttum sem snúa að nýtingu hálendisins en það eru sérstakir aðilar sem hafa sérhæft sig í að sjá yfir sérhagsmunina og taka á heildarhagsmunum en ekki sérhagsmunum. Auðvitað standa þessi sérstöku samtök fyrir sérhagsmuni sína.

Er hv. þm. að leggja til að ritstjórnarfulltrúi Morgunblaðsins sitji í einhverri hreppsnefnd þarna uppi á miðhálendinu og kannski einhver úr Sjálfstfl., minni hlutanum í Reykjavík, jafnvel frá Skotvís eða Ferðafélagi Íslands? Ég átta mig ekki almennilega á því hvaða hugmyndir jafnaðarmenn hafa um miðhálendið. Þeir hafa talað um að gera þetta að einhverju sérstöku sveitarfélagi. Hvað þýðir það? Þýðir það að það eigi að vera sérstök hreppsnefnd, sérstakur sýslumaður, heilbrigðisfulltrúi, byggingarfulltrúi, væntanlega lögregla?

Hvað er hv. þm. að tala um ruglingslegan málflutning? Ekki hefur komið eitt einasta atriði fram í málflutningi þeirra sem bendir til að þau viti sjálf, í þessum hv. þingflokki, hvernig þau vilji stjórna miðhálendinu nema þá bara hafa þetta eitthvert sérstakt svæði. Útfærslan er engin önnur en sú að segja bara: Það þarf að fresta málinu. Það er alveg bráðnauðsynlegt að fresta málinu. En í sjálfu sér er engin ástæða fyrir því hvers vegna þarf að fresta. Þetta mál hefur verið til umræðu síðan í desember í fyrra og hefur verið þrautrætt. Það er alveg furðulegt að vel gefnir þingmenn skuli ekki enn þá getað skilið um hvað þetta snýst.