Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 18:17:07 (6854)

1998-05-25 18:17:07# 122. lþ. 132.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, SighB
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[18:17]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir sagði fyrr í dag orð sem eru kjarnaatriði í þessari umræðu. Hv. þm. líkti þeirri afgreiðslu sem hér er að fara fram við þá afgreiðslu sem á sínum tíma fór fram á lögunum um stjórn fiskveiða. Þar sagði í 1. gr. að nytjastofnar við Ísland séu sameign íslensku þjóðarinnar en í framkvæmdinni var síðan örfáum aðilum afhentur umráðarétturinn, ráðstöfunarrétturinn, á þessari sameign þjóðarinnar þannig að 1. gr. hefur nánast ekkert innihald annað en að væntanlega er hægt að breyta stjórnkerfinu án þess að bætur komi fyrir. Nákvæmlega það sama er að gerast hér.

Í þjóðlendufrv. eru þjóðinni færð afdráttarlaus eignarráð á því landi sem enginn einstaklingur telst eiga. Það er gott. Í því frv. sem hér er verið að ræða er verið að afhenda stóran hluta ráðstöfunarréttarins í hendur örfárra sveitarfélaga. Menn hafa áhyggjur af því hvernig þessi sveitarfélög muni fara með þau mál. Það er eðlilegt. Það er ekki vegna þess að þessi sveitarfélög séu skipuð íbúum sem séu á einhvern hátt vanhæfari en íbúar þéttbýlisins. Það er ekki ástæðan.

Ég segi bara einfaldlega sem svo að í þeirri götu sem ég bý eru svona 130--150 íbúar. Ég treysti þeim íbúum, 150 íbúum, ekki til þess að sjá um löggæslu, gróðureftirlit, byggingareftirlit, skipulagsmál og almannavarnir á einhverri sneið af hálendinu sem næði upp á miðjan Vatnajökul. Hið nákvæmlega sama gildir um 150 íbúa sveitarfélags. Þetta er allt of lítil stjórnsýslueining til þess að hægt sé að fela viðkomandi aðilum slíkt vald. Menn ráða ekkert við þetta og skiptir þá engu máli hvort þeir búa í Reykjavík, í Reykjaneskjördæmi eða einhvers staðar annars staðar. Þetta er ekki vantraust á viðkomandi íbúa. Þetta eru bara einfaldlega staðreyndir. Menn mundu ekki leggja slíkt verk, svo yfirgripsmikið verk, á herðar 150 Reykvíkinga fremur en menn ættu að leggja slík verk á herðar 150 íbúa lítils sveitarfélags úti á landi.

Það er ýmislegt annað sem kemur upp, virðulegi forseti, og verður til þess að menn eru tortryggnir á þessa lausn mála, m.a. hagsmunatengsl sem þarna koma upp. Nú langar mig til þess að gera grein fyrir einu slíku máli, virðulegi forseti, í lok umræðunnar. Máli sem hefur rekið á fjörur nokkurra þingmanna nú þegar. Ég veit að nokkrir þingmenn hafa fengið fréttir af því máli. Mér finnst full ástæða til þess að rekja það í lokin til þess að sýna um hvað við erum að tala, sem erum hrædd um að óeðlileg hagsmunatengsl geti skapast þegar fámennum sveitarfélögum er fenginn í hendur jafnmikill réttur og hér er um að ræða.

Öll munum við eftir því að fyrir nokkrum árum síðan kom upp svokallað Geitlandsmál. Skotveiðimaður var á ferð á hálendissvæði þar sem hreppar höfðu auglýst bann við skotveiði. Hann var tekinn og af honum tekin byssan og veiðin. Maðurinn fór með málið fyrir Hæstarétt. Niðurstaða Hæstaréttar varð sú í þessu máli að umrædd sveitarfélög, sem höfðu bannað viðkomandi veiðimanni að stunda þar sitt sport, gætu ekki sannað eignarrétt sinn á Geitlandi og því bæri manninum frjáls umferð um þetta land. Afstaða Hæstaréttar liggur fyrir. Þeir aðlægu hreppar sem um ræðir eiga ekki landið. Engu að síður gerðu þessir hreppar, þann 24. ágúst 1993, þ.e. Hálsahreppur og Reykholtsdalshreppur, samning við ferðaþjónustufyrirtæki sem heitir Langjökull hf. 1. gr. samningsins hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Leigusalar [þ.e. hrepparnir tveir] leigja Langjökli hf. þann hluta Geitlands sem afmarkast af Hafursfelli að norðan og með hugsaðri línu úr Hafursfelli þaðan sem styst er úr því í Geitlandsgíg og beint vestan við gíginn 100 metrum neðan við brú á Geitá sem Langjökull hf. lét byggja sumarið 1973. Þaðan ræður Geitá til upptaka sinna. Þá ráðast vatnaskil af Langjökli á Hafursfelli.``

Með öðrum orðum: Sveitarfélögin eru að leigja þarna land til ferðaþjónustu sem Hæstiréttur segir að þau eigi ekki. Engu að síður gera þau þennan gerning. Síðan er tekið fram, þrátt fyrir niðurstöðu Hæstaréttar í máli sem um það fjallar, í 4. gr. að meðferð skotvopna sé bönnuð innan hins leigða svæðis þó að Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að hrepparnir geti ekki bannað það. Engu að síður er það tekið fram í leigusamningnum. Það er hins vegar aukaatriði en í 3. gr. segir um leigugjaldið að leigutaki skuli ekki greiða leigugjald fyrstu 10 árin en að þeim tíma liðnum verði það endurskoðað og síðan segir:

,,Leigusalar lofa að veita ekki öðrum aðilum heimild til reksturs skyldrar starfsemi á eða við hlið hins leigða svæðis sem leigusalar hafa umráð yfir.``

Það er sem sagt verið að afhenda leigutökunum, ferðaþjónustuaðilunum, einkarétt á að nýta landsvæði sem viðkomandi hreppar eiga ekki samkvæmt dómi Hæstaréttar. Viðkomandi aðila, sem vill svo til að er einn af íbúum í þessum tveimur hreppum, er veittur einkaréttur á því að stunda ferðaþjónustu á þessu landi og reisa þau mannvirki sem honum þóknast, enda sé að sjálfsögðu farið að kröfum náttúruverndaraðila í þeim efnum.

Hvernig nýtir svo leigutakinn þau réttindi sem honum er afhent? Í kynningarbæklingi frá ferðaþjónustuaðilanum er staðháttum lýst, m.a. að Langjökull sé einn stærsti jökull Evrópu, 950 ferkílómetrar, 1.400 metra hár, íshellan er allt að 700 metra þykk. Tekið er fram að aðeins 97 km séu frá jaðri hans til Reykjavíkur, fært öllum farartækjum að jöklinum yfir sumartímann. Hvað segir svo í kynningarritinu? Það segir, með leyfi forseta:

,,Þess má geta að Langjökull ehf. er eina fyrirtækið sem hefur heimild til að starfrækja ferðaþjónustu við jökuljaðarinn Borgarfjarðarmegin.``

Í kynningarbæklingnum er tekið fram að þetta fyrirtæki hafi fengið einkarétt á að reka ferðaþjónustu við Langjökul, Borgarfjarðarmegin, samkvæmt samningi við hreppa um afnot á landi sem Hæstiréttur hefur komist að niðurstöðu um að sé ekki eign þeirra. Síðan er bætt um betur og segir, með leyfi forseta, orðrétt í kynningarbæklingnum:

,,Ekki er hægt að fara á jökulinn án þess að fara um einkalóð fyrirtækisins.``

Með öðrum orðum, allt það landsvæði sem leigusamningurinn fjallar um í 1. gr. sem ég las hér áðan, allur sá hluti Geitlands sem þar er lýst og Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að enginn eigi, er meðhöndlaður sem einkalóð fyrirtækis sem hafi einkarétt á ferðaþjónustu á þessu svæði. Með setningunni ,,ekki er hægt að fara á jökulinn án þess að fara um einkalóð fyrirtækisins`` er látið í það skína að þetta fyrirtæki geti lokað veginum sem liggur um þessa einkalóð og meinað þannig öðrum en þeim sem skipta við fyrirtækið að fara á einn af jöklum Íslands.

Herra forseti. Þetta er dæmi um það sem ekki má. Þetta er dæmi um það sem er óeðlilegt, að sveitarfélög nýti sér rétt sem þau hafa ekki þar sem þau hafa ekki eignarhald á þessu svæði, samkvæmt úrskurði Hæstaréttar. Það er óeðlilegt að þau skuli nýta sér slík réttindi til þess að semja við einn aðila um einkarétt til ferðaþjónustu og sá hinn sami skuli eftir þann samning kalla allt þetta stóra landsvæði Borgarfjarðarmegin Langjökuls, allt upp að vatnaskilum á jöklinum, einkalóð sína. Hér er um að ræða allt land upp úr Borgarfirði inn á miðja bungu Langjökuls. Um það er fjallað sem einkalóð tiltekins fyrirtækis sem hafi einkarétt á allri ferðamannaþjónustu á þessu svæði.

Sjá menn ekki í hendi sér, virðulegi forseti, hvað hér er að gerast? Sjá menn ekki í hendi sér hvað það þýðir, þegar viðkomandi sveitarfélög hafa með frv. hæstv. sveitarstjórnarmálaráðherra, fengið leyfi til þess --- þá er ekki lengur spurningin um eignarréttinn eins og núna --- að leigja eitthvað sem enginn á, leyfi til þess að gera samning, svipaðan þessum, til eins árs í senn, við slíkan aðila. Þetta er að sjálfsögðu hreint hneyksli, virðulegi forseti, en þetta er það sem menn óttast að muni gerast. Það eru fleiri dæmi til, virðulegi forseti, um að menn haldi svona á málum.

Með samningi eins og þessum og umfjöllun eins og þeirri sem leigutakar leyfa sér, er verið að gera nákvæmlega það sem menn eru hræddir við. Það er verið að meðhöndla hálendi Íslands þannig að einhverjir tilteknir ferðaþjónustuaðilar telja sig geta kastað eign sinni á það, eigi einkarétt á allri þjónustu þar. Það er meira að segja látið í veðri vaka að þeir geti lokað vegum sem byggðir hafa verið fyrir opinbert fé og liggja um, með leyfi forseta, ,,einkalóðir þeirra``, einkalóðir upp að miðju Langjökuls. Auðvitað er það lagabrot að ætla að loka fyrir umferð með þessum hætti. Þeir sem að samþykktinni standa telja með þessum gerningi að þeim sé það leyfilegt. Slíkum aðilum er hreinlega ekki treystandi fyrir því, virðulegi forseti, að gæta almannahagsmuna á miðhálendinu.

Ég vildi aðeins geta um þetta mál sem fleiri þingmenn hafa fengið í hendur til þess að varpa ljósi á að það er ekki að ástæðulausu að forsvarsmenn ferðamálasamtaka, náttúruverndarsamtaka, gróðurverndarsamtaka, umhverfisverndarsamtaka og útivistarsamtaka hafa sameinast um að mótmæla þeim gerningi sem hér stendur til og óska eftir því að afgreiðslunni verði frestað. Það er ekki að ástæðulausu að borgarstjórnarflokkur Sjálfstfl. hefur skorað á neðsta mann á listanum, hæstv. forsrh., að fresta meðferð málsins. Það er ekki að ástæðulausu að Morgunblaðið hefur tekið undir þær áskoranir. Það er ekki að ástæðulausu að hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson hefur fengið stuðning frá fulltrúaráði framsóknarmanna í Reykjavík við málflutning sinn. Það er yfirlýsing um það að fulltrúaráð Framsfl. í Reykjavík sé andvígt málflutningi annarra framsóknarmanna, þar á meðal hæstv. iðnrh. Finns Ingólfssonar.

[18:30]

Hvernig skyldi standa á því að menn hafa með þessu móti náð vopnum sínum? Að menn hafa með þessu móti getað áttað sig á því hvað um var að vera í afgreiðslum ríkisstjórnarinnar? Hver er ástæðan fyrir því? Það er málflutningur stjórnarandstæðinga og hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar hér á Alþingi. Við náðum því markmiði sem við settum okkur með málflutningi okkar, þ.e. að kynna þetta mál fyrir fólkinu í landinu þannig að þeir sem hagsmuna eiga að gæta og almannahagsmuna eiga að gæta geri sér grein fyrir því hvað hér stendur til og geti gripið til viðeigandi úrræða. Það hafa menn gert. Hvers vegna halda menn, virðulegi forseti, að borgarstjórnarflokkur Sjálfstfl. hafi örfáum dögum fyrir kosningar tekið þetta mál sérstaklega upp á arma sína? (Gripið fram í: Daginn fyrir kosningar.) Daginn fyrir kosningar. Af hverju halda menn að þeir hafi gert það? Halda menn að það hafi verið vegna þess að þeir hafi viljað styðja sérstaklega við stefnu ríkisstjórnarinnar í málinu? Nei. Þetta var örvæntingartilraun til að fá þá íbúa höfuðborgarinnar sem hafa gert sér ljóst hvert ríkisstjórnin er að stefna til þess engu að síður að greiða Sjálfstfl. atkvæði í borgarstjórnarkosningunum. Þetta var örvæntingarfull tilraun á síðasta degi fyrir kosningar, svo örvæntingarfull að eins og kom í ljós í morgun þá báru frambjóðendur Sjálfstfl. í Reykjavíkurborg þessa afstöðu sína ekki undir manninn í heiðurssæti listans, sjálfan forsrh. en létu sér engu að síður sæma að koma með svona yfirlýsingu og áskorun daginn fyrir kosningar á formann flokksins og formaðurinn lét sér það sæma í dag að láta þá áskorun flokksbræðra sinna og samframbjóðenda sem vind um eyru þjóta. Þetta er árangur af málflutningi stjórnarandstöðunnar. Árangurinn er sá að samtök stjórnarflokkanna í höfuðborginni sjálfri eru komin á skoðun okkar. Framsóknarmenn í höfuðborginni, samtök þeirra og fulltrúaráð þeirra, lýsa yfir stuðningi við þau viðhorf sem stjórnarandstaðan og hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson hafa haft uppi á Alþingi. Og kosningamaskína Sjálfstfl. í borgarstjórnarkosningum telur það vera úrslita- eða örþrifaráð þegar flokkurinn er að tapa borginni að ganga til liðs við stjórnarandstöðuna í þessu máli. Það segir hver áhrif af málflutningi okkar hafa verið.

Hæstv. forsrh. hefur látið sér það sæma að reyna að hengja verðmiða á það sem við höfum sagt hér, hvað hvert orð kosti sem stjórnarandstaðan lætur sér af munni fara á Alþingi. Hvað hafa þessi orð kostað? Þau hafa kostað hann það að standa í dag í sporum manns sem er að skora á sjálfan sig og kemst að þeirri niðurstöðu að áskorun hans á sjálfan sig sé ekki einu sinni þess virði að á hana sé hlustað. (RG: Vantraust á sjálfan sig.) Það er ekki oft sem menn standa í því að skrifa sjálfum sér bréf og gera síðan bréfaskriftina að slíku umræðuefni sem hæstv. forsrh. gerði í dag þegar hann lýsti meðframbjóðendum sínum á borgarstjórnarlista Sjálfstfl. sem hálfgerðum ómerkingum, að ekkert mark bæri að taka á áskorun þeirra.

Virðulegi forseti. Ég tel að við stjórnarandstæðingar megum mjög vel við það una, þann árangur sem við höfum náð með málflutningi okkar. Við höfum ekki þingstyrk til að koma í veg fyrir afgreiðslu þessa máls en afgreiðslan fer fram með þingmeirihluta Sjálfstfl. og Framsfl. en eins og ítrekað hefur komið fram í skoðanakönnunum gegn vilja meiri hluta þjóðarinnar. Um þessa afgreiðslu verður síðan kosið eftir eitt ár. Ég óttast ekki um viðtökur almennings við kosningamáli okkar stjórnarandstæðinga hvað þetta mál varðar, ekki neitt, þó ég eigi hins vegar varla von á því að fyrir þær kosningar komi yfirlýsing frá frambjóðendum Sjálfstfl. í Reykjavík þar sem þeir hvetja formann sinn til að skipta um skoðun og komast aftur á þá skoðun sem hann hafði sem frambjóðandi til borgarstjórnarkjörs Sjálfstfl. við borgarstjórnarkosningarnar 1998 um vorið en stóð því miður ekki lengur en eina nótt í það skiptið.