Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 18:35:47 (6855)

1998-05-25 18:35:47# 122. lþ. 132.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[18:35]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson var staðinn að því að fara rangt með í þessu viðkvæma og mikla máli og finnst mér hv. þingmenn jafnaðarmanna hafa leyft sér það á undanförnum vikum í umræðunni. Hann segir að hann treysti alls ekki 150 manna sveitarfélagi til að fara með löggæslu á hálendinu. Hver hefur haldið því fram að 150 manna sveitarfélag ætti að fara með löggæsluna? Hv. þm. virðist ekki hafa hugmynd um það nema þá hann fari rangt með vísvitandi, en löggæslan er í höndum sýslumanna. Það eru níu sýslumannsumdæmi sem koma til með að hafa löggæslu á hálendinu, ekki 35 sveitarfélög. Það eru sýslumannsembætti sem eru greidd af ríkinu, hv. þm.

Þetta er ein af þeim röksemdum sem hv. þingmenn hafa síendurtekið og fólk er farið að trúa. Hv. þm. treystir ekki heldur sveitarfélögunum eða 150 manna sveitarfélagi, eins og hann orðaði það, til að fara með heilbrigðiseftirlit. Það er ekkert 150 manna sveitarfélag sem fer með heilbrigðiseftirlit. Það eru fimm heilbrigðiseftirlitssvæði sem liggja að miðhálendinu og ætli það sé ekki um það bil 17--20 þúsund manns sem eru á bak við hvert heilbrigðiseftirlitssvæði. Að greindir þingmenn skuli halda þessu fram fyrir framan þjóðina dag eftir dag, viku eftir viku er alveg með ólíkindum. Svo eru sömu þingmenn að tala um sóma, rangfærslur og ómerkilegheit annarra og allt mögulegt er sagt í þessum ræðustóli til að gera andstæðinga sína ómerkilega. Svona nakið er nú þetta fyrir framan fólk, málflutningur hv. þingmanna jafnaðarmanna.