Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 18:42:25 (6858)

1998-05-25 18:42:25# 122. lþ. 132.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[18:42]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikil er trú hv. þm. Hann heldur að hægt sé að setja í lög að samkomulag skuli verða. Það sé hægt að setja í lög skyldu manna um að koma sér saman. Það hefur verið ansi erfitt að fá Íslendinga til að ná sáttum með því að mæla fyrir í lögum að svo skuli gert. Ég held að það breyti engu um ágreining milli sveitarfélaga um hagnýtingu miðhálendisins þó að sagt sé í lögum að ætlast sé til að þau nái samkomulagi. Það breytir því ekki að deilurnar verða áfram. Það breytir því ekki heldur að sú sáttanefnd sem hæstv. umhvrh. hefur talað fyrir að skipa eigi breytir engu í þeim efnum því að hún er valdalaus. Hún er bara einn umsagnaraðilinn til viðbótar sem fær ekki einu sinni nema nokkrar vikur til að fjalla um þetta stóra og mikla mál áður en hæstv. ráðherra staðfestir skipulagið.

Hv. þm. svaraði ekki þeirri spurningu sem ég beindi til hans sem var hvort honum fyndist þau samskipti sem ég var að lýsa áðan milli ferðaþjónustuaðila og aðliggjandi hreppa eðlileg sem virðast eiga að þjóna því markmiði að tryggja ferðaþjónustuaðilanum einkarétt til að flytja ferðafólk upp á Langjökul og gefur honum færi á því að kalla stóran hluta af hálendinu í uppsveitum Borgarfjarðar og upp að miðbungu Langjökuls einkalóð sína. (KPál: Þetta er útúrsnúningur.) Hv. þm. svaraði ekki þessari spurningu minni en sagðist treysta því að menn næðu samkomulagi á Kili. Ég vona að menn nái samkomulagi á Kili en ég spurði ekki um það, virðulegi forseti. Ég spurði um afstöðu þingmannsins til þessara samskipta. Hann passaði sig á að ræða þau ekki.