Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 18:44:42 (6859)

1998-05-25 18:44:42# 122. lþ. 132.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[18:44]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna en vegna ræðu eða atriðis í ræðu hv. 4. þm. Vestf., Sighvats Björgvinssonar, langar mig til að segja nokkur orð. Hafi hv. þm. farið rétt með, sem ég verð að treysta, í þeim upplestri sem hann fór með úr ræðustólnum er þetta prýðilegt dæmi um þá vitleysu sem viðgengst sums staðar á hálendinu. Félög eða einstaklingar hernema landsvæði eða koma sér upp aðstöðu utan við lög og rétt. Ég reikna með að Geitlandið hljóti að falla undir þjóðlendur. Nú er ég ekki nógu kunnugur þarna uppi til að vita hvort allt Geitlandið muni gera það eða ekki. En gefum okkur að þar sé um þjóðlendu að ræða. Þá er það að sjálfsögðu undir ráðstöfunarrétti forsrh. og enginn einstaklingur hvað þá sveitarfélag getur staðið í svona samningagerð. Engin mannvirki sem eiga að standa árinu lengur verða reist á þjóðlendu öðruvísi en með sérstöku leyfi forsrh. Ég tel að sá samningur sem hv. þm. vitnaði til sé marklaust plagg og sú auglýsing sem hann las upp náttúrlega dæmalaust skrum og fjarstæða og ekki takandi neitt mark á því. Svona samning er ekki hægt að gera að samþykktum nýjum sveitarstjórnarlögum og þjóðlendufrv.