Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 18:46:48 (6860)

1998-05-25 18:46:48# 122. lþ. 132.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[18:46]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir að taka svona afdráttarlaust á málinu, þ.e. að lýsa þeirri skoðun sinni að ef þetta er rétt sem hermt er, þá sé þetta ólögmætur gerningur og fráleitur, enda er hann það. Það sem ég er að segja er einfaldlega þetta: Þessi gerningur er gerður vegna þess að aðliggjandi sveitarfélög telja það henta að gera samning á þennan hátt (KPál: Það er verið að breyta þessu.) og það er verið að afhenda þessum sveitarfélögum skipulagsvald á hálendismálum, þar á meðal á þeim þjóðlendum sem (Gripið fram í.) þarna kann að vera um að ræða. Sveitarfélögin, virðulegi forseti, hafa samkvæmt frv. fullan rétt til þess að gera svona samning standi hann ekki lengur en til eins árs í senn, (KPál: Þau eiga engan rétt.) fullan rétt til að gera slíkan samning sé tekið fram í samningnum að hann standi bara til eins árs í senn. Það er hættan í þessu og ég segi: Aðilar sem misbrúka á þennan hátt sinn rétt ... (KPál: Rétturinn er ...) Virðulegi forseti. Er nokkur möguleiki til að fá þennan ágæta sjálfstæðismann sem hefur talað (Forseti hringir.) hér í dag til þess að þegja rétt á meðan ræðumaður stendur í ræðustól. Finnst mönnum eðlilegt að fela aðilum sem svona hafa tekið á málum aukinn rétt miðað við það sem þeir hafa í dag? Það er verið að gera með frv. ráðherra, því miður. (KPál: Það er rangt.) Ég óttast að viðkomandi sveitarfélög eða allt of mörg sveitarfélög muni fara út á hið gráa svæði á þann hátt sem ég hef gert að umtalsefni, virðulegi forseti, því fyrst sveitarstjórnir voga sér að gera svona gerning eftir að hafa fengið úrskurð Hæstaréttar um að óheimilt sé að ráðstafa landi með einum eða öðrum hætti því að landið sé ekki í eign viðkomandi sveitarfélaga, úr því að sveitarfélögin voga sér að gera þannig gerning eftir niðurstöðu Hæstaréttar, hvað halda menn þá að þau muni geta gert ef þau fá aukið vald í sínar hendur?