Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 18:50:24 (6862)

1998-05-25 18:50:24# 122. lþ. 132.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[18:50]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Allir sem átt hafa lóðir og lendur t.d. innan marka sveitarfélaga vita að eignaryfirráðum þeirra eru mikil takmörk sett hvað varðar þau áhrif sem sveitarfélögin hafa við skipulag. Með skipulagsákvæðum sem sveitarfélög ráða er nánast hægt að gera einkaeignarlóð verðlausa eða a.m.k. verðlitla og setja lóðareigendum hvaða skilmála sem er þannig að þó að ríkið teljist eiga þjóðlendurnar þá er sú eign mjög takmörkuð þegar litið er á vald þeirra sem hafa skipulagsmálin með höndum.

Það er heldur ekki rétt að frv. hæstv. ráðherra komi í veg fyrir að hægt sé að gera samning áþekkan þeim sem ég hef lýst. Það er hægt að gera slíkan samning ef hann miðast við að afnotin séu ekki heimiluð lengur en eitt ár í senn. Ef gerður er samningur innan eins árs, þá er hægt að gera svona samning eins og ég hef nefnt hérna. Síðan þurfa menn einfaldlega að endurnýja hann árlega. Það sem ég er að segja með þessu er að hættan er sú, þar sem hagsmunir eru jafnsamtvinnaðir og í þessu dæmi, að sveitarfélögin falli í þá freistni að mismuna fólki, ferðamönnum og fyrirtækjum eins og þarna hefur verið gert. Þetta er ástæðan fyrir því að fjölmargir óttast áhrifin af þeim aðgerðum sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að knýja hér í gegn og vilja fá meiri tíma til þess að skoða þau mál og gera sér grein fyrir afleiðingunum. Hæstv. forsrh. segir: ,,Við ætlum að skjóta fyrst og spyrja svo. Við ætlum fyrst að fá frumvörpin samþykkt og kynna þau svo eftir að búið er að samþykkja þau.`` En þá er litlu hægt að breyta, virðulegi forseti. Þess vegna er miklu skynsamlegra að gera það sem óskað er eftir, þ.e. að ríkisstjórnin fallist á að fresta afgreiðslu málanna fram á næsta haust svo að mönnum gefist betri tími til þess að skoða þau.