Svar við fyrirspurn um málefni Landsbankans og Lindar hf.

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 10:31:25 (6864)

1998-05-26 10:31:25# 122. lþ. 133.92 fundur 409#B svar við fyrirspurn um málefni Landsbankans og Lindar hf.# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[10:31]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Eins og kom fram hjá hæstv. forseta er verið að dreifa svörum við fyrirspurn minni um málefni Landsbanka Íslands og fjármögnunarfyrirtækisins Lindar. Í svörunum felst stór áfellisdómur yfir bankastjórn og bankaráði Landsbankans og einnig stjórn og framkvæmdastjóra fyrirtækisins og jafnvel yfirstjórn bankamála í landinu og ýmsar spurningar vakna vegna þessara svara.

Í svari frá hæstv. ráðherra sem hér hefur verið dreift segir að mikið hafi verið fjallað um málefni Lindar í bankaráði Landsbankans og í janúar 1996 hafi verið lögð fyrir bankaráðið ítarleg greinargerð um málið. Síðan hafi Ríkisendurskoðun skilað greinargerð sem bankaráðið fjallaði ítarlega um og kynnt var viðskrh., eins og segir í svarinu.

Þann 3. júní 1996, fyrir u.þ.b. tveimur árum, spurði ég hæstv. viðskrh. hér í þinginu um tap Landsbankans vegna Lindar. Þá svaraði hann, með leyfi forseta:

,,Þær upplýsingar sem hv. þm. hefur um tap Landsbankans á einstökum eignarfyrirtækjum bankans þekki ég ekki.`` Síðar í svarinu segist hann hafa heyrt um tap fyrirtækisins í fjölmiðlum en treysti sér ekki til að fullyrða hvort þær upplýsingar séu réttar.

Engu að síður kemur fram í svari hæstv. ráðherra að hann hafi haft undir höndum upplýsingar frá Ríkisendurskoðun, greinargerð um málið. Sú skýrsla Ríkisendurskoðunar er dagsett 29. mars 1996 en fyrirspurn mín er 3. júní 1996. Ég spyr: Var hæstv. ráðherra ekki með skýrsluna í höndum þegar hann svaraði mér? Ef svo var, þá var hann að fara með rangt mál í þinginu þegar hann svaraði mér að hann vissi ekkert um málið. Eftir því sem ég best veit, var hann með skýrslu um málið á borðinu hjá sér á þessum tíma og ég kalla eftir því, herra forseti: Hvað er hér á ferðinni?