Svar við fyrirspurn um málefni Landsbankans og Lindar hf.

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 10:39:02 (6867)

1998-05-26 10:39:02# 122. lþ. 133.92 fundur 409#B svar við fyrirspurn um málefni Landsbankans og Lindar hf.# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[10:39]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Í svari því sem þingmönnum hefur verið sent kemur m.a. fram, orðrétt tilvitnun, með leyfi forseta:

,,Í skýrslu Löggiltra endurskoðenda hf. frá 7. febrúar 1995 segir að þótt vinnubrögð við lánveitingar hafi breyst mikið til batnaðar á sl. tveimur árum beri tölur með sér að alvarlegir misbrestir hafi verið í útlánaferli og eftirfylgni félagsins með útlánum um langt skeið. Verulegan hluta af ábyrgðinni höfðu skýrsluhöfundar getað rakið til ákvarðana fyrrum framkvæmdastjóra félagsins.``

Nokkru síðar eða í janúar 1996 óskar bankaráð eftir greinargerð Ríkisendurskoðunar og tekið fram, með leyfi forseta: ,,Sérstaklega var kannað hvort ástæður væru til frekari aðgerða samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.`` --- Síðan kemur fram að Ríkisendurskoðun leggur skýrslu sína fyrir bankaráð og segir: --- ,,Niðurstaða umfjöllunar bankaráðs um greinargerð Ríkisendurskoðunar var að ekki væri ástæða til frekari aðgerða.`` Þetta er niðurstaða bankaráðsins en þetta er ekki niðurstaða Ríkisendurskoðunar vegna þess að í framhaldinu er ríkisendurskoðanda gerð grein fyrir afstöðu bankaráðsins og þá kemur fram að í framhaldi af ákvörðun sem þegar hafi verið tekin af bankaráðinu muni Ríkisendurskoðun ekki aðhafast frekar.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Voru einhverjar tillögur um aðgerðir í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem hæstv. ráðherra fékk? Var þar bent á einhverja aðra málsmeðferð en bankaráðið samþykkti og er hæstv. ráðherra ekki reiðubúinn til þess að senda alþingismönnum skýrsluna sem Ríkisendurskoðun lagði fyrir hann og bankaráðið um málið?