Svar við fyrirspurn um málefni Landsbankans og Lindar hf.

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 10:48:21 (6871)

1998-05-26 10:48:21# 122. lþ. 133.92 fundur 409#B svar við fyrirspurn um málefni Landsbankans og Lindar hf.# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[10:48]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta mál snýst svo sannarlega um trúverðugleika hæstv. ráðherra. Það er ekki hægt að gera greinarmun á orðum sem ráðherrar láta falla úr ræðustól á Alþingi eftir því hvort þeir geri það í óundirbúnum fyrirspurnatíma eftir kl. 8.30 að kvöldi eða á mánudegi eða á fimmtudegi. Þeir eru ráðherrar, bera ábyrgð sína og það verður að vera hægt að treysta orðum þeirra, ekki síst þegar þeir eru að veita Alþingi upplýsingar. Það er allt í lagi að ráðherrar skjóti sér á bak við það að þeir hafi ekki gögn undir höndum eða upplýsingar tiltækar. En að svo miklu leyti sem þeir tjá sig efnislega um mál skiptir engu máli undir hvaða dagskrárlið á þingi það er.

Í öðru lagi, herra forseti, verður að reyna að koma því á hreint að það eru hæstv. ráðherrar sem eru spurðir. Upplýsingarétturinn sem Alþingi á í gegnum fyrirspurnir á Alþingi er einn allra mikilvægasti lýðræðislegi réttur í landinu. Hann er helsta tæki stjórnarandstöðunnar til að veita aðhald og til að draga fram upplýsingar og það er stórkostlegt alvörumál hvernig hæstv. ráðherrar eru farnir að umgangast þennan rétt.

Ég tek eftir því að það færist í vöxt að hæstv. ráðherrar svari ekki einu orði frá eigin brjósti heldur sendi fyrirspurnirnar áfram til stofnana og birti síðan orðrétt svörin þaðan og bæti engu við, leggi ekkert mat á þær upplýsingar sem þeir reiða þar fram. Vegna hvers? Vegna þess að hæstv. ráðherrar eru síðan að reyna að leika það að séu upplýsingarnar rangar eða einhverju sé leynt sé þeim ekki að kenna og þeir beri enga ábyrgð. Dæmi: Svör hæstv. ráðherra um laxveiðikostnað Landsbankans í fyrra svari. Þetta mál liggur ekki svona. Hæstv. ráðherrar bera ábyrgðina og það er ekki nóg að finna að einhver embættismaður einhvers staðar í kerfinu eða einhver stofnun hafi gert mistökin. Ráðherra er ábyrgur eftir sem áður fyrir þeim svörum sem hann leggur fram á þingi hvar sem vitleysurnar hafa verið gerðar.

Ég fer fram á það, herra forseti, að forseti eða forsætisnefnd taki þessi mál til umfjöllunar. Það er óhjákvæmilegt að taka samskipti Alþingis og framkvæmdarvaldsins á þessu sviði til endurskoðunar.