Greinargerðir um málefni Landsbankans og Lindar hf.

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 11:04:37 (6879)

1998-05-26 11:04:37# 122. lþ. 133.93 fundur 410#B greinargerðir um málefni Landsbankans og Lindar hf.# (um fundarstjórn), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[11:04]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það má segja um mig að ég á svo sem ekkert sökótt við forseta en ég vek athygli á því að hæstv. ráðherra svaraði ekki fyrirspurn minni áðan þar sem ég vitna í þessa skýrslu Ríkisendurskoðunar sem er opinbert plagg að sögn ráðherrans. En þar segir að brýnt tilefni sé til þess að bankaráðið rannsaki ýmsa þætti nánar sem tilteknir eru í skýrslunni og athugi hvort draga eigi menn til ábyrgðar. Og ég spyr: Hvers vegna varð ráðherra ekki við þessari kröfu Ríkisendurskoðunar 1996? (SJS: Ráðherrann getur ekki svarað.) Hvers vegna varð hann ekki við þessari kröfu? Í svarinu frá ráðherra kemur fram að ekki hafi þótt ástæða til þess að fara frekar í þetta mál nema frekari upplýsingar komi fram. Ég spyr: Hvað var verið að fela með því að fara ekki að ráðum Ríkisendurskoðunar í þessu máli? Og ég spyr hvort hér hafi einhver verið að hylma yfir eitthvað. Vonandi kemur í ljós hvað hér var á ferðinni þegar við fáum greinargerðina sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur kallað eftir því að hún er greinilega nauðsynleg til þess að við getum farið út í efnislega umræðu um þetta stóra spillingarmál í sögu Landsbankans.