Greinargerðir um málefni Landsbankans og Lindar hf.

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 11:09:35 (6883)

1998-05-26 11:09:35# 122. lþ. 133.93 fundur 410#B greinargerðir um málefni Landsbankans og Lindar hf.# (um fundarstjórn), Forseti RA
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[11:09]

Forseti (Ragnar Arnalds):

Forseti hefur þegar margítrekað óskað eftir því við hv. þingmenn að þeir ljúki þessari umræðu og haldi ekki áfram efnislegri umræðu um mál sem hér átti einungis að fá 20 mínútna tíma. Annað kemur hér inn í og veldur því að svona viðbætur við umræður eru heldur óviðfelldnar og það er að þegar menn kveðja sér hljóðs um störf þingsins þá fá menn tveggja mínútna ræðutíma en þegar þeir kveðja sér svo hljóðs um fundarstjórn forseta þá fá þeir aukinn ræðutíma, þ.e. þrjár mínútur, og sést auðvitað af því hversu fráleitt það er að hægt sé að halda svona umræðum áfram sem hreinni viðbót við þá umræðu sem átti að vera lokið.

En svo er með okkur sem stjórnum hér fundum að við reynum í lengstu lög að sýna sanngirni og gefa þingmönnum kost á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Menn vita auðvitað ekki fyrir fram hvað ræðumenn ætla að segja og ekki minnist ég þess að nokkur ræðumaður hafi beinlínis verið rekinn úr ræðustóli þannig að hér verður að treysta á samvinnu og sanngirni. Ég ítreka því tilmæli mín sem ég hef þegar sett fram.