Greinargerðir um málefni Landsbankans og Lindar hf.

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 11:11:04 (6884)

1998-05-26 11:11:04# 122. lþ. 133.93 fundur 410#B greinargerðir um málefni Landsbankans og Lindar hf.# (um fundarstjórn), Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[11:11]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Innlegg mitt í þetta mál í þessum ræðustól skiptir máli um störf þingsins og stjórn fundarins á næstu dögum vegna þess að hér hefur verið kallað eftir upplýsingum sem skipta máli um framhald þessa máls sem ekki er lokið á þessu þingi.

Hæstv. ráðherra upplýsir það að skýrsla Ríkisendurskoðunar sé opinber og ég skil það svo að hann muni leggja hana formlega fyrir þingið á allra næstu dögum.

Hæstv. ráðherra segir að greinargerð bankaráðsins frá því í janúar 1996 sé ekki til í ráðuneytinu. Þess vegna er brýnt, herra forseti, að það komi fram hjá hæstv. ráðherra, sem skiptir máli um störf þingsins á næstu dögum, hvort ráðherra sé þá tilbúinn, af því að hann hefur boðvald yfir bankaráðinu, að beita sér fyrir því, leggja það til og óska eftir því við bankaráð að þessi margumtalaða greinargerð frá janúar 1996 verði lögð fyrir þingið. Mér finnst það innlegg í þetta mál sem skiptir máli um störf þingsins á næstu dögum. Þess vegna er formlega um það spurt, herra forseti.