Dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 11:34:47 (6893)

1998-05-26 11:34:47# 122. lþ. 133.6 fundur 436. mál: #A dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr# (heildarlög) frv. 66/1998, Frsm. GÁ
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[11:34]

Frsm. landbn. (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Í rauninni var eitt atriði sem ég gleymdi að segja frá við umræðuna áðan. Við höfum verið í samstarfi við Austurlandsumdæmi nyrðra og syðra um hvernig mörk lægju þar á milli dýralæknisumdæmanna og ég vil boða að við 3. umr. kemur brtt. við það sem lagt er til þar sem ég vona að við höfum náð samstöðu með heimamönnum um það atriði.

Ég ætla að lýsa því yfir vegna orða hv. 8. þm. Reykn. Sigríðar Jóhannesdóttur að þetta frv. verður ekki bara til vegna kröfu frá sjálfstætt starfandi dýralæknum. Það eru tvær aðrar ástæður sem eru meginástæðan fyrir því að það varð að fara í að endurskoða lögin. Það er í fyrsta lagi það sem hún minntist á. Það eru samkeppnislög og stjórnsýslulög, sem sett hafa verið, og þau gera í dag kröfu um að eftirlit og þjónusta verði aðskilin, að þeir menn sem eru að praktísera séu ekki báðum megin við borðið. Þetta er skýr krafa sem er uppi á öllum sviðum í þjóðfélaginu og er erfitt að víkjast undan.

Svo má líka minna á ályktun sem aðalfundur Dýralæknafélagsins, þar sem allir dýralæknar, einnig héraðsdýralæknar, eiga aðild að, hefur sent frá sér og skorað á landbrh. að endurskoða þessi lög.

Ég gat áðan um það í sambandi við kostnað af starfi dýralækna og þær breytingar sem hér verða að ég hygg að bændur muni almennt ekki finna fyrir miklum breytingum við þetta frv. Þó er það skýrt mál að marka þarf skýra stefnu, sem ég veit að verður gerð og ég gat um í nál., hvernig farið verður með ferðakostnað og fleiri atriði og að menn tryggi þessa þjónustu um allt land samkvæmt dýraverndunarlögum.

Síðan vil ég segja varðandi ummæli hv. þm. um Keldur að þau eru öll á misskilningi byggð. Ég gat um það áðan og vil fara yfir það aftur en við segjum í nál.:

,,Þá var einnig rætt ákvæði 15. gr. vegna athugasemda Tilraunastöðvar Háskólans á Keldum og er lögð til breyting á þeirri grein. Nefndin telur rétt að taka það fram að með ákvæði 15. gr. er ekki ætlunin að breyta verkaskiptingu og samstarfi yfirdýralæknis og Tilraunastöðvarinnar á Keldum frá því sem nú er.``

Við erum fyrst og fremst að tryggja landbúnaðinum að þeir hafi þessa aðstöðu klára á Keldum og vonumst til að það samstarf sem þar hefur verið haldi áfram og verði í góðum farvegi. Í rauninni efast ég ekki um það en þykir rétt að tryggja það í lögunum að þessi aðstaða sé fyrir hendi þannig að þar er engin breyting að verða heldur er verið að negla það enn skýrar að landbúnaðurinn hefur þar aðgang að þessari tilraunastöð til að kryfja dýr og fleira.

Ég held að ég þurfi þá ekki að hafa fleiri orð um þetta mál, hæstv. forseti.