Dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 11:56:44 (6895)

1998-05-26 11:56:44# 122. lþ. 133.6 fundur 436. mál: #A dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr# (heildarlög) frv. 66/1998, landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[11:56]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. landbn. fyrir starf hennar að frv. sem er til umræðu og lýsa ánægju minni með að þrátt fyrir allt er þó sameiginleg niðurstaða frá landbn. um afgreiðslu málsins og brtt. sem lagðar eru til við frv. með þó einum fyrirvara sem hér hefur komið fram og verið gerð grein fyrir.

Ég ætla út af fyrir sig ekki að endurtaka þá umræðu sem fór fram við 1. umr. um málið þegar ég mælti fyrir því en það kom að hluta til fram í máli hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingríms J. Sigfússonar, að sannleikurinn er sá að ástæðurnar fyrir þessu frv. og þeim breytingum sem hér eru lagðar til og þeirri þróun sem menn horfa upp á að án allra lagabreytinga og þrátt fyrir að við værum ekki að gera neinar breytingar á lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, þá búum við við þær erfiðu aðstæður sem hann var að lýsa. Við búum við það ástand í dag að erfitt er að manna svæðin. Það er erfitt að manna afskekktar byggðir með þessari þjónustu þó svo við vildum gera það sem hægt er í því sambandi jafnvel þó settir væru í það fjármunir. Það kann að hafa einhver áhrif og kynni að leiða til þess að tímabundið væri hægt að veita þjónustu. En þróunin er þrátt fyrir allt sú að erfiðara er að fá menn til að sitja þessi embætti. Við þekkjum væntanlega báðir vel til þess hvernig staðan er einmitt nú um þessar mundir í kjördæmi okkar á norðausturhorninu þar sem ekki hefur tekist þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir yfirdýralæknisembættisins sem hefur fylgst með því og reynt að sjá til þess að héruð og embætti séu setin og þrátt fyrir aðstoð landbrn. í því efni hefur ekki tekist að manna sum héruðin. Ég veit ekki hvort við eigum að kalla þetta illviðráðanlega þróun. Þetta er a.m.k. þróun sem er að gerast og skattstofusagan sem hv. þm. tók í ræðu sinni er kannski gott dæmi um það að þrátt fyrir fyrirheit, loforð og vilja til þess að hafa hlutina með öðrum hætti þá gerist það ekki. Að hluta til er það vegna breyttrar tækni, vegna gjörbreyttra aðstæðna. Það á a.m.k. að einhverju leyti við í því dæmi sem hv. þm. tók en það á kannski líka að einhverju leyti við í sambandi við þá þróun sem hefur orðið á undanförnum árum varðandi dýralæknaþjónustuna.

Ég er ekki að lýsa sérstakri ánægju minni með þá þróun en ég tel að frv. sem er lagt fram og þær tillögur sem þar eru settar fram séu þó í raun til komnar vegna þess að meira og minna er verið að taka mið af staðreyndum í þessu efni. Eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi reyndar í ræðu sinni er hluti af því það að með því að stækka umdæmin telja þeir sem unnu að þessari frumvarpssmíði að mestu að það geti leitt til þess að auðvelda mönnun héraðanna, að það verði eitthvað auðveldara að fá menn til þess að sitja í Þingeyjarumdæmi þar sem kannski þrír dýralæknar starfi saman en í tveimur eða þremur smærri héraðsdýralæknisumdæmum að óbreyttu og það hefur ekki leyst vandann. Tveir héraðsdýralæknar skulu skipa þetta umdæmi svo það sé bara tekið sem dæmi samkvæmt frv. Þó eru væntingar um að þar starfi þrír læknar áfram og kannski væri auðveldara að fá þá til að starfa þannig saman. Það segir þó ekki að þeir skuli vera á einum stað hvort heldur það yrði Húsavík, Þórshöfn eða einhverjum öðrum stað í héraði. Þeir gætu auðvitað verið á tveimur stöðum eða þremur. Það er ekkert sem skikkar í því efni. En viðbúið er að tilhneigingin verði sú að þeir búi saman m.a. til þess að auðvelda starfið, fá faglega þjónustu eða stuðning hver af öðrum o.s.frv. sem við þekkjum úr öðrum þáttum svipaðs eðlis. Við getum tekið heilbrigðisþjónustuna og heilsugæslustöðvarnar í því sambandi. Ég þekki vel þá sögu frá því að ég sat í heilbrrn. að erfitt var að manna þessi svæði og tókst þó reyndar í það minnsta tímabundið með staðaruppbót og það er kannski það sem hv. þm. er að ýja að þegar hann talar um að það mætti kannski fara aðrar leiðir í þessu efni. En okkur hefur ekki tekist að ná því fram.

[12:00]

Þar sem þetta kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. og einnig í ræðu hv. 8. þm. Reykn., þegar hún gerði grein fyrir fyrirvara sínum, langar mig aðeins að minna á áhyggjur vegna greiðslu hluta ferðakostnaðar sem kveðið er á um í 13. gr. frv. Í greinargerð frv. er gerð athugasemd við einstakar greinar þar sem m.a. er bent á að þetta eigi sér hliðstæðu, t.d. í Noregi en þar er reynt að taka þátt í greiðslu við hluta ferðakostnaðar þar sem farið er um langan veg. Vissulega er ætlunin með þessari grein að taka þátt í slíkum kostnaði og Bændasamtök Íslands hafa bent sérstaklega á það í ályktunum sínum um málið sem hafa reyndar stutt frv., framlagningu þess og lögfestingu en hafa ítrekað að hugað verði sérstaklega að þessum þætti. Ég minni á að í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn., sem fylgir frv., er einnig gert ráð fyrir að þar þurfi að koma til viðbótarkostnaður til að framfylgja þessu ákvæði.

Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins láta örfá orð falla um þetta að ég get út af fyrir sig deilt áhyggjum mínum með hv. þingmönnum sem hafa velt vöngum yfir því hvernig takist að veita þessa þjónustu og manna svæðin. Ef eitthvað er verður gert ráð fyrir því að þessi nýja lagasetning muni auðvelda það frekar en hitt því að við búum við þetta vandamál í dag. Það er sem sagt ekki að skapast nú og það er alls ekki að skapast með þessu frv.

Aðeins til að undirstrika það sem kom fram hjá hv. frsm. og formanni landbn. að frv. er flutt af minni hálfu m.a. að beiðni Dýralæknafélagsins eins og kemur reyndar fram í greinargerðinni þar sem sagt er frá því hverjir hafa unnið að gerð þessa frv. og hvernig tilurðin er. Þar er m.a. sagt, með leyfi forseta:

,,Aðalfundur Dýralæknafélags Íslands haldinn á Egilsstöðum 26. ágúst 1995`` --- það er þó nokkuð mörgum mánuðum áður en ég skipa nefndina 1. febr. 1996. Þar segir áfram --- ,,samþykkti samhljóða áskorun til landbrn. og Alþingis um að taka til endurskoðunar lög um dýralækna, nr. 77/1981, og breyta þeim í samræmi við breytt starfsumhverfi dýralækna og þjóðfélagið í heild.``

Það er auðvitað það sem er verið að reyna að gera, þ.e. að taka mið af þeim aðstæðum sem fyrir eru og hafa verið að skapast í þjóðfélaginu. Samkeppnislög og stjórnsýslulög eiga kannski líka sinn þátt í því að farið er í þessa vinnu. Þó er samt ekki hægt að fullnægja eða framfylgja að fullu þeim skilyrðum sem þar eru þó sett og er ekki gert með þessu frv. Þvert á móti þó að við reynum að teygja okkur í þá átt og verða við þeim kröfum er eftir sem áður gert ráð fyrir því að í sumum héraðsdýralæknisumdæmunum þurfi dýralæknarnir að gegna í raun tvöfaldri skyldu sem er auðvitað erfitt en sýnir bara að það er ekki auðvelt fyrir okkur að fara að öllum þessum leikreglum sem við erum stundum að setja okkur miðað við þær þjóðfélagsaðstæður sem við búum við.

Varðandi brtt. hv. 8. þm. Reykn. vísa ég aðeins til þess sem fram kom í máli hv. formanns og frsm. nefndarinnar og þarf ekki að endurtaka það sem kom fram í máli hans.