Dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 12:10:48 (6898)

1998-05-26 12:10:48# 122. lþ. 133.6 fundur 436. mál: #A dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr# (heildarlög) frv. 66/1998, EgJ
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[12:10]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Það vill svo til að ég er á margan hátt sammála því sem kom fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og margt af því er talað í þeim dúr sem vissulega er mikil ástæða að gefa gaum. Það er hárrétt sem fram kom í ræðu hans að margar þær ákvarðanir sem menn hafa verið að taka veikja hinar dreifðari byggðir og veikja sérstaklega sveitarsamfélagið. Ég nefni í þessu sambandi sameiningu sveitarfélaga sem eitt dæmi í þessum efnum. Ekki er nokkur einasti vafi á því að sameining sveitarfélaga veikir þær byggðir sem eru fjarri miðkjörnunum og með því eru menn að færa áherslur til, draga úr skólahaldi og öðru þess háttar svo dæmi sé bara tekið af stóru málunum sem slíkum. Ég er sammála hv. þm. að mjög mörgu leyti.

Þeir sem voru með mér í landbn. og unnu með mér að endurskoðun á dýralæknafrv. hafa heyrt þessar ræður áður og þarf ég ekki að endurtaka þær hér. Þetta frv. er fyrir embættismennina en ekki bændurna. Málið er ekki margbrotnara en það. Ég hef stórlega athugasemdir við það hvað verið er að setja upp af embættismönnum í Reykjavík í sambandi við dýralæknaþjónustuna, búgreinadýralæknum svo að dæmi séu nefnd og ekki er um það að tala. Þeir eru settir niður hér flestir þannig að þetta mál í heild sinni hefur ýmsar hliðar.

Það er svo annað mál að ég hef undirritað nefndarálitið og gert það á grundvelli þess sem hefur reyndar komið fram í umræðunni að þetta kynni að leiða til þess að auðveldara yrði að halda dýralækna. Ég vil þó benda á að til eru fordæmi sem ganga alveg gegn þessu. Núna eru t.d. tveir dýralæknar sem hafa búsetu í Austur-Skaftafellssýslu. Annar er héraðsdýralæknir og hinn er praktíserandi dýralæknir en þeir hafa báðir önnur störf. Annar fer fyrir í sláturhúsinu og hinn er heilbrigðisfulltrúi að því er ég best veit þannig að auðvitað er ýmislegt hægt að gera til þess að gera þessi störf lífvænleg ef góður vilji er fyrir hendi.

Því er svo ekki að neita að komið hafa fram við meðferð þessa máls miklar athugasemdir úr kjördæmi mínu, Austurlandskjördæmi. Hv. formaður landbn. hefur boðað brtt. við 3. umr. Eini staðurinn eða eina byggðarlagið sem sendir ekki frá sér athugasemdir er Austur-Skaftafellssýsla sem er með tvo prýðisgóða dýralækna en þeirri breytingu sem var sérstaklega lögð til var harðlega andmælt og líka því að Vopnafjörður og Bakkafjörður flyttust til Húsavíkur í þessum efnum. Þessu hefur hvoru tveggja verið mjög harðlega mótmælt og ályktanir og athugasemdir liggja fyrir frá Vopnfirðingum, frá suðurfjarðarbúum og frá Búnaðarsambandi Austurlands. Það er um þetta sem verið er að leitast við ná niðurstöðu og bærilegri sátt.

[12:15]

Það er svo annað mál að út af stendur, eftir sem áður, norðausturhornið. Upphaflegu tillögurnar sem fram komu voru þess efnis að Norðfjarðarumdæmi yrði lagt af, --- það stendur raunar enn þá --- Austurland yrði gert að einu umdæmi með tveimur dýralæknum á Egilsstöðum og að norðausturhornið færi til Vopnafjarðar. Í stað þriggja umdæma á þessu svæði áður, þ.e. suðurfjarða eða Austurlandsumdæmis syðra, Norðfjarðar og svo Austurlandsumdæmis nyrðra, yrði þannig aðeins eitt umdæmi á Austurlandi með búsetu tveggja dýralækna á Egilsstöðum og Vopnafjörður færi svo til Húsavíkur. Við þessa skipan mála hafa menn ekki treyst sér að búa á Austurlandi. Þetta held ég að hafi verið langróttækasta aðgerðin, fyrir utan norðausturhluta landsins, þ.e. sérstaklega Þistilfjörðinn.

Þetta vildi ég að kæmi fram vegna þess að, eins og hv. framsögumaður boðaði hér, er þessari afgreiðslu ekki lokið að því leyti að það mun koma fram tillaga við 3. umr. Það er spurning hvort hægt væri með einhverjum hætti að treysta stöðu norðausturhluta landsins með þeim tillöguflutningi.

Það er fjarri því að ég sé mótfallinn frv. og ég skil þau rök sem hér hafa komið fram um það hvað það þýðir fyrir bændur sem eru nú satt að segja ekki í sérstaklega góðum málum um þessar mundir að því er varðar tekjur, afkomu og framtíðarhorfur, þá sérstaklega sauðfjárbændurnir. Ég skil áhugann fyrir þeim áhrifum sem þessar ákvarðanir koma til með að hafa á stöðu þeirra og framtíðarsýn.

Hins vegar, eins og kom fram hjá hæstv. landbrh., hefur vandinn verið sá að manna þessi héruð. Það hefur verið stóri vandinn og dauð umdæmi leysa auðvitað ekki vandamál.