Dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 12:24:15 (6901)

1998-05-26 12:24:15# 122. lþ. 133.6 fundur 436. mál: #A dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr# (heildarlög) frv. 66/1998, SJS
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[12:24]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér þykir að sönnu vænt um hjartnæmar undirtektir við mörgu af því sem ég kom inn á í ræðu minni, frá hæstv. ráðherra og hv. nefndarmönnum í landbn. Miklu vænna þætti mér þó um að tekið yrði mark á þeim og þær leiddu til einhvers. Ég vil því leyfa mér að leggja það til, af því að upplýst er að hv. nefnd ætlar að taka málið til umfjöllunar hvort sem er milli 2. og 3. umr., m.a. vegna óska heiman úr héraði á Austurlandi um breytingar á mörkum þar og annað slíkt, að einnig þeir þættir sem ég var að nefna verði teknir til skoðunar. Þar má t.d. nefna þetta sem varðar aksturinn og hvort hægt er að treysta stöðu afskekktari landshlutanna innan þessa skipulags án þess að ég sé þó að fara fram á að því sé endilega kollvarpað.

Nú þekki ég ekki eins vel til vestan til á landinu þar sem einnig eru einhverjar breytingar en varðandi norðaustursvæðið, nefni ég sem möguleika þá lausn að þótt hið nýja og geysivíðlenda Þingeyjarumdæmi verði látið halda sér sem eining í þessum efnum, þá verði sett inn það ákvæði að annar af tveimur héraðsdýralæknum í því umdæmi skuli sitja t.d. á Þórshöfn þar sem dýralæknisembætti hefur verið. Þannig þyrfti það að vera a.m.k. þar til samgöngur hafa verið bættar stórlega frá því sem nú er.

Menn verða að taka mið af þeim aðstæðum sem blasa við mönnum á svæðinu og ég held að menn mundu sætta sig prýðilega við það að fyrirkomulagið yrði tekið til endurskoðunar innan einhverra ára, ef bættar samgöngur og aðrar aðstæður gæfu tilefni til. Meðan aðstæðurnar eru eins og þær eru, blasa við hverjum manni, eru ekkert túlkunaratriði, vegalengdirnar í kílómetrum liggja fyrir og ástand veganna og væntanlega verður það nú landleiðina sem menn fara í flestum tilvikum, þá ættu menn að láta það ráða og leysa málin með einhverri tímabundinni skipan. Ég vildi leyfa mér að vona að þetta verði gert. Vaktafyrirkomulag, afleysingar og annað því um líkt mætti eftir sem áður leysa innan svæðisins og þá væri ekki endilega nein krafa um að menn væru þarna allt árið. Þjónustan væri til staðar á svæðunum, a.m.k. á álagstímum á árinu, og gengið væri frá því með einhverjum tryggilegum hætti. Ég er alveg sannfærður um að hægt væri að leysa málið ef vilji væri fyrir hendi. Kosti það einhverja aura, þá það, það sparast þá akstur á móti. Það sem mest er um vert er að menn fái þjónustu. Hún þarf að vera fyrir hendi, mönnum og dýrum til blessunar vonandi.

Ég skora á hv. landbn. að taka þetta til rækilegrar skoðunar milli umræðna og síðan getum við skipst á skoðunum um það hvernig til hafi tekist við 3. umr., ef menn ná farsælli lausn á málinu sem ég veit að mun auðvitað greiða fyrir afgreiðslu þess.