Dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 12:30:04 (6903)

1998-05-26 12:30:04# 122. lþ. 133.6 fundur 436. mál: #A dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr# (heildarlög) frv. 66/1998, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[12:30]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þetta með ferðakostnaðinn og reglurnar þar, þá leiðist manni auðvitað að vera að tortryggja að slíkt gangi eftir. En maður er bara svo hundsvekktur á því að svona fyrirheit eru gefin í tengslum við afgreiðslu mála til að sætta menn við að hlutirnir séu látnir fara í gegn og svo reynast efndirnar takmarkaðar og framkvæmdin meira og minna öll í skötulíki. Og þá er við hið háa fjmrn. að eiga, að kvelja út úr því aura í svona hluti og það er yfirleitt eins og verið sé að kreista undan nöglunum á þeim síðasta blóðdropann þegar verið er að fá einhverja aura í þjónustu af þessu tagi, eins og við þekkjum. Ég verð bara því miður, í ljósi reynslunnar, að lýsa því að ég hef ákveðna fyrirvara á þangað til ég sé að frá þessu sé gengið og það sé í höfn. Þarna þyrfti auðvitað að vera hreinn og klár fjárlagaliður eða ótvíræð heimild, t.d. í 6. gr. fjárlaga, til að stofna til útgjalda vegna samninga af þessu tagi. Mér finnst einhvern veginn að umbúnaðurinn um málið sé ekki nægjanlega traustur. Það er ekki vegna þess að ég treysti ekki hæstv. landrh. til að hafa vilja til að leysa þetta vel en ég veit við hvað er að glíma í þeim efnum. Ég þekki það af eigin raun.

Í öðru lagi, herra forseti, í sambandi við búsetuna, þá bendir hæstv. ráðherra á að hún sé ekki bundin í sjálfu sér innan héraðsdýralæknaumdæmanna, og það er rétt en það liggur nokkuð í hlutarins eðli og andi frv. er sá að það verði kannski höfuðstöðvarnar í þessum umdæmum og þar sitji þeir allir. Þess vegna finnst mér það vera hugmynd sem sé fullkomlega eðlilegt að skoða, hvort í þeim tilvikum t.d. að héraðsdýralæknarnir eru fleiri en einn, þá verði ákveðinn áskilnaður um búsetu þeirra því að í þeim tilvikum geta yfirvöld haft íhlutunarrétt þegar um embætti héraðsdýralækna er að ræða þar sem þeir eru opinberir embættismenn. Ekkert er því til fyrirstöðu að hafa ákveðinn áskilnað um búsetuna í þeim tilvikum og ef það má verða til að leysa málin á einstökum svæðum finnst mér að það eigi að skoða.