Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 14:07:08 (6911)

1998-05-26 14:07:08# 122. lþ. 133.4 fundur 559. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (mjólkurframleiðsla) frv. 69/1998, SighB
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[14:07]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi láta það koma fram að ég tel landbn. hafa gert skynsamlega breytingu, að fella burtu ákvæði, eins og var í hinu upphaflega frv., um að viðskipti með greiðslumark í mjólkurframleiðslu skuli fara fram um einn kvótamarkað. Ég treysti því og vil spyrja hæstv. landbrh., þar sem honum er falið reglugerðarvald samkvæmt brtt. meiri hlutans, hvort ekki sé öruggt að hann muni beita því þannig að þessi viðskipti geti orðið sem eðlilegust og frjálsust og án þess að reynt sé að einoka þau í gegnum einn markað eða einn leyfishafa sem milligönguaðila í þeim viðskiptum.

Hér er um að ræða að framlengja hluta búvörusamnings sem gerður var á sínum tíma. Þess vegna er mjög eðlilegt, herra forseti, þegar menn fjalla um það mál, að menn reyni að átta sig á árangrinum sem náðst hefur með þeim samningi. Í nál. minni hlutans kemur það glögglega fram, en þar segir m.a.:

,,Samningurinn um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar byggist á áliti sjömannanefndar frá 4. nóvember 1997, um framleiðslu og vinnslu mjólkur. Í álitinu er að finna ýmsar gagnmerkar upplýsingar. Meðal annars kemur fram að Hagþjónusta landbúnaðarins hafi gert samanburð á afkomu kúabænda árin 1992--96, þ.e. á gildistíma þess samnings sem hinum nýja er ætlað að leysa af hólmi. Í þeirri könnun kemur fram að á umræddu tímabili hafi greiðslumark í mjólk aukist að meðaltali úr 89.871 lítra í 98.171 lítra eða um 8.700 lítra sem er 9,2% aukning. Á þessu sama tímabili hækkuðu meðalskuldir í þessari grein úr 5,7 millj. kr. í 6,9 millj. kr. eða um 22,1%. Á sama tíma jukust eignir búanna aðeins um 0,4%. Eigið fé búanna lækkaði því á gildistíma samningsins að meðaltali um 20,8% og var á árinu 1992 50,5% en var orðið aðeins 39,8% árið 1996. Lækkandi eiginfjárhlutfall undirstrikar úttekt eigenda úr rekstrinum umfram það sem búin skila í hagnað fyrir laun eigenda. Ýmis fleiri dæmi má rekja úr áliti sjömannanefndarinnar sem öll ber að sama brunni, þ.e. að sú stefna sem mörkuð var með samningum 1991 hafi ekki reynst kúabændum sem skyldi.``

Þrátt fyrir samninginn, eins og ég las hér, hefur aðeins orðið óveruleg aukning í greininni. Skuldir mjólkurframleiðenda hafa hins vegar aukist stórkostlega og þeir hafa í miklum mæli étið upp það eigið fé sem þeir áttu áður í búum sínum og eru komnir niður í rúmlega 39% árið 1996.

Það er full ástæða til þess, þegar menn skoða þessa þróun, ef þróun skal kalla því þetta er ekki þróun heldur öfugþróun, þá er full ástæða til þess að menn endurskoði það kerfi sem byggt hefur verið á í sambandi við þennan búvörusamning. Það er alveg ljóst að með honum hefur ekki tekist að ná því sem átti að ná, þ.e. að tryggja bættan hag framleiðenda og neytenda í senn. Það hefur ekki skilað tilætluðum árangri eins og fram kom í þessum tölum.

,,Með hinum nýja samningi er stefnt að eftirfarandi markmiðum:

1. Að skapa rekstrarumhverfi í framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða sem leiði af sér aukna hagkvæmni í vaxandi samkeppni við innfluttar búvörur.

2. Að bæta afkomumöguleika í mjólkurframleiðslu svo að nauðsynleg nýliðun verði og eðlileg fjárfesting geti orðið.

3. Að nýta á sem bestan hátt skilyrði til framleiðslu mjólkur fyrir innanlandsmarkað og aðra þá markaði sem teljast hagkvæmir ...``

Því miður þá má lesa það af þeirri úttekt sem gerð hefur verið á reynslunni af framkvæmd búvörusamningsins að markmið um hagræðingu hefur ekki náðst nema að mjög litlu leyti. Afkomutölurnar sem ég rakti hér áðan og fram koma í áliti sjömannanefndarinnar benda eindregið til þess að sú leið sem valin var 1991 hafi ekki skilað tilætluðum árangri. Þess vegna er a.m.k. ástæða til þess að óttast það að með því að að framlengja samninginn á svipuðum grundvelli og með svipuðum hugsunarhætti og samningurinn frá 1991 var byggður á, þá séu menn að feta enn lengra út á þessa óheillabraut.

Þrátt fyrir þann stuðning sem kemur fram í búvörusamningnum er það því miður staðreynd að landbúnaðurinn stendur nú hallari fæti, mjólkurframleiðslan, en hún gerði þegar búvörusamningurinn var gerður. Matvæli eru enn mun dýrari fyrir neytendur á Íslandi en í þeim löndum sem við skiptum við. Þess vegna er mjög eðlilegt að menn spyrji sig hvort ekki sé ástæða til þess að láta af þessari miðstjórn í landbúnaðarkerfinu, láta af þessari ríkisforsjá og forsjárhyggju, en leyfa bændum þess í stað að ráða í meira mæli framleiðslu sinni og verðlagningu, og búa sig þannig undir þá samkeppni sem óhjákvæmilega verður innan fárra ára í þessari framleiðslugrein. Við jafnaðarmenn teljum að fremur eigi að stíga skref í þá átt en að reyna að halda áfram á svipaðri braut og menn hafa verið með búvörusamningnum, þegar niðurstaðan er sú að samningnum hefur ekki einu sinni tekist að hamla á móti rýrnandi eiginfjárstöðu mjólkurframleiðenda. Hún hefur haldið áfram að rýrna þrátt fyrir samninginn og þess vegna er spurning hvort menn ættu ekki að venda sínu kvæði í kross og taka upp þá starfshætti sem gefist hafa vel í öllum öðrum atvinnugreinum, þ.e. innleiða í meira mæli frelsi til ákvarðana um eigin framleiðslu og lögmál markaðarins í sambandi við verðlagningu og samkeppni.

Nú vil ég taka fram að ég er alls ekki með þessum orðum að gera lítið úr því sem gerst hefur í mjólkurframleiðslu á Íslandi því að vöruvöndun er þar mikil, fjölbreytni í framleiðslu sömuleiðis og íslenskur mjólkuriðnaður hefur brugðist vel við hvað slíka hluti varðar. En það breytir ekki hinu að verðið á framleiðsluvörunum er enn of hátt, þótt nokkur lækkun hafi átt sér stað ef litið er yfir lengri tímabil og afkoma bænda í núverandi kerfi er gersamlega óviðunandi. Þetta kynni að breytast til batnaðar ef menn notuðu aðrar aðferðir til stjórnunar en notaðar hafa verið til þessa og treystu bændum sjálfum betur til þess að sjá fótum sínum forráð og dragi úr þeirri miklu miðstýringu sem menn hafa viðhaft í þessari atvinnugrein um margra ára og áratuga skeið, flestum eða öllum til óþurftar og ófarnaðar.

Virðulegi forseti. Með tilvísan til þeirra röksemda sem hér hafa komið fram og eru finnanlegar í nál. minni hluta landbn. á þskj. 1403 er lagt til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar þannig að ríkisstjórnin gefi sér tíma til þess að gaumgæfa aðra möguleika og leggi síðan fyrir Alþingi á komandi hausti aðra og ásættanlegri lausn en þá sem ekki hefur skilað meiri árangri en ég var hér áðan að lýsa.