Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 14:26:21 (6917)

1998-05-26 14:26:21# 122. lþ. 133.4 fundur 559. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (mjólkurframleiðsla) frv. 69/1998, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[14:26]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ekki verður um það deilt að Alþingi fer með löggjafarvald í landinu. Ekkert á að geta truflað það. Hins vegar byggir Alþingi stundum á samkomulagi sem gert er í samfélaginu, byggir á samkomulagi sem gert er við samtök launafólks, byggir á samkomulagi sem gert er við bændur og þeirra samtök. Um þetta þekkjum við að sjálfsögðu mörg dæmi. Nú nýlega voru samþykkt lög um breytingar á löggjöf um lífeyrisréttindi sem byggðu á slíku samkomulagi, bæði almenn rammalöggjöf sem sett var í landinu um alla lífeyrissjóði og hins vegar löggjöf um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

Fjölmörg önnur lög má nefna í þessu sambandi. Í sumum tilvikum finnst svokölluðum aðilum vinnumarkaðar Alþingi ekki ganga nógu langt í þessu efni. Það risu t.d. miklar deilur um það á sínum tíma á milli opinberra starfsmanna og ríkisstjórnarinnar þegar breytingar voru gerðar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þá töldu samtök launafólks að ríkisstjórnin hefði átt að ganga til samninga við viðkomandi samtök. Ríkisstjórnin var ekki reiðubúin að gera slíkt.

Hér, í þessu tilviki, var hins vegar ákveðið að byggja lagasetningu á samkomulagi sem gert var við bændur. Þetta samkomulag á sér alllangan aðdraganda. Svokölluð sjömannanefnd vann að undirbúningi málsins í nokkuð langan tíma. Aðild að þeirri nefnd eiga fulltrúar atvinnurekenda og verkalýðssamtaka. Þegar þessi sjömannanefnd hafði skilað af sér þá gengu Bændasamtökin og ríkisstjórnin, landbrh. fyrir hennar hönd, að samningaborði og undirrituðu samning. Frv. sem hér er til umræðu er til að lögfesta nauðsynlegar breytingar á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum vegna þessa framangreinda samnings.

Nú er þeirri spurningu beint til hæstv. landbrh.: Hvað veldur því að hann ætlar ekki að virða þann samning sem hann gerði við Bændasamtökin í þessu efni? Mér finnst það vera grundvallaratriði að fá það fram. Síðan þarf að ræða þá efnisbreytingu sem hér er gerð, en samkvæmt 14. gr. frv., eins og það var upphaflega lagt fram, er gert ráð fyrir því, svo vitnað sé í frv., að:

,,Öll viðskipti með greiðslumark skulu fara um einn markað sem Framleiðsluráð landbúnaðarins eða annar aðili annast samkvæmt ákvörðun ráðherra.``

Að mati þeirra sem um þessi mál hafa fjallað er hugsunin að baki þessari lagagrein sú að með almennum markaði sem komið yrði á fót megi ná verðlagi á kvótanum niður. Almennt er talið að þetta sé til hagsbóta og auðveldi nauðsynleg viðskipti á þessu sviði. Ég leyfi mér því að gera efnislega athugasemd við þetta en jafnframt mjög alvarlega athugasemd við þessa framkomu gagnvart bændum og þeirra samtökum. Mér finnst hún óskiljanleg og óafsakanleg með öllu.