Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 15:02:43 (6932)

1998-05-26 15:02:43# 122. lþ. 133.4 fundur 559. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (mjólkurframleiðsla) frv. 69/1998, landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[15:02]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst þakka hv. landbn. fyrir vinnu hennar við afgreiðslu þessa frv. í nefndinni. Það kemur út af fyrir sig ekki á óvart þó að tveir hv. þm. þingflokks jafnaðarmanna hafi skilað séráliti og skipað sér í minni hluta við afgreiðslu málsins. Þeir hafa löngum haft nokkra sérstöðu varðandi stefnumörkun og aðgerðir sem varða stefnumótun í landbúnaði. Út af fyrir sig þarf ekki að fara mörgum orðum um það sem fram kom hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni sem mælti fyrir því nál. í fjarveru hv. þm. sem skipa sæti í hv. landbn. og höfðu skrifað undir minnihlutaálitið.

Það verður að koma fram að þó að talað hafi verið um það lengi að mikil miðstýring og ríkisafskipti væru í landbúnaði, þá er þetta þó stjórnkerfi sem bændastéttin og stjórnvöld hafa komið sér saman um. Um það hefur verið nokkur sátt þó að vafalaust megi finna eitt og annað í gegnum tíðina og segja að það hafi ekki gengið eftir eins og menn höfðu ætlað sér.

Þessi atvinnugrein er eins og svo margar aðrar, kannski allar aðrar í þjóðfélaginu, að þróast og breytast. Við búum við breytt rekstrarumhverfi og við þurfum auðvitað, í landbúnaði eins og annars staðar, að taka mið af því. Við höfum gjörbreytt mörgum þáttum í sambandi við stjórnun landbúnaðarmála og stærsta breytingin var auðvitað gerð með búvörusamningnum 1990--1991, sem hv. þm. Svavar Gestsson gerði að umtalsefni og hverjir að honum stóðu. Auðvitað var algjörlega óhjákvæmilegt að taka á málum þá, ég er sammála hv. þm. um það.

Hitt er svo annað mál að við hefðum kannski viljað sjá aðra þróun en orðið hefur síðan og ég hygg að búvörusamningurinn sem þá var gerður hafi að mörgu leyti tekið mið af því. Menn væntu þess að þróunin yrði önnur. Menn væntu þess að það yrði t.d. ekki svo mikill samdráttur í neyslu innan lands eins og raun ber vitni, á sauðfjárafurðum og dilkakjöti. Við það brast í raun sá búvörusamningur og því hefur afkoma sauðfjárbænda orðið miklu slakari og erfiðari en menn gerðu ráð fyrir þegar þeir gengu til þess samnings.

Því var það líka niðurstaða núverandi ríkisstjórnar að ganga í það mál sem fyrsta verk í landbúnaðarmálum að endurskoða þann samning og reyna að ná nýjum samningi varðandi sauðfjárframleiðsluna. Það tókst og hefur nú þegar breytt nokkru um afkomu og aðstöðu manna í þeirri grein. Sjálfsagt má þó gera betur og um það geta alltaf verið skiptar skoðanir.

Ég leyfi mér að fullyrða að sá samningur sem nú liggur fyrir um framleiðslu og vinnslu mjólkur sé stórt skref í rétta átt, verði til þess að styrkja stöðu þeirra bænda sem þá atvinnugrein stunda og renna styrkari stoðum undir landbúnaðinn þó auðvitað megi gera það með einhverjum öðrum hætti.

Það sem ég ætlaði að nefna og tengja ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar er að í þessum samningum báðum er stigið stórt skref til þess að draga úr hvers konar stjórnvaldsstýringu, styrkja atvinnugreinina sem sjálfstæða atvinnugrein og draga úr ríkisafskiptum, m.a. með gjörbreytingu á verðlagsmálum, sem er kannski stærsti þátturinn bæði í sauðfjársamningnum og þessum samningi um framleiðslu og vinnslu mjólkur. Róttækar breytingar eru gerðar á verðlags- eða verðmyndunarmálunum og það er kannski mesta breytingin og færir samninginn í átt til nútímalegri stjórnarhátta.

Hitt er svo annað, sem ég tel að sé afar mikilvægt líka, að það tókst í báðum þessum samningum að ná samkomulagi um hinn opinbera stuðning stjórnvalda við þessar atvinnugreinar. Þrátt fyrir ummæli hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur vil ég segja að ég tel eitt það mikilvægasta í þessum samningi að hann er til langs tíma og það sé mikilvægt að við gátum náð samstöðu sem gerir það að verkum að atvinnugreinin býr nú við meiri vissu til lengri tíma en hún hefði gert annars.

Af því hv. þm. sagði líka eitthvað á þá leið að aðrar atvinnugreinar byggju ekki við að þurfa slík afskipti og búa við löggjöf til lengri tíma, þá held ég að hv. þm. hljóti að hafa gleymt því að einmitt okkar undirstöðuatvinnugrein, sjávarútvegurinn, býr við að um hann gildir mjög stíf og ákveðin löggjöf. Menn hafa stundum gagnrýnt það að sú löggjöf væri ekki til nógu langs tíma og henni væri breytt af og til þannig að þar ríkti óvissa. Ég held að hér sé gott dæmi um nauðsyn þess að menn búi við rekstrarumhverfi og umhverfi af hálfu stjórnvalda sem geti ríkt til nokkuð langs tíma þannig að ljóst sé í hvaða umhverfi atvinnugreinar komi til með að starfa.

Mig langar líka að minna á það að samningurinn, sem þetta frv. tekur mið af, er gerður með stuðningi við álit svokallaðrar sjömannanefndar, af því að einnig hefur verið spurt um það og hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir velti því einmitt fyrir sér hvernig aðkoma annarra en ráðherrans, og líklega einhverrar fámennrar forustu bændastéttarinnar, væri að þessu máli. Samningurinn byggir auðvitað á áliti sjömannanefndarinnar, þar sem fulltrúar bæði launþega og atvinnurekenda eiga aðild. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þeim fyrir þeirra samstöðu í þessu máli og undirbúning þeirra á þessu frumvarpi. Fulltrúar BSRB tóku virkan þátt í þessu allan tímann og gera enn svo orð sé haft á aðkomu aðila vinnumarkaðarins að þessum málaflokki. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka fyrir það. Ég hefði gjarnan viljað að Alþýðusambandið hefði staðið að málum eins og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hefur gert. Því er nú ekki að heilsa, a.m.k. ekki eins og sakir standa, en frv. þetta gerir ráð fyrir því, verði það að lögum, að þeir komi að málinu aftur og ég leyfi mér að vona að svo geti orðið.

Nóg um það, hæstv. forseti. Ég vil að vísu líka minna á og taka undir það sem hér hefur komið fram í umræðunum, að í kjölfar þessa búvörusamnings frá 1990--91, hefur líklega engin stétt í landinu lagt meira á sig og meira af mörkum en einmitt bændastéttin, við að halda efnahagslegum stöðugleika, halda niðri vöruverði og verða við þeim framleiðnikröfum sem samningurinn gerði til þeirra. Það er a.m.k. rétt að hafa það í huga, þegar samþykkja á þennan samning hér og nú, hvernig bændastéttin hefur komið að þeim málum. Hún á vissulega þakkir skildar fyrir það. Mér finnst að hún hafi ekki alltaf notið þess í umræðunni eins og hún hefur oft og tíðum verið. Hér væri annað útlit á ýmsum hlutum ef t.d. framleiðsluvörur íslensks landbúnaðar hefðu hækkað til jafns við meðalverðlag í landinu á þessum árum síðan samið var. Það væri ekki lítil breyting sem við stæðum þá frammi fyrir, bæði varðandi verðbólgu og annan efnhagslegan stöðugleika og vafalaust ástand á vinnumarkaði. Ég held að þarft sé að menn leiði hugann að þessu.

Fyrir vikið hafa menn kannski litið á þessa samninga nokkuð öðrum augum en áður hefur verið gert. Þess vegna er nauðsynlegt að treysta í sessi þann stuðning sem hið opinbera veitir þessari atvinnugrein áfram sem þó er orðinn minni en í mörgum löndum í kringum okkur. Það er alltaf talað um að íslenskur landbúnaður sé mest ríkisstyrktur af öllum en það er ekki rétt.

Hér hafa einnig orðið miklar breytingar í vöruþróun og markaðsmálum í landbúnaðinum. Þar hefur bændastéttin og úrvinnslugreinarnar, afurðastöðvarnar, lagt mikið á sig til þess að bæta stöðu atvinnugreinarinnar og þar með, vonandi og væntanlega, afkomu bændanna til lengri tíma litið. Ég er sannfærður um að það á eftir að sanna sig.

Ég sé að hér gengur í salinn hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og mig langar þá að nota tækifærið og svara spurningu sem hann beindi til mín um hugsanlegt reglugerðarvald ráðherrans í tengslum samninginn sem við erum hér að fjalla um, og koma þá inn á það ákvæði sem virðist a.m.k. hafa borið mest á í umræðunni í dag og reyndar nokkuð í störfum hv. landbn. við undirbúning og vinnslu samningsins, þ.e. ákvæði um hvort setja ætti öll viðskipti með greiðslumark í mjólkinni á einn sameiginlegan markað eða ekki.

Það er vissulega rétt að í áliti sjömannanefndar var sú stefna mótuð að skynsamlegt væri að hafa þann hátt á og taka upp slíkt form. Síðan er frá því greint í samningnum sem gerður er við bændastéttina af hálfu tveggja ráðherra, vissulega með fyrirvara um nauðsynlegar lagaheimildir Alþingis og reyndar undirskrifað af bændaforustunni með fyrirvara um samþykki í almennri atkvæðagreiðslu mjólkurframleiðenda eins og fram hefur komið hér í umræðunum. Þetta ákvæði um einn markað með öll viðskipti tel ég alls ekki endanlega fyrir bí og ég vil undirstrika að það mál verður áfram til skoðunar.

Í 5. gr. samningsins er fjallað um skráningu og viðskipti með greiðslumark. Þar er í grein 5.3, sem er undirgrein, kveðið á um þetta ákvæði. Það segir, með leyfi forseta:

,,Viðskipti með greiðslumark eru heimil. Sé ábúandi annar en eigandi, þarf samþykki hans fyrir sölu. Öll viðskipti með greiðslumark skulu fara um einn markað sem Framleiðsluráð landbúnaðarins, eða annar aðili sem landbúnaðarráðherra ákveður, annast.``

Þetta ákvæði, síðasti málsliðurinn sem ég las upp, er síðan færður inn í frv. eins og það var lagt hér fyrir, í 14. gr. þess.

Í næstu málsgrein 5. gr. samningsins, sem er grein nr. 5.4 segir svo, með leyfi forseta:

,,Í þeim tilgangi að auka sveigjanleika núverandi kvótakerfis, auðvelda tilfærslu á greiðslumarki milli framleiðenda, auðvelda nýliðun og stuðla að raunhæfu verðlagi á greiðslumarki, munu samningsaðilar standa að könnun og mati á leiðum til að ná þessum markmiðum. Könnun þessi skal m.a. ná til mats á áhrifum hugsanlegra breytinga á hag mjólkurframleiðenda, tilkostnað mjólkurframleiðslunnar hjá framleiðendum og afurðastöðvum, nýliðun innan greinarinnar og jafnvægi milli framleiðslu og eftirspurnar eftir mjólkurafurðum. Stefnt skal að því að könnuninni ljúki fyrir 1. júní 1998.`` --- Sem er nokkuð sýnt nú þegar, vegna þess hve dregist hefur að afgreiða frv. á hv. Alþingi, að vart muni standast. Niðurlag þessarar málsgreinar, hæstv. forseti er síðan, með leyfi:

[15:15]

,,Verði niðurstaða könnunarinnar sú að einhver eða einhverjar tillögur á grunni hennar þjóni þeim markmiðum sem fram koma í 1. grein samningsins og þeim sem nefnd eru hér að ofan, mun Framkvæmdanefnd búvörusamninga, í samráði við stjórn Landssambands kúabænda, beita sér fyrir að efni þeirra verði fellt inn í samninginn eða tengt framkvæmd hans.``

Út af þessu vil ég segja það, hæstv. forseti, að ég tel ekki að það sé brot á samningnum eða honum bylt á neinn hátt þó svo að þessi eini málsliður um að öll viðskipti með greiðslumark skuli fara um einn markað, sé felldur niður úr frv. enda er gert ráð fyrir því að fram fari ítarleg könnun á öllum þeim þáttum sem varða skráningu á viðskiptum með greiðslumark skv. 5. gr. búvörusamningsins.

Þessi athugun, sem því miður verður ekki afstaðin fyrir 1. júní 1998 eins og segir í samningnum en verður vonandi þó á sumrinu, fyrir haustið, getur leitt til þess að menn komist að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt sé vegna afkomu stéttarinnar og afkomu í greininni að setja á einhvers konar markaðsform. Ég ætla ekkert að gefa mér neitt fyrir fram í því. Það getur líka vel verið að út úr því komi að óskynsamlegt væri að setja slíkan markað á. Hefði það orðið niðurstaða nefndarinnar að það hefði verið óskynsamlegt þá hefði Framkvæmdanefnd búvörusamninga og stjórn Landssambands kúabænda orðið að beita sér fyrir því að slíkur markaður yrði felldur niður aftur, lögunum þá væntanlega breytt. Ég tel því að skynsamlegra sé að standa að þessu eins og hér er gert og hef þess vegna fallist á tillögu meiri hluta landbn. fyrir mitt leyti um að greinin um viðskipti með greiðslumark skuli fara um einn markað verði felld niður á þessu stigi vegna þess að ég tel eðlilegra að það mál fari inn í þá könnun sem á að vinna í sumar með aðilum málsins skv. 5. gr. samningsins. Mér finnst það eðlilegt af því að þar er beinlínis talað um sveigjanleika núverandi kvótakerfis og að auðvelda tilfærslu á greiðslumarki milli framleiðenda. Það er nákvæmlega það sem við erum að tala um í sambandi við þennan svokallaða kvótamarkað.

Ég tel því að hér sé ekki um brot á samningnum að ræða. Ég hef skýrt það viðhorf mitt fyrir forustumönnum Bændasamtakanna. Þeir hafa út af fyrir sig haft á þessu allan fyrirvara og kann að vera að þeir telji, ef löggjafinn samþykkir þetta svona eins og hér liggur fyrir frá meiri hluta landbn., að ekki sé staðið við ákvæði hans en þá verður það að koma í ljós. Ég geri mér hins vegar vonir um að þeir muni bíða eftir þessari úttekt og niðurstöðu hennar og ég segi aftur: Leiði sú niðurstaða til þess að menn telji að skynsamlegt sé að taka upp slíkan markað, það þjóni hagsmunum greinarinnar og þjóni bændastéttinni og bæti afkomu í greininni, þá gef ég mér það að menn geti orðið sammála um að leggja til á nýjan leik að slík breyting verði gerð. Alveg eins og menn hefðu getað komist að hinni niðurstöðunni, að hefðum við sett þennan markað á nú skv. lögum og komist að þeirri niðurstöðu í nefndarstarfinu að það væri óskynsamlegt, þá hefðu menn væntanlega einnig beitt sér fyrir því eða lagt til að því yrði breytt. Ég tel að þetta sé skynsamlegri niðurstaða sem hér er lögð til, hæstv. forseti, og þarf kannski ekki að hafa mikið mál um það frekar. Ég minni þó á það, af því að menn hafa hér spurt um lögmæti slíkra aðgerða, að við bjuggum við svipaða stöðu þegar hér var fjallað um sauðfjársamninginn á sínum tíma. Þá breytti löggjafinn samningnum og við urðum síðan í framhaldi af því að gera breytingar á samningnum líka með viðauka sem bændastéttin og fulltrúar ríkisstjórnarinnar skrifuðu undir af því að það var slík breyting að hún breytti raunverulega samningnum og var að frumkvæði löggjafans. Það er auðvitað ekki einsdæmi að slíkt kunni að koma upp.

Ég tel að ég sé ekki með þessu að brjóta samninginn á nokkurn hátt eða meiri hluti nefndarinnar að gera tillögu um það þó að við samþykkjum þá tillögu sem liggur fyrir frá meiri hluta nefndarinnar, af því að hv. þm. Ögmundur Jónasson spurði af hverju ekki ætti að virða samninginn sem slíkan. Ég tel að við gerum það og efnisákvæði hans í 5. gr. eins og hún hljóðar í heild sinni.

Ég hljóp frá því að svara hv. þm. Sighvati Björgvinssyni um reglugerðarvaldið af því að í títtnefndri 14. gr. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um markaðssetningu og aðilaskipti með greiðslumark og skráningu þess.``

Það er í framhaldi af ákvörðuninni um markaðinn og annað sem kveðið er á um í þessari grein. Ég vil lýsa því yfir að ég tel ekki koma til greina að setja með reglugerð ákvæði um einn kvótamarkað. Þegar og ef löggjafinn fellir það niður úr 14. gr. þá er það mál sem þarf að taka upp aftur eftir þessa könnun sem fara mun fram nú á næstunni og þá í ljósi þess hver verður niðurstaðan þar, hvort fallist verður á kvótamarkað eða endanlega fallið frá honum.

Þetta voru þeir þættir, hæstv. forseti, sem mér fannst nauðsynlegt að tjá mig um og láta í ljós skoðun mína og afstöðu til í þessari umræðu af því að það hefur beinlínis verið spurt eftir því. Ég vonast síðan til þess að að öðru leyti fái þetta mál héðan af skjóta og farsæla framgöngu í gegnum þingið á síðustu dögum. Auðvitað hefði þurft að vera búið að afgreiða það fyrr en út af fyrir sig er ekkert um það að segja verði það afgreitt nú á seinustu dögum þingsins.

Ég er sannfærður um það og reyndar veit það nú þegar að afkoma í þessari atvinnugrein fer batnandi. Hún er sem betur fer að styrkjast. Ég er sannfærður um það að samningur til langs tíma, eins og hér er gert ráð fyrir, með vissu um það hvernig rekstrarumhverfið verður, mun gefa bændastéttinni, bændum sem stunda landbúnað eða þessa grein landbúnaðarins, betri möguleika á því að bæta afkomu sína og gera öll rekstrarskilyrði í greininni betri. Við þurfum að halda áfram að aðlaga greinina að nútímaháttum. Við stöndum frammi fyrir því að á næstu missirum þarf að hefja á ný samninga um viðskipti með landbúnaðarvörur á alþjóðlegum vettvangi og einnig á því sviði þarf bændastéttin og landbúnaðurinn í heild að halda vöku sinni og vera tilbúinn til þess að takast á við nýtt umhverfi sem þá mun vafalaust blasa við.