Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 15:55:28 (6939)

1998-05-26 15:55:28# 122. lþ. 133.4 fundur 559. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (mjólkurframleiðsla) frv. 69/1998, GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[15:55]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég má til með að gera athugasemd við ræðu hv. þm. Guðna Ágústssonar. Ég sætti mig alls ekki við þá fullyrðingu hans að málflutningur minn hafi ekki verið kvennalistalegur. Ég vil því spyrja hvað hann á nákvæmlega við. Ef hann á við það að ég hafi talið það óeðlilegt að gera samning við bændur sjö ár fram í tímann, að það sé eitthvað óeðlilegt við þá kröfu, þá skil ég ekki hvað er svona kvennalistalegt við að sætta sig við það.

Ég vil líka, vegna þessara orða hans, taka fram að í stefnuskrá Kvennalistans stendur t.d. þessi setning: Landbúnaður verði rekinn eins og hver önnur atvinnugrein sem taki mið af þörfum markaðarins og óskum neytenda. Þetta er m.a. eitt af markmiðunum eða nálgast eitt af markmiðunum sem eru með núverandi búvörusamningi. Þannig að ég mótmæli þessum málflutningi og get alls ekki séð hvar ég fór út fyrir stefnuskrá Kvennalistans. Það er náttúrlega hugsanlegt að hugmyndir hv. þm. um kvennalistakonur séu mjög óraunhæfar og þá vil ég að það komi fram hvaða hugmyndir hann á þar nákvæmlega við.