Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 16:00:08 (6942)

1998-05-26 16:00:08# 122. lþ. 133.4 fundur 559. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (mjólkurframleiðsla) frv. 69/1998, Frsm. meiri hluta GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[16:00]

Frsm. meiri hluta landbn. (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil þetta ekki almennilega. Það má eiginlega segja að nú skilji ég ekkert, þegar ég kem hér upp aftur af málflutningi hv. þm. Í fyrsta lagi vil ég taka fram að hv. þm. er sæmilega mild. Kjósendur koma að stefnumálum flokkanna. Þeir kjósa til Alþingis þannig að þeir koma að þessum málum. Stefnuskrá Framsfl. til landbúnaðarmála og stefnuskrá Sjálfstfl. til þeirra mála einnig eru nokkuð skýrar. Og þessir tveir flokkar hrepptu í síðustu kosningum yfir 60% kjósenda sem stóðu með þeim. Ég vil því að hv. þm. útskýri hvernig þjóðin á að taka þessi mál ein út úr og kjósa um þau? Þau eru alveg eins og sjávarútvegsmálin, iðnaðarmálin, Evrópumálin, atvinnumálin yfirleitt í stefnuskrá flokkanna. Og auðvitað er kosið um þau.

En það sem er mikilvægast, hæstv. forseti, er að sem betur fer er að takast bæði með löggjöf og aðgerðum að styrkja landbúnaðinn verulega í sessi á þessu kjörtímabili þannig að hann er mun sterkari nú en hann var í upphafi kjörtímabilsins. Fyrir það vil ég þakka og ég held að það skipti miklu í byggðastefnu þessa lands. Þó að landbúnaðurinn eigi ekki að borga hana þá er mikilvægt til að nýta auðlindirnar að styrkur bændanna og sveitabýlanna eflist.