Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 16:08:16 (6947)

1998-05-26 16:08:16# 122. lþ. 133.7 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[16:08]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. við frv. til laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þetta eru brtt. frá meiri hluta iðnn., eftirtöldum hv. þm. Stefáni Guðmundssyni, Guðjóni Guðmundssyni, Árna Ragnari Árnasyni, Sigríði Önnu Þórðardóttur, Hjálmari Árnasyni og Pétri H. Blöndal.

Herra forseti. Iðnn. hefur lagt mikla vinnu í þetta mál allt frá því það kom fyrst til hennar. Þá hefur og verið lífleg og mikil umræða í sölum þingsins. Margir gestir komu á fund nefndarinnar og umsagnir nokkuð margar enda gerði iðnn. tillögur um nokkrar breytingar sem voru samþykktar eftir 1. umr.

Í 2. umr. komu fram ýmsar athugasemdir, m.a. þær að ýmsir lýstu áhyggjum sínum af því að frv. fæli í sér yfirtöku á ýmsum gildandi lögum svo sem náttúruverndarlögum. Sú skoðun meiri hluta iðnn. hefur ítrekað komið fram að svo er ekki. En til þess að taka af allan vafa og lýsa vilja meiri hluta iðnn. þá gerir nefndin að tillögu sinni þær breytingar sem um getur á þskj. 1405. Flestar lúta þær að því í rauninni að vísa til annarra laga. Eru þær þessar, herra forseti:

,,1. Við 1. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Um rannsóknir og nýtingu samkvæmt þessum lögum gilda einnig náttúruverndarlög, skipulags- og byggingarlög og önnur lög sem varða rannsóknir og nýtingu lands og landsgæða.``

Með þessu er verið að taka af allan vafa, eins og ég gat um áðan, og ætti í rauninni að vera óþarfi. En vegna þess uggs sem fram kom bæði í ræðum manna og ýmissa gesta nefndarinnar vildi meiri hluti iðnn. sýna þessa hugsun sína á þennan hátt.

2. töluliður þessara brtt. snýr meira að orðalagi og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Á eftir orðunum ,,frumkvæði að og`` í fyrri málslið 1. mgr. 4. gr. komi: /eða.``

Þetta skýrir sig sjálft og þarf ekki frekari útlistunar við.

3. og 4. töluliður brtt. taka til þess hver eigi að vera umsagnaraðili. Í frv. eins og það er núna eftir 1. umr. er þess getið í 5. og 6. gr. að leita skuli álits Orkustofnunar. En í þessum töluliðum er bætt við umhvrn., þ.e. í 3. tölulið hér, með leyfi forseta:

,,Á eftir orðinu ,,Orkustofnunar`` í 3. mgr. 5. gr. komi: og umhverfisráðuneytis.``

Hið sama er í 4. tölulið, með leyfi forseta:

,,Á eftir orðinu ,,Orkustofnunar`` í 3. mgr. 6. gr. komi: umhverfisráðuneytis.``

Með þessu er í rauninni einkum verið að skírskota til náttúruverndarlaga og umhverfissjónarmiða og í því felst að undirstofnanir umhvrn. hafi aðgang að málinu, en um það kom fram nokkur uggur hjá einstökum gestum.

5. töluliður er einfaldur, með leyfi forseta:

,,Við 16. gr. 2. mgr. falli brott.``

Er það í rauninni rökrétt miðað við 1. tölulið því að efni þessa liðar hefur verið tekið inn í 1. gr.

6. töluliður hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Við 21. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Um vernd og eftirlit með leitar- og vinnslusvæðum gilda einnig lög um náttúruvernd.``

Þetta er, herra forseti, af sama toga og um getur í 1. tölulið, þ.e. til að taka af allan vafa. Í sjálfu sér ætti slíkt að vera óþarfi en með þessu kemur þó auðvitað fram hugsun og eindreginn vilji nefndarmanna.

Síðasti töluliðurinn, herra forseti, 7. töluliður:

,,3. og 4. málsl. 1. mgr. 34. gr. orðist svo: Leyfi samkvæmt þessari grein skal veitt að höfðu samráði við umhverfisráðherra. Náttúrufræðistofnun Íslands fer með eftirlit með rannsókn og nýtingu samkvæmt þessari grein.``

Hér er, herra forseti, verið að taka af allan vafa um hvert sé hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands varðandi eftirlit og rannsóknarþáttinn á sviði sem þessu.

Svo mörg voru þau orð, herra forseti. Þessi atriði skýra sig í rauninni sjálf en snúa fyrst og fremst að því frá meiri hluta iðnn. að um frv., verði það að lögum, gilda að sjálfsögðu einnig náttúruverndarlög, skipulags- og byggingarlög og önnur þau lög sem við eiga enda felst það eiginlega í orðanna hljóðan að ein lög upphefja tæpast önnur.

Hitt kann svo að verða afleiðing af þessu að gera þurfi breytingu á einstökum öðrum lögum svo sem náttúruverndarlögum og það er þá vettvangur þingsins á síðari tímum. Ég læt þetta duga, herra forseti.