Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 16:49:01 (6949)

1998-05-26 16:49:01# 122. lþ. 133.7 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[16:49]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög margt í þessum brtt. sem hér eru fluttar af minni hluta iðnn., hv. þm. Svavari Gestssyni, Gísla Einarssyni og Jóhönnu Sigurðardóttur, sem er keimlíkt þeim brtt. sem snúa að umhverfismálum og eru í brtt. meiri hlutans.

Eitt finnst mér vera athyglisvert í brtt. þeirri sem hv. þm. Svavar Gestsson hefur mælt hér fyrir. Ég tel að það sýni kannski umfram allt annað að þessi umræða hér hafi skilað okkur nokkuð fram á veg. Ég hugsa að það sé ekki ofmælt þó að fullyrt sé að Alþb. hafi í tíu ár flutt hér lagafrv. sem snúa að því að takmarka eignarrétt á jarðhita við 100 metra dýpi í jörðu. Það hefur verið lagt hér fram á mörgum þingum. Ég hugsa að það sé a.m.k. í tíunda skipti sem það er lagt fram núna.

Í brtt. þeirri sem hér er gerð tillaga um er fallið frá þessum hugmyndum um takmörkunina við 100 metra og sagt: ,,Eignarlandi fylgir eignarréttur á auðlindum í jörðu, enda séu auðlindirnar þekktar og vinnanlegar þegar lög þessi eru samþykkt. Í þjóðlendum eru auðlindir í jörðu eign íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra þegar lög þessi eru sett.``

Þarna á að fara að takmarka eignarréttinn við það sem þekkt er í dag. Mér finnst það vera mikill áfangi hjá Alþb. sem hér hefur náðst og hjá þeim sem að þessari brtt. standa og hafa áður viljað takmarka þetta við miklu þrengri mörk. Ég held að menn séu því á réttri leið að nálgast þessa hluti. Ég ítreka þó að ég held að um þá takmörkun sem þarna um ræðir gildi sama og um 100 metrana, að ekki sé hægt að takmarka þetta við tiltekin mörk þar sem eignarréttur sé þekktur og nýtanlegur.