Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 16:51:16 (6950)

1998-05-26 16:51:16# 122. lþ. 133.7 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, Frsm. minni hluta SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[16:51]

Frsm. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að við alþýðubandalagsmenn höfum miðað við 100 metra og á bak við þá tillögu hefur fremst verið það að við höfum talið okkur styðjast þar við ágætar forsendur lögspekinga sem hafa fjallað um þessi mál í gegnum tíðina. Við töldum okkur þar m.a. styðjast við niðurstöður stjórnarfrv. sem unnið var í tíð ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar 1978--79. Við höfum hins vegar alltaf gert okkur grein fyrir því að á bak við þessa tölu, 100 metra, sem slíka væru í sjálfu sér ekki mikil vísindi. Talan gæti alveg eins kannski verið 150 eða 99 metrar.

Það varð hins vegar niðurstaða okkar við meðferð þessa máls, að kanna hvort hægt væri að finna aðra takmörkun en þarna var um að ræða sem kannski gæti frekar náðst samstaða um. Ég held að af orðum hæstv. iðnrh. áðan þá hafi komið fram að kannski gæti náðst samstaða um þá takmörkun sem hér er um að ræða, þó að hæstv. ráðherra sjái sig kannski ekki í færum með að fallast á brtt. stjórnarandstöðunnar við þær aðstæður sem nú eru.

Ég bendi á að til viðbótar við tillöguna eins og við flytjum hana, sem ég held að sé tæknilega mjög snjöll vegna þess að hún nálgast málið nákvæmlega eins og í þjóðlendurfrv. --- þjóðlendulögunum núna --- þá erum við með tillögu að ákvæði til bráðabirgða um að unnið verði í þessum takmörkunarmálum áfram. Ég skora á hæstv. iðnrh. að velta því fyrir sér hvort hann geti ekki samþykkt þá tillögu. Þar er lagt til að Alþingi kjósi nefnd sem vinni í þessum takmörkunarmálum af því að ég held að ákvæðin, eins og þau eru í stjórnarfrv., dugi ekki. Þess vegna þurfum við að vinna í málinu áfram.