Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 16:55:16 (6952)

1998-05-26 16:55:16# 122. lþ. 133.7 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, Frsm. minni hluta SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[16:55]

Frsm. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er bara rangt sem haldið hefur verið fram hér af hálfu hæstv. iðnrh. í þessum umræðum. Samkvæmt venjum og samkvæmt stjórnarskrá, samkvæmt hefðum í lagasetningu, samkvæmt dómum og reynslu, þá getur Alþingi sett takmarkanir á eignarréttinum, enda liggi fyrir því almennar og málefnalegar ástæður. Það er algerlega skýrt. Í gögnum sem voru m.a. reidd fram í hv. iðnn. um þessi mál, þar sem kallaðir voru sérstaklega til fundar út af þessu máli Sigurður Líndal og Allan Vagn Magnússon, þá kom það skýrt fram. Á þeim grundvelli treysta allir stjórnarandstöðuflokkarnir sér til að segja: Við munum, ef við fáum aðstæður til, breyta þessu ákvæði á ný, frá því sem það er í stjórnarfrv. núna. Við teljum að það verði að setja ríkari takmarkanir inn í málið. Þessir flokkar segja: Við teljum okkur geta það og hafa stjórnarskrárbundinn rétt til að gera það.

Þess vegna verð ég að segja það að ég hafna mjög eindregið því sjónarmiði hæstv. ráðherra að þessi tillaga standist ekki stjórnaskrána. Hvort hún er hins vegar tæknilega fullkomin skal ég ekkert um segja, frekar en um önnur mannanna verk. Hún er það örugglega frekar en tillaga ríkisstjórnarinnar sem gengur út á að afhenda landeigendum öll auðæfi ofan í jörðinni, inn að miðju jarðar. Það er bara tóm vitleysa.