Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 17:37:25 (6955)

1998-05-26 17:37:25# 122. lþ. 133.7 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, RG
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[17:37]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég mun ekki lengja umræðuna en við erum komin að lokum umræðu um fernuna umdeildu. Það er það sem þessi fjögur frumvörp hafa verið nefnd, fernan. Sveitarstjórnarlögin með umdeildum ákvæðum varðandi uppskiptingu hálendisins, þjóðlendufrv. sem nokkur sátt var um en var umdeilt fyrir það að vera fest við hin málin og það frv. sem hér er komið að lokum umræðu um um auðlindir í jörðu þar sem verið er að færa miklar auðlindir á fárra hendur og svo húsnæðisfrv. Samanlagt hafa þessi frumvörp verið kölluð fernan og hafa verið heft saman og engu um þokað að þeim yrði öllum lokið á þessu vori þrátt fyrir öflug mótmæli, ekki bara í þingsal heldur úti í þjóðfélaginu.

Ljóst er, herra forseti, að ríkisstjórnin hefur fengið sitt fram. Það var líka ljóst í allri þeirri löngu umræðu sem farið hefur fram um þessi frumvörp að það var eingöngu spurning um tíma hvenær umræðu lyki. Hér hefur það áþreifanlega gilt að hagsmunir fárra hafa verið í fyrirúmi, ekki almennings.

Lýðræði okkar í stjórnarandstöðu er umræðan. Þann lýðræðislega rétt höfum við tekið okkur. Lýðræðislegur réttur meiri hlutans er að nýta atkvæðamagn sitt og vald á Alþingi í fyllingu tímans og það er komið að þeirri stund.

Við eigum mörg mál óafgreidd en stór hluti þeirra 40 þingmála sem á eftir að afgreiða frá Alþingi er samkomulagsmál. Þannig er það með störf Alþingis og það er algengara en fólk heldur að það er verið að afgreiða málin frá Alþingi í sátt, sátt stjórnar og stjórnarandstöðu, þau mál sem ríkisstjórnin ber fram. Það er sjaldgæfara að mál þingmannanna fái náð fyrir augum stjórnarliðanna þó nokkur slík verði afgreidd á þessu vori. En þessi fjögur mál voru óvanalega þung og erfið en vöktu jafnframt svo sterkar tilfinningar og bylgjur í þjóðfélaginu, og það hefur, herra forseti, verið hefðbundið í gegnum árin að reyna að ná sátt tímanlega þegar nálgast afgreiðslu þingmála undir vor.

Það hefur oft gerst að umdeild mál hafa verið látin hvíla til hausts af því að auðvitað veit ríkisstjórnin það að þegar hún kemur með slíkt mál, sem er þegar búið að vinna nokkuð mikið á Alþingi, í upphafi þings að hausti er það alveg ljóst að slík mál eru afgreidd á ekki mjög löngum tíma á haustþingi. En hjá þessari ríkisstjórn var enginn vilji til nokkurs samkomulags. Hjá þessari ríkisstjórn var fullkomin óbilgirni með þessi stóru mál. Þinglok voru áformuð 8. maí. Reynt var að þreifa fyrir sér um það hvort við gætum lokið þingstörfum 22. apríl og nú þegar ljóst er að þinglok verða líklega ekki fyrr en 6. júní virka þær umleitanir fremur hlálegar.

Herra forseti. Ég óttast að harka ríkisstjórnar og stjórnarmeirihlutans setji mark sitt á samskiptin þar sem eftir lifir þessa kjörtímabils. Þetta er reynsla sem setur spor. Ég lýsi allri ábyrgð varðandi þau frumvörp sem hér verða afgreidd á hendur ríkisstjórn og stjórnarmeirihluta. Það eru afdrifaríkar ákvarðanir teknar með þeim frumvörpum sem hér á að lögfesta og verða greidd atkvæði um næstu daga þegar stjórnarmeirihlutinn hefur endurheimt þinglið sitt til að eiga nægilegt atkvæðamagn til að ljúka þessum málum frá Alþingi næstu daga.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.