Ummæli viðskiptaráðherra á blaðamannafundi

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 10:33:03 (6957)

1998-05-27 10:33:03# 122. lþ. 134.93 fundur 412#B ummæli viðskiptaráðherra á blaðamannafundi# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[10:33]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Í upphafi þingfundar í gær voru málefni Lindar og Landsbanka Íslands til umræðu vegna svara við fyrirspurnum mínum um málið hér á þingi. Síðan eru komin fram frekari gögn í þessu alvarlega máli í kjölfar blaðamannafundar hæstv. ráðherra, svo sem skýrsla Ríkisendurskoðunar þar sem koma fram mjög alvarlegar upplýsingar og krafa um rannsókn í málinu. Auk þess er komið fram bréf formanns bankaráðs þar sem fram kemur að tap bankans sé mun meira en 400 millj. Þetta eru allt upplýsingar sem ráðherra hafði undir höndum í margar vikur fyrir 3. júní 1996 þegar ég spurðist fyrir um tapið.

Ráðherrann segir á blaðamannafundi í gær, herra forseti, að það hafi verið skylda Alþingis að bregðast við á sínum tíma þar sem bankaráðið var kjörið af Alþingi. Það var reynt að bregðast við hér á þingi. Ég spurðist fyrir um þetta mál og kallaði eftir upplýsingum en hæstv. ráðherra kaus að leyna Alþingi upplýsingunum. Hann sagði þinginu ósatt þegar hann sagði um tapið í Landsbankanum, í svari við fyrirspurn minni, með leyfi forseta:

,,Þessar heildarupplýsingar liggja fyrir og ég ítreka að ég þekki þær ekki nákvæmlega. Ég hef reyndar heyrt eins og hv. þm. í fjölmiðlum að tap bankans hafi verið mikið vegna tiltekins fyrirtækis en ég treysti mér ekki til að fullyrða að þær upplýsingar séu réttar.``

Hann leyndi þingið upplýsingunum. Hvernig gat þá Alþingi brugðist við? Hann leyndi þingið upplýsingunum þegar hann var með upplýsingar sem fyrrv. formaður bankaráðsins telur nú að þurfi opinbera sakarrannsókn á. Hæstv. ráðherra brást upplýsingaskyldu sinni gagnvart Alþingi fyrir tveimur árum. Trúnaðarbresturinn milli þings og ráðherrans er orðinn algjör og það er álitamál, herra forseti, hvort hæstv. ráðherra er sætt áfram á ráðherrastóli. Svo mikill er trúnaðarbresturinn.