Ummæli viðskiptaráðherra á blaðamannafundi

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 10:35:30 (6958)

1998-05-27 10:35:30# 122. lþ. 134.93 fundur 412#B ummæli viðskiptaráðherra á blaðamannafundi# (aths. um störf þingsins), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[10:35]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Þetta er í annað skipti sem hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir tekur til máls um störf þingsins í upphafi þingfundar um nákvæmlega sama mál. Hið nýja sem hins vegar hefur komið fram í málinu er staðfesting á orðum mínum frá því í gær. Þá hélt ég því fram að ég hefði haft upplýsingar um það, þegar ég svaraði þessari fyrirspurn, að tapið væri ekki 600--700 millj. kr. eins og hv. þm. fullyrti í sinni spurningu 3. júní 1996 þar sem hv. þm. orðaði þetta svo: ,,Er það rétt að tap Landsbankans vegna Lindar hafi verið 600--700 millj. kr.?``

Ég sagði það í gær að í skýrslu Ríkisendurskoðunar hefði ekkert komið fram um hvert tap Landsbankans væri. Hins vegar hefði verið upplýst að það væru 400 millj. kr. ábyrgðir sem væru í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Sú skýrsla sem lögð var fyrir blaðamenn í gær á blaðamannafundi og lögð fyrir þingið í gær staðfestir að þessar upplýsingar mínar voru réttar. (ÁRJ: Það kom ekki fram fyrir tveimur árum.) Nei, það kom ekki fram fyrir tveimur árum, það er hárrétt, hv. þm. Ef ég hefði sagt það fyrir tveimur árum að tapið væri 400 millj. kr. eða ábyrgðirnar væru 400 millj. kr. þá býst ég við að hv. þm., eins og hún gerir sér að leik hvað eftir annað, hefði reynt að snúa út úr því og nú sagt að sá sem hér stendur hefði farið með rangar upplýsingar gagnvart þinginu. Þess vegna passaði ég mig á því að fullyrða ekkert um það hvert tapið væri vegna þess að ég hafði ekki greinargóðar upplýsingar um það, en sagði þá í sama svari:

,,Nú veit ég, hv. þm., að bankaráð Landsbankans er að fjalla um útlánatöp bankans á undanförnum árum. Ég býst fastlega við að málefni Lindar sem og töp annarra aðila sem Landsbankanum tengjast verði skoðuð í því samhengi.`` Eða með öðrum orðum ég vissi, og það kom fram í mínu svari, að þessi mál voru til umfjöllunar í bankaráði Landsbankans.